09.05.1979
Efri deild: 93. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4510 í B-deild Alþingistíðinda. (3620)

270. mál, aðstoð við þroskahefta

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Mér þykir mjög vænt um, að félmn. skuli hafa haft hraðar hendur og tekið svo fast á þessu máli, og lýsi yfir sérstakri ánægju með afgreiðslu þess. Enn fremur er þakkarvert að hún skuli hafa tryggt Framkvæmdasjóði öryrkja lagalegan grundvöll með því að tengja hann þessu ágæta máli. Að sjálfsögðu mundi samþykkt frv. um aðstoð við þroskahefta hafa kostað ríkissjóðinn mikið fjármagn og er ekki gott að segja úr því sem komið er, hvort frv. til l. um Framkvæmdasjóð öryrkja hefur nokkurn viðbótarkostnað í för með sér fyrir ríkið. En alla vega er öruggt að til þessara mála verða lagðir miklir fjármunir. Því ber að fagna því að sannarlega veitir ekki af.

Það, sem ég vildi vekja athygli á, er þetta sem ég hef áður getið um: 2. gr. frv. er svona: „Orðið þroskaheftur táknar í lögum þessum hvern þann, sem þannig er ástatt um, að hann geti ekki án sérstakrar aðstoðar náð eðlilegum líkamlegum eða andlegum þroska.“ — Nú kom það fram í máli hv. 5. þm. Vesturl., Alexanders Stefánssonar, að hann hefur kallað til sérfræðinga og er sýnilegt að lagður er sá skilningur í 2. gr. að um sé að ræða andlega þroskahefta. Í sjálfu sér er það það sem frv. virðist snúast um. Ég vek ekki athygli á þessu vegna þess að það sé meginvandamálið, heldur tel ég að svona orðalag geti haft nokkurn rugling í för með sér og verði að skilgreina betur og nákvæmar hvað sé átt við með 2. gr. frv., hverjir líkamlega þroskaheftir teljist heyra undir ákvæði þessara laga.

Svo sem margir munu vita hafa öryrkjar hvarvetna um heim lagt mikið upp úr því og lagt áherslu á það á undanförnum árum, að þeir öðluðust jafnrétti að svo miklu leyti sem slíkt væri unnt, og enn fremur, að þeir dreifðust á meðal þeirra sem heilbrigðir eru, en væru ekki aðgreindir nema að sem allra minnstu leyti. Ég er ekki viss um að það, sem við höfum verið að gera undanfarið þegar við erum að samþykkja sérstök lög fyrir hvern hóp út af fyrir sig, vinni í anda þeirrar hugsunar sem liggur að baki því að öryrkjarnir komist í sem nánasta snertingu við þá heilbrigðu. Það var a. m. k. mikill áhugi á því fyrir nokkrum árum að sem allra fæstar stofnanir fyrir öryrkja yrðu til, heldur væru bæði leikskólar og dagheimili fyrir alla, en ekki sérstök dagheimili, sérstakir leikskólar og sérstakir skólar fyrir þroskahefta. Ég er ekki viss um að þetta hafi gengið vel alls staðar, en víst er að ákvæðin, sem komu inn í grunnskólalög okkar, eru komin til fyrir áhrif frá þessu sjónarmiði. Ég held, að það hafi verið vel ráðið, og veit ekki annað en einmitt núna séu margir þroskaheftir í grunnskólum okkar, ýmist í sérdeildum eða sérbekkjum eða þá innan um þá heilbrigðu í þeirra bekkjum. Ég get einnig getið þess, að í Hátúni 10, þar sem búa á fjórða hundrað öryrkjar, eru þroskaheftir í sams konar íbúðum og innan um þá sem heilbrigðir eru eða eru á annan hátt öryrkjar. Þetta hefur gengið mjög vel árum saman og ég held að það beri að hafa í huga og einmitt þannig að skilja ekki andlega þroskahefta meira frá öðrum öryrkjum en er algerlega nauðsynlegt.

Hitt er meginatriði þessa máls, að þarna verður um ótvíræðar umbætur að ræða og það fjármagn, sem ákvæðin um Framkvæmdasjóð öryrkja koma til með að leggja til, er svo verulegt og mun hafa svo afgerandi áhrif á möguleikana til að framkvæma það sem gera þarf, að samþykkt þeirra er mikil ánægja fyrir alla sem nálægt þessum málum hafa komið.

En varðandi aðgreininguna vil ég líka vekja athygli á því, sem læknarnir munu hafa upplýst nm. um, að greiningarstöðvar eru til tvær fyrir andlega þroskahefta, svo sem frsm. félmn. gat um. En það er einnig til þriðja greiningarstöðin í landinu og hún er á vegum Endurhæfingarráðs. Þar hafa starfað um fjöldamörg ár endurhæfingarsérfræðingur, sálfræðingur og félagsráðgjafi sem hafa haft það hlutverk að greina alla öryrkja, sem eftir hafa leitað, og meta ekki aðeins andlega hæfni þeirra, heldur hvers konar hæfni til vinnu og sjálfsbjargar.

Ég vildi vekja athygli á þessum fáu þáttum, en ég endurtek ánægju mína með, að frv. skuli vera komið þetta áleiðis, og vona að það sigli hraðbyri um þingið.