08.05.1979
Neðri deild: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4491 í B-deild Alþingistíðinda. (3597)

92. mál, almannatryggingar

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Enda þótt ég sé einn af flm. frv. vil ég strax lýsa því yfir að ég tel þá nýju gerð, sem varð í meðferð n. í samráði við tryggingaráð og fleiri aðila, betri en þá sem við lögðum fram upphaflega, enda höfum við notið meiri aðstoðar frá sérfróðum mönnum en við höfðum átt kost á þegar frv. var fyrst lagt fram. Ég er þess vegna ánægður með að samstaða náðist í n. að mestum hluta til um að flytja málið í þessari mynd. Í máli hv. 1. þm. Vestf. kom enn fremur í ljós að honum finnst breytingin til bóta. Að því leyti höfum við þó komið til móts við skoðanir hans, sem ég veit að hann hlýtur að meta, og ég sé reyndar á honum að hann gerir það.

Það hefur oft verið talað um að þegar einstök atriði eru tekin út úr sé það röng stefna, alltaf þurfi að gera allt í einu. En þegar litið er yfir söguna og framkvæmdir hér á landi hefur oftast nær, að ég held, sýnt sig að ef allt á að gerast í senn gerist ekkert. Ég vil segja að ég tel að það sé spor í rétta átt, lítið spor kannske, en þó til heilla, að taka út úr þennan tiltölulega takmarkaða hóp, en hóp þó sem á við verulega heilsufarslega erfiðleika að stríða, og reyna að hjálpa honum til að fá bata á viðurkenndum meðferðarstofnunum, sem um þann sjúkdóm fjalla erlendis, og taka á þann hátt upp sama fyrirkomulag og nágrannar okkar gera. Ég er ekki í nokkrum vafa um að miklu fleiri hópar í þjóðfélaginu þurfa á svipaðri hjálp að halda og ég tel það ekki til galla á frv. að það leiði til þess að fleiri komi á eftir. Ég tel það fremur til kosta, vegna þess að ég álít að allir þeir, sem slíka meðferð þurfa að fá, ættu og þyrftu að fá hana í framtíðinni. En slíkt verður að gerast í áföngum, því að annars komumst við ekki neitt.

Öll heilbrigðisþjónusta hér á landi hefur gerst í áföngum. Við sjúkrahús nú eru miklu fleiri deildir en voru fyrir örfáum árum, að ég ekki tali um áratugum, og ef markið hefði verið sett fyrir 40–50 árum á þann hátt að sjúkrahúsin hefðu allar þær deildir sem þau hafa nú, að ég tali ekki um allar þær deildir sem þau þurfa að hafa, efa ég að við hefðum nokkurt sjúkrahús. Það gerist í áföngum að nýjar deildir koma við sjúkrahúsin. Það hefur komið augndeild, háls-, nef- og eyrnadeild, ýmiss konar deildir, hjartadeildir, ég kann ekki að nefna þær allar, en slíkt hefur allt gerst stig af stigi og hefur svo að ég viti enginn gagnrýnt að einni nýrri deild hafi verið bætt við á þeim forsendum að ekki kæmu allar hinar samtímis. Í mínum huga er því hér verið að stíga skref á langri leið, byrjunarskref. Það má vera að það skref kosti nokkurt fé, og ég tel víst að það geri það, en líka kostar nokkurt fé að vista þetta fólk á sjúkrahúsum hér. Það kemur þá og væntanlega til frádráttar að mikið fé sparast ef þetta fólk fær varanlega bót meina sinna. Þá þarf það ekki að íþyngja heilsufarsþjónustunni hér á landi framar af þessum sökum.

Það er alveg rétt hjá hv. 1. þm. Vestf., sem þekkir tryggingamál auðvitað mjög vel og ég veit að er velviljaður þeim, að tryggingalögin og almannatryggingarnar eru í stöðugri endurskoðun, og þau eiga að vera það af þeim ástæðum sem ég hef verið að gera grein fyrir, af því að við þurfum að bæta við nýjum deildum, nýjum aðferðum og nýjum tækjum og á þann hátt öðlast tækifæri til að lækna fleiri sjúkdóma. En ég tel ástæðulaust, þó að lögin séu í stöðugri endurskoðun, að bíða eftir endurskoðun sem aldrei á að taka enda. Þess vegna verðum við að fá að breyta lögunum þegar okkur finnast sérstakar og ríkar ástæður til.

Ég ætlaði ekki að hafa um þetta langt mál. Mér heyrist allir nm. a. m. k. vera velviljaðir í garð frv., einnig sá sem ekki hefur þó skrifað undir nál. Hann viðurkennir að hér sé mannréttinda- og réttlætismál. Þó að hann vildi skipa því með öðrum hætti hygg ég að ekki sé grundvallarágreiningur við hann heldur um þetta mál.