09.05.1979
Efri deild: 93. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4507 í B-deild Alþingistíðinda. (3616)

289. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Soffía Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram, að ástæða er til að fagna því að þetta frv. skuli vera fram komið, og eru tvímælalaust til bóta flest ákvæði sem þar koma fram. Það er mála sannast að kominn er tími til að sett séu lög sem tryggja tilvist Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Ég vildi aðeins ræða stuttlega þrjá liði í frv.

Það er 6. gr., þar sem kveðið er á um lágmarkstölu stöðugilda og talað um 65. Það er sennilega algert lágmark að því leyti sem tekur til flutnings sinfónískra verka. Það, sem ég hef í huga þegar ég nefni þarna lágmark, er m. a. að við höfum ekki nema eina sinfóníuhljómsveit í landinu, af skiljanlegum ástæðum, og það er ákaflega mikilvægt að hægt sé að nýta starfsemi hennar sem allra mest og það á fleiri en einum stað í ákveðnum tilvikum, þannig að hægt sé að skipta henni í hópa sem gætu fyrir sitt leyti innt af hendi störf á fleiri en einum stað í einu. En þetta þýðir auðvitað nokkurt mannahald og visst skipulag í framkvæmd þess.

Síðan er það 10. gr. Þar er kveðið á um tónleikaferðir um landið. Væri mjög til bóta ef hægt væri að koma slíku á fastari grunn, því að ég get borið um það og fjölmargir fleiri að það er mikill fagnaður að því að fá hljómsveitina í heimsókn. Ég bendi á að ekki er endilega nauðsynlegt að hafa þetta alltaf það þungt í vöfum að allt báknið sé á ferðinni í einu. Þarna kæmi líka til greina að hafa í huga ákveðinn sveigjanleika í starfseminni.

Og svo er það sem kemur fram í 2. gr. sérlega mikilvægt, þar sem vikið er að því að tengja beri starf hljómsveitarinnar tónlistarkennslu í landinu yfirleitt. Um menningarlegt gildi hljómsveitarinnar þarf ekki að ræða, en það eru tengslin við tónlistarkennsluna sem ég held að menn þurfi að huga nokkuð vel að því að ekki er sjálfsagt að við höfum stofnun sem sinfóníuhljómsveit. Hún þarf í raun að vera í rökréttu og eðlilegu samhengi við annað sem gert er í landinu á þessu sviði. Það er þá fyrst og fremst tónmenntakennslan sem ég á við. Það er ástæða til þess að benda á að í miklu ríkari mæli þarf að efla tónmenntakennslu, koma henni í ríkari mæli og víðtækari inn í grunnskólana og síðan að efla sérskólana á þessu sviði sem eru á nokkrum stöðum um landið. Með því að fá meiri tónmenntakennslu inn í grunnskólana mundi létt mörgu því af sérskólunum sem þeir framkvæma núna og þeir mundu að sínu leyti nýtast betur. Og ég vil enn benda á að þetta þarf allt að haldast í hendur og sömuleiðis að sinfóníuhljómsveit með fullu umfangi er kannske fyrst og fremst tákn um vissa yfirbyggingu og þar þarf að huga að undirstöðunum. Slík yfirbygging, hvort sem hún heitir ópera eða sinfóníuhljómsveit, fær því aðeins staðist að undirstöðurnar séu traustar og þar vil ég enn og aftur leggja áherslu á tónmenntakennsluna í landinu.