08.05.1979
Neðri deild: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4495 í B-deild Alþingistíðinda. (3602)

291. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég mun verða stuttorður um það frv. sem hér er til umr., en kemst þó ekki hjá að gera smáaths. við það.

Eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðh. er frv. bein afleiðing af samstarfsyfirlýsingu ríkisstj. um að beinir samningar verði teknir upp á milli fulltrúa bænda annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar. Ég vil í því sambandi benda á, að ég tel að með þessum hætti sé verið að skapa gífurlega erfiðleika hér á landi. Ég held að ríkisvaldið geti aldrei haft þá samningsaðstöðu í þessu máli sem eðlilegt og jafnvel æskilegt er að það hafi í slíkum málum.

Bændur eru framleiðendur. Það er óeðlilegt að ein stétt framleiðenda hér á landi nái þeim réttindum að geta ákveðið verð með beinum samningum án þess að tryggt sé að sjónarmið annarra komi til. Mér er að vísu ljóst að gert er ráð fyrir að fulltrúar ríkisvaldsins séu á einhvern hátt með hönd í bagga, sem ekki er skýrt nánar a. m. k. í lagagr. hvernig eigi að verða.

Eins og allir vita gilda nú lög um svokallaða Sexmannanefnd, sem hefur reyndar verið óstarfhæf um hríð. Þess ber þó að geta, að tilvonandi framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands og fyrrverandi hagfræðingur Vinnuveitendasambandsins náðu um þetta atriði samkomulagi á sínum tíma í nefnd sem skipuð var til að vinna að þessum málum. Í samkomulagi þeirra var gert ráð fyrir að verðmyndunarkerfi landbúnaðarins væri í svipuðu horfi og gildir um sjávarútveginn, þannig að þrír væru tilnefndir af neytendum, þrír af framleiðenda hálfu og einn af hálfu ríkisvaldsins. Er það að mínu viti miklu betri aðferð, þó auðvitað megi ekki skoða þessi mál sem úrlausnaratriði til frambúðar, heldur sem bráðabirgðaatriði á meðan hagir landbúnaðarins eru eins og nú háttar.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason, 7. þm. Reykv., tók til máls við þessa umr. og sagðist, að mér skildist, styðja frv. ef þess væri gætt, sem stendur í 1. gr. frv., að ríkisstj. tilnefndi fulltrúa neytenda í slíka nefnd. Ég held að þannig sé með of einföldum hætti sloppið frá málinu. Ég óska eftir að n., sem fær þetta mál til meðferðar, kynni sér þær hugmyndir sem ég hef lýst og komu fram í samstarfi þeirra tveggja aðila sem ég sagði frá.

Þess skal að lokum getið, að sjálfstæðismenn — allmargir úr þingflokknum — hafa flutt þáltill. þar sem getið er um að beinir samningar skuli teknir upp við ríkisvaldið „fyrst um sinn“, eins og það er orðað. Í grg. með þeirri þáltill. er tekið fram að nokkrir aðilar í þingflokknum hafi fyrirvara um það atriði. Ég vil hér og nú lýsa því yfir, að ég er einn þeirra aðila sem hafa um það fyrirvara. Ég ítreka eindregnar óskir mínar um að fundinn verði annar og geðslegri háttur á þessu máli í n.