08.05.1979
Neðri deild: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4494 í B-deild Alþingistíðinda. (3600)

291. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Þetta frv. til laga, sem hæstv. landbrh. hefur kynnt, gefur í sjálfu sér ekki tilefni til langra eða almennra umr. um hinn mikla og vandasama málaflokk, landbúnaðarmál. Kjarni málsins er sá, að hér er verið að taka upp beina samninga ríkisvaldsins annars vegar og fulltrúa framleiðenda, þ. e. bænda, hins vegar.

Hins vegar er vert að vekja á því athygli — og vekja á því rækilega athygli, að í 1. gr. frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. tilnefndir þrjá menn. Fulltrúar ríkisins í nefndinni skulu, auk þess sem þeir gæta þess að fylgt sé ákvæðum 4. gr., gæta hagsmuna neytenda í landinu og er ríkisstj. rétt að velja þá með tilliti til þess.“

Kjarninn er auðvitað sá, að hér er um að ræða tiltölulega einfaldan framleiðsluferil. Öðrum megin á þeim framleiðsluferli eru framleiðendur búvöru og hinum megin eru þeir sem neyta vörunnar og greiða fyrir hana, þ. e. neytendur. Af sjálfu leiðir þess vegna að framkvæmd þessara laga væri undir því komin að ríkisstj. bæri gæfu til þess, og það skal viðurkennt sem rétt sjónarmið, að aðrir þrír væru fulltrúar framleiðendanna, en hinir þrír þar með fulltrúar neytendanna, en ekki kannske tveir af þeim í reynd fulltrúar framleiðendanna, þannig að Sexmannanefndin væri í reynd þannig saman sett að fimm af þeim væru í reynd fulltrúar framleiðendanna, en aðeins einn fulltrúi neytendanna. Kjarni málsins er sá, að eins og 1. gr. er fram sett er það enn óljóst. Hér má greina í gegn það fyrirkomulag sem ekki hefur reynst okkur vel á undanförnum árum. Þess vegna vil ég leggja þunga áherslu á og ítreka þann skilning minn, að þeir þrír fulltrúar, sem ríkisstj. ber að tilnefna, samkv. 1. gr., verði í reynd fulltrúar neytenda, annars helmingsins sem á framleiðsluferlinum er.

Auðvitað má leiða af þessu nokkra umræðu um hvernig framleiðslumálum bænda hefur verið skipað. Einhvern veginn hefur það skipast svo að því er varðar þá tilteknu framleiðslu, að landbrh. hafa iðulega í reynd verið fulltrúar framleiðenda, þ. e. a. s. bænda. Engum dytti í hug að það væri skynsamleg skipan mála að sjútvrh. þyrfti endilega að vera útgerðarmaður eða fulltrúi þeirra eða iðnrh. þyrfti endilega að vera iðnrekandi eða fulltrúi þeirra. En af sögulegum ástæðum hafa mál svo skipast á Íslandi, að með þessa tilteknu framleiðslugrein hefur málum svo verið fyrir komið.

En allt um það er hér verið að taka upp nýtt fyrirkomulag. Það fyrirkomulag var samþykkt í samstarfsyfirlýsingu núverandi stjórnarflokka. En ég vil enn og aftur ítreka þann skilning minn, að hér sé raunverulega um þá kerfisbreytingu að ræða að þrír séu fulltrúar framleiðendanna, í þessu tilfelli bænda, og hinir þrír séu fulltrúar neytendanna og það sé Sexmannanefndin með jafnvægi þarna á milli sem eigi að komast að niðurstöðu.

2. gr. frv. fjallar svo um hvernig með skuli fara ef stendur járn í járn og niðurstaða fæst ekki.

Ég vil segja það enn og aftur, að ég óttast þann skilning einhverra að í reynd eigi þetta að verða Sexmannanefnd fimm fulltrúa framleiðenda og eins fulltrúa neytenda — eða um það bil — og ef það verður framkvæmdamátinn er um marklausa lagasetningu að ræða. Neytendur eru veigamikill þáttur alls landbúnaðardæmisins, og ég lít svo á, að hér sé verið að samþykkja helmingsaðild þeirra að Sexmannanefnd.