09.05.1979
Efri deild: 93. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4502 í B-deild Alþingistíðinda. (3608)

280. mál, námslán og námsstyrkir

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Námslán og námsstyrkir eru eitt af þeim málum þar sem verðbólgan hefur ruglað alla hluti á síðustu árum. Eins og kom fram áðan var búist við að sjóðurinn, sem um er að ræða, mundi geta að mestu leyti staðið undir sér sjálfur eftir nokkurn tíma, en slíkt er fjarri lagi. Um þennan sjóð hefur staðið allmikill styrr á undanförnum árum og námsmenn verið mjög óánægðir með framgang mála, en ég held að aðgerðir, sem gerðar voru í tíð síðustu stjórnar, hafi verið mjög mikill áfangi á leiðinni. Þá var lánskjörum breytt þannig að meira en 10–12% koma aftur til baka, enda þótt verðbólga sé. Á þann hátt á að vera auðveldara nú en áður að ná því marki sem stefnt var að, þ. e. a. s. veita 100% námslán og námsstyrki eins og nú stendur til.

Ég vildi sérstaklega taka fram, að ég held að stjórnarandstaðan muni ekki á nokkurn hátt bregða fæti fyrir framgang þessa máls. En mér finnst þó að þm. verði a. m. k. að hafa hugmynd um hvað þetta muni kosta, ef á að fara gegnum þingið á stuttum tíma. Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að þarna muni vera um hærri upphæðir að ræða en kom fram í ræðu hæstv. ráðh.

Ég vil taka það fram, þar sem ég sit í þeirri n. sem frv. mun fara til, að þarna eru að sjálfsögðu mikil fjármál til umhugsunar og við verðum að vita hvað við erum að gera. Í öðru lagi er hér um mál að ræða sem fyrir mörgum árum var búið að lofa að skyldi koma til framkvæmda. Því held ég að ástæða sé til að taka á málinu með skilningi og velvild.