08.05.1979
Neðri deild: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4493 í B-deild Alþingistíðinda. (3599)

291. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna segir að teknir skuli upp beinir samningar ríkisvalds og bænda um verðlagningu landbúnaðarafurða og kjaramál bændastéttarinnar. Þetta hefur lengi verið ósk bænda, en ekki náðst um það samstaða. Þó hafa framleiðsluráðslögin verið í endurskoðun með tilliti til þessarar breytingar um nokkurt skeið. Fyrrv. landbrh. skipaði nefnd í þessu skyni. Sú nefnd skilaði áliti fyrir u. þ. b. tveimur mánuðum. Nefndin klofnaði í áliti sínu. Álit nefndarinnar hefur síðan verið til umræðu í samstarfsnefnd þingflokkanna sem tilnefnd var að ósk minni fyrir nokkru, en samstaða hefur ekki náðst um að flytja það frv. í heild sinni.

Ég vil taka það fram, að skoðun mín er að þessi 32 ára gömlu lög þurfi endurskoðunar í mörgum atriðum, og ég geri ráð fyrir að þeirri endurskoðun verði haldið áfram. Hins vegar er það atriði sem hér um ræðir, beinir samningar bænda og ríkisvaldsins, það sem einna brýnast er eins og nú er ástatt. Varð því sú niðurstaða að flytja það sérstaklega og þá breytingu eina við framleiðsluráðslöggjöfina eins og hún er nú orðin.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir að ríkisstj. skipi þrjá fulltrúa í Sexmannanefnd sem ákveða skal afurðaverð til framleiðenda og verð landbúnaðarafurða í heildsölu og smásölu samkvæmt ákvæðum framleiðsluráðslöggjafarinnar. Tekið er fram að ríkisstj. er skylt að skipa menn þessa með hagsmuni neytenda í huga, og má segja að þar sé reynt að mæta því sjónarmiði sem liggur að baki skipun Sexmannanefndar eins og hún er nú.

Sú önnur breyting er gerð með 2. gr. frv., að fellt er niður ákvæði laganna um afskipti sáttasemjara ef meiri hl. næst ekki í Sexmannanefnd. Reynslan hefur sýnt að það ákvæði er ekki mikils vert í því sambandi, og þykir því rétt að ágreiningi verði vísað beint til yfirnefndar, eins og gert er ráð fyrir í gildandi lögum eftir að sáttasemjari hefur fjallað um málið, enda má segja að það atriði verði síður mikilvægt þegar beinir samningar eru upp teknir með ríkisvaldi og bændasamtökum.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa langa framsögu um þetta mál. Beinir samningar bænda og ríkisvalds hafa lengi verið til umræðu og mönnum vel kunnar. Þó vil ég geta þess, að eins og nú er ástatt í málefnum landbúnaðarins verður það enn mikilvægara en áður hefur verið að slíkar viðræður geti hafist hið fyrsta. Ljóst er að Sexmannanefnd þannig skipuð fulltrúum bænda og ríkisvalds hlýtur að taka fyrir sem eitt fyrsta verkefni sitt þann vanda sem að landbúnaðarframleiðslunni og bændum steðjar vegna umframframleiðslu landbúnaðarafurða. Vil ég leyfa mér að gera ráð fyrir að nefndin, ef samþ. verður á Alþ. það frv. sem hér er til umr., taki það mál fyrir og leggi till. um lausn þess fyrir ríkisstj. ekki síðar en n. k. haust.

Ég vil í þessu sambandi jafnframt ítreka þá skoðun mína og reyndar skoðun sem hefur komið fram hjá, hygg ég, öllum hv. þm. sem um málið hafa talað, að ekki kemur til mála að bændur beri einir þann mikla vanda sem að steðjar vegna umframframleiðslu, — vanda sem kannske lýsir sér einna best í því, að um væri að ræða tekjuskerðingu á hvert meðalbú sem næmi 1.2 millj. kr. Það mál er að sjálfsögðu tengt þeirri stefnubreytingu, sem um er rætt í landbúnaði, og eðlilegt viðfangsefni beinna samninga bænda og ríkisvalds. Mín skoðun er sú, að meiri hluti þessa vanda hljóti að vera borinn af þjóðfélaginu í heild, um leið og samið er við bændastéttina um stefnubreytingu og ákveðinn samdrátt í framleiðslu landbúnaðarafurða.

Herra forseti. Ég leyfi mér að vona að hv. Alþ. sjái sér fært að afgreiða þetta mál fyrir þingslit. Ég undirstrika. að ákaflega mikilvægt er að slíkir samningar geti hafist án tafar. Segja má að án þeirra sé grundvöllur lítill til þeirrar stefnubreytingar sem nú er að unnið. Fylgjast verða að beinir samningar bænda og ríkisvalds og hinar ýmsu aðgerðir ríkisvaldsins, bæði til að leysa aðsteðjandi vanda landbúnaðarins og til að koma þar á stefnubreytingu.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.