08.05.1979
Neðri deild: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4496 í B-deild Alþingistíðinda. (3604)

198. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er eitt af þeim frv. sem flutt eru í samræmi við þau fyrirheit sem ríkisstj. gaf launþegasamtökunum samfara þeim ráðstöfunum sem gerðar voru í efnahagsmálum 1. des. s. l. Meginbreytingin frá eldri lögum felst í síðustu mgr. 1. gr., en hún er þannig, með leyfi forseta:

„Þegar dagvinnu er skilað með 8 stunda vinnu á dag frá mánudegi til föstudags skal næturvinna taka við á föstudögum strax og lögboðinni eða umsaminni vinnuviku er lokið.“

Í aths. með frv. því til breyt. á lögum um 40 stunda vinnuviku, sem hér er nú til umr., er tekið fram, að tilgangur þess sé tvíþættur. Því er annars vegar ætlað að leiðrétta ákveðið misrétti, sem nú er orðið með launþegum þessa lands, og hins vegar að verka sem hemill á þá óhóflega miklu yfirvinnu sem tíðkast hér á landi og allir ábyrgir menn viðurkenna að sé stórfellt vandamál.

Ef ég vík fyrst nánar að síðara atriðinu, skal það fúslega viðurkennt að hér er ekki stigið neitt tímamótaspor í átt til raunverulegrar vinnutímastyttingar, aðeins lagt á vogarskálarnar lítið lóð sem engri byltingu mun valda, en vegur þó óumdeilanlega eitthvað og gerir það réttu megin á voginni. Ég ætla að allir þm. séu á einu máli um að vinnutími hér á landi sé óhóflega langur og að því beri að stefna að draga úr honum þar sem slíks er kostur og ekki síst af þeim sökum að ýmislegt bendir til þess, að sömu eða svipuðum afköstum megi ná með aukinni hagræðingu og skipulagi þótt eitthvað sé dregið úr lengd vinnutímans. Það eru svo sjálfsagt skiptar skoðanir um hver sé hin rétta leið að því marki og hvort hana beri að fara í stórum áföngum eða stuttum skrefum. Ég tel að jöfn og sígandi þróun sé yfirleitt vænlegust til árangurs í þessum efnum. Í því ljósi bið ég hv. alþm. að skoða þann þáttinn í rökstuðningi með samþykkt frv. sem lýtur að styttingu vinnutíma í landinu.

Ég sagði áður að tilgangur frv. væri öðrum þræði að leiðrétta ákveðið misrétti í kjörum launafólks. Að mínu mati er þar um hreint sanngirnismál að ræða. Í aths. með frv. er skýrt hvernig lög um 40 stunda vinnuviku, nr. 88 frá 1971, urðu þess valdandi að sumir launþegar gátu þurft að vinna eftirvinnu í tvær stundir eftir að vinnuvikunni var að fullu lokið, en hjá öðrum tók næturvinna strax við, eins og tíðkast hafði til þess tíma. Við þá óeðlilegu tilhögun hafa launþegasamtökin aldrei getað sætt sig og leitað þráfaldlega eftir leiðréttingu á því atriði í almennum kjarasamningum. Hafa fjölmennir launþegahópar þegar fengið viðurkenningu vinnuveitenda sinna á þeirri kröfu, þ. á m. öll hin stóru aðildarfélög innan málm- og skipasmíðaiðnaðarins, starfsmannafélögin í ríkisverksmiðjunum og hjá álverinu í Straumsvík. Fer þá, þegar svo er komið, best á því að þessi regla verði almennt látin gilda, en sú hending, sem því getur oft ráðið hvaða vinnuveitanda menn fái, hætti að ráða úrslitum um hvort menn þurfi að sæta skertu álagi á laun sín eftir að þeir hafa skilað af sér fullri vinnuviku.

Í aths. með frv. er að því vikið, að á það megi líta sem fyrsta skrefið að því marki að öll eftirvinna verði felld niður í áföngum. Ljóst er að næsta skrefið að því marki verður ekki stigið á þeim forsendum að jafna þurfi misrétti sem orðið er í þjóðfélaginu. Það hlýtur að skoðast sem framhald þeirrar viðleitni, sem ég áður ræddi um, að draga úr hinum langa vinnutíma sem stundum er raunar nefndur vinnuþrælkun og með nokkrum rétti. Hvenær þær aðstæður verða fyrir hendi í þjóðfélaginu að slík breyting sé í raun til þess fallin að ná tilgangi sínum verður ekki fullyrt um á þessari stundu. Í því efni verður framtíðin að skera úr.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til félmn. hv. Nd. með ósk um að hún vinni fljótt, þannig að frv. geti orðið að lögum fyrir þinglok. Einnig leyfi ég mér að leggja til að því verði vísað til 2. umr.