09.05.1979
Neðri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4529 í B-deild Alþingistíðinda. (3648)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að vekja sérstaka athygli á því, hversu hér er í raun um alvarlegt mál að ræða, ekki kannske vegna fárra prósentustiga, heldur hins sem á eftir kynni að fylgja. Ég held að það sé aðalatriðið í stöðunni að menn hyggi alveg sérstaklega að þessu. Það væri mikill voði fyrir þjóðina ef verðbólgan stórykist og nú hæfist á ný það sem kalla mætti kauphækkunarkapphlaup. Ég held að svo mikið sé í húfi að hér verði allir að að hyggja og það geti varla skipt máli hvar í flokki menn standa. Þegar verðbólgan hefur á sér þann skrið sem nú er er mikil vá fyrir dyrum ef kauphækkunarkapphlaup fer í gang, ef verðlagið skrúfast enn upp, og þá gæti atvinnunni verið mikil hætta búin.

Það er í rauninni margföld reynsla fyrir því að peningalaunahækkanir við þetta verðbólgustig eru étnar upp í verðbólgu jafnóðum. Því er óhætt að taka undir þau orð, að lítil eða engin efni séu til peningalaunahækkana, til grunnkaupshækkana. Frá þessum sjónarhóli hlýtur það að vera verkefni númer eitt, eins og sagt er nú á dögum, að ganga þannig frá að ekki fari skriða af stað. Það hlýtur að vera hlutverk allra ábyrgra stjórnmálamanna að vinna að því að nú fari ekki kauphækkunarkapphlaup og ný verðbólguskriða af stað ofan á þann straum og flaum sem fyrir hendi er. Ég ætla einungis að minna á tvö atriði í þessu sambandi.

Annars vegar þarf meiri festu í verðlagsmálum og ganga þannig frá, að kauphækkunum sé ekki hleypt óheftum út í verðlagið, heldur sé þar spyrnt við fótum, og að fylgt sé fastmótaðri stefnu varðandi gjaldtöku fyrir opinbera þjónustu, en ég held að í þeim efnum hafi mikið á skort mörg undanfarin ár. Við þá verðbólgu, sem nú ríkir, er áreiðanlega mikilsvert að opinberar stofnanir starfi þannig að gjaldskrár þeirra fari ekki fram úr þeim verðbólguskrið, sem fyrir hendi er í landinu, og ekki séu tekin hin stóru stökkin, heldur sé frekar fetað í smærri skrefum að því er varðar gjaldtöku fyrir opinbera þjónustu. Í þessum efnum hef ég löngum haft þá trú, að þörf væri á öðrum vinnubrögðum en tíðkast hafa undanfarinn áratug a. m. k.

Í öðru lagi hlýtur að vera meginverkefni, eins og málum er nú hagað, að koma í veg fyrir frekari launamismun milli stétta í þjóðfélaginu, þar sem þeir verr settu dragast enn frekar aftur úr þeim sem betur eru settir, en nú virðist einmitt með klassískum hætti stefna að því að þeir, sem hæst hafa launin, gangi á undan, launamisrétti sé aukið í stað þess að stefna hægt og sígandi að auknum launajöfnuði í þessu þjóðfélagi.

Ég vildi í umr. núna einungis minna á þessi tvö atriði sem ég tel vera lykilatriði, hvað sem öllum prósentureikningi líður, til að ná tökum á því ástandi, sem hér hefur ríkt og hér ríkir, og þeirri óvissu sem nú er fyrir hendi. Það, sem þarf fyrst og fremst til þess að ná árangri á þessu sviði, er trú og vilji þjóðar og þings.