09.05.1979
Neðri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4544 í B-deild Alþingistíðinda. (3665)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Þrátt fyrir að margt athyglisvert hafi komið fram í umr. um þetta frv. mun ég ekki blanda mér í almennar umr. um það, en leyfi mér að gera grein fyrir brtt. sem ég hef flutt á þskj. 591 og kveður á um að ný grein komi inn í frv. sem orðist á þessa leið:

„Heimilt er fjmrh. f. h. ríkissjóðs að taka lán í því skyni að skila Ríkisútvarpinu eftirstöðvum af tolltekjum af innfluttum sjónvarpstækjum á árinu 1978 að upphæð 832 millj. kr.“

Tildrög brtt. eru þau, að fyrir nokkrum dögum, eða nánar tiltekið 26. apríl s. l., fóru fram umr. í hv. Sþ. vegna fsp. frá hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni um tolltekjur af sjónvarpstækjum. Í þeim umr. tóku allmargir þm. þátt, auk hæstv. menntmrh. Var mál allra ræðumanna að það væri hin mesta ósvinna hvernig með Ríkisútvarpið og fjármál þess væri farið og að nauðsynlegt væri að bæta úr mjög rösklega. Í umr. kom fram að á síðasta ári var gert ráð fyrir fjárframlagi á fjárlögum til Ríkisútvarpsins að upphæð 340 millj., en tolltekjur af innflutningi sjónvarpstækja námu á því ári um 1100 millj. Á þessu ári er gert ráð fyrir á fjárl. að sama upphæð, þ. e. a. s. 340 millj., sé framlag ríkisins til áðurnefndrar stofnunar, þrátt fyrir að ljóst sé að innflutningur á sjónvarpstækjum muni sjálfsagt verða í svipuðum mæli og var á síðasta ári þannig að gera megi ráð fyrir að tolltekjurnar verði allt að 1 milljarði.

Ég vil leyfa mér að vísa til ummæla hæstv. menntmrh. í sambandi við þessar umr., en þar sagði hann m. a. að Ríkisútvarpið ætti kröfu til þess að tolltekjum sjónvarpsins væri skilað. Hann taldi afleitt að Ríkisútvarpið yrði af þeim tekjum, því að það þyrfti bersýnilega á þeim að halda. Hann margendurtók í ræðu sinni að Ríkisútvarpið ætti þessa kröfu, enda væri útilokað fyrir Ríkisútvarpið, hljóðvarp og sjónvarp, að framkvæma það sem gera þarf nema krafan til tolltekna væri viðurkennd og kæmist í framkvæmd. Hann endurtók enn að ríkissjóður ætti að skila Ríkisútvarpinu hinum mikla mismun, þ. e. a. s. um 830 millj., sem fyrir hendi væri frá árunum 1977, 1978 og 1979. Hann lét í ljós þá skoðun sína, að hann hefði talið æskilegra að meira hefði gengið til Ríkisútvarpsins af tolltekjum en ákveðið er í fjárlögum.

Hv. þm. Árni Gunnarsson tók þátt í umr. og af orðum hans mátti skilja að hann taldi engan vafa á að Ríkisútvarpið ætti þann rétt að fá óskiptar tekjurnar af innflutningi sjónvarpstækja beint í þágu Ríkisútvarpsins.

Hv. þm. Alexander Stefánsson taldi eðlilegt að tolltekjur af innflutningi sjónvarpstækja færu beint til uppbyggingar stofnunarinnar, bæði í dreifingu og innri byggingu hennar.

Hv. þm. Ingvar Gíslason taldi sjálfsagt mál að tryggja Ríkisútvarpinu stærri hlut af tolltekjum til dreifingar á sjónvarpi. Hann tók ekki af skarið um hvort stofnunin ætti rétt á þeim tekjum alfarið eða ekki, en eins og hann orðaði það: stærri hlut af tolltekjum.

Hv. þm. Páll Pétursson taldi rétt að skila peningunum til uppbyggingar Ríkisútvarpsins úr ríkissjóði, þegar hann var að ræða um tolltekjur af innflutningi sjónvarpstækja.

Vilhjálmur Hjálmarsson, fyrrv. menntmrh., sagði í þessum umr., með leyfi forseta:

„Ég vil láta koma fram og minna á það, að í fyrirspurnatíma fyrr í vetur lét ég þá skoðun í ljós, að Ríkisútvarpið ætti að halda þessum tekjustofni, tolltekjunum af sjónvarpstækjunum, ekki kannske eingöngu til dreifingar sjónvarps, heldur til annarra þarfa vegna þess að þarfir Ríkisútvarpsins og framkvæmdir eru svo gífurlegar.“

Þessar tilvitnanir læt ég duga til að sýna fram á að í máli þm. kom mjög skýrt fram að þeir teldu að Ríkisútvarpið ætti kröfu til þessara tolltekna, ef ekki fullan rétt á þeim.

Það þarf ekki að tíunda ummæli þeirra sjálfstæðismanna sem þátt tóku í umr., þeirra hv. þm. Sverris Hermannssonar, Friðriks Sophussonar og mín. Við vorum á sama máli, sem og kemur fram í framlagningu brtt.

Fyrr í vetur lét hv. þm. Lúðvík Jósepsson þá skoðun í ljós, að hér væri hið mesta óréttlæti á ferðinni. Hann upplýsti að það hefði komið honum á óvart að framlagið væri ekki hærra en 340 millj. á fjárl. þar eð hann virtist vera þeirrar skoðunar að tolltekjurnar ættu að renna óskiptar til Ríkisútvarpsins — alla vega ætti sú upphæð að vera miklum mun ríflegri en raun ber vitni.

Ég held að þessar tilvitnanir tali skýrustu máli um að það sé vilji Alþ. að bæta nokkuð úr. Flestum er ljóst að Ríkisútvarpið er í miklum fjárhagserfiðleikum um þessar mundir og mun reynast ókleift fyrir þá stofnun að halda úti sæmilegri dagskrá, halda áfram uppbyggingu dreifikerfis sjónvarps og endurnýja tækjakost sinn og dreifingarkerfi varðandi hljóðvarp og sjónvarp ef ekki verður bætt úr mjög verulega strax. Ég taldi því ástæðu til að leggja fram brtt. við afgreiðslu á lánsfjáráætlun þar sem Alþ. gæti undirstrikað vilja sinn og bætt nokkuð úr. Ég legg því fram þá brtt. sem ég hef gert grein fyrir, en í henni felst að ríkissjóði sé heimilt að taka lán í því skyni að skila Ríkisútvarpinu eftirstöðvum af tolltekjum af innfluttum sjónvarpstækjum á árinu 1978 að upphæð 832 millj. Hef ég þá í till. þá upphæð sem tolltekjurnar fóru fram úr þeirri upphæð sem á fjárlögum var í vetur. Gert er og ráð fyrir að tekjur áf innflutningi sjónvarpstækja verði á þessu bili á þessu ári. Geri ég þá ráð fyrir að í framhaldi af samþykkt till. minnar muni verða tekið tillit til þess við afgreiðslu næstu fjárlaga að hækka fjárframlagið sem nemur þeirri upphæð sem innflutningurinn fer fram úr fjárframlaginu á fjárlögum fyrir 1979.

Ég er þeirrar skoðunar og trúi að Alþ. sé það líka að ástæðulaust sé að breyta út frá þeirri gömlu venju að Ríkisútvarpið fái að njóta þessa innflutnings og þeirra tekna sem af honum hlýst, af tækjum sem eru ýmist hljóðvarps- eða sjónvarpstæki. Ég get vart ímyndað mér að það séu nokkur rök til þess að ríkissjóður hirði meginhlutann af þeim tekjum og þær fari beint í ríkissjóðshítina í stað þess að láta þær ganga til þessarar stóru og merku stofnunar og aðstoða hana til að skila hlutverki í þjóðfélaginu, sem felst í, eins og ég nefndi áðan, áframhaldandi uppbyggingu á dreifikerfi og að koma sjónvarpi til allra landsmanna svo og auðvitað að halda uppi menningarlegri og góðri dagskrá.

Ég held að ekkert sé því til fyrirstöðu að hægt sé að samþykkja till. nú. Það ætti ekki að raska svo mjög fjárhag ríkisins þótt hún komi hér inn. Hér er um að ræða lántöku sem hægt er að endurgreiða með þeim tekjum sem inn koma á þessu ári og svo koll af kolli.

Ég held að ástæðulaust sé, herra forseti, að rekja rök með till. frekar. Um þetta málefni fóru fram ítarlegar og jákvæðar umr. í þinginu fyrir nokkru og fyrr í vetur. Þær umr. undirstrika vilja þm. og þm. geta staðfest vilja sinn með því að samþykkja brtt. núna.