09.05.1979
Neðri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4546 í B-deild Alþingistíðinda. (3666)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að lýsa, yfir stuðningi við brtt. þá sem hv. síðasti ræðumaður kynnti og varðar tekjur af innfluttum sjónvarpstækjum árið 1978. Hann las upp afstöðu þeirra stjórnarliða, sem tóku til máls í umr. í vetur, og eins afstöðu sjálfstæðismanna, sem tóku þá til máls, og ég vil bæta jákvæðri afstöðu minni við þá upptalningu. En það er ekki tilefni þess að ég stend upp.

Við nánari athugun á 20. gr. frv. um ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar fyrir árið 1979, er snertir skerðingu á framlagi til Ferðamálaráðs, má skilja að hér sé um ráðstafanir að ræða sem nái til lengri tíma en ársins 1979. Í öðrum greinum frv., sem snerta hliðstæðar ráðstafanir vegna annarra sjóða, er tekið fram að um sé að ræða ráðstafanir fyrir árið 1979 eingöngu. Því tel ég rétt að bætt verði inn í 20. gr. frv. sömu dagsetningum og eru í öðrum greinum þess er varða aðra sjóði, eins og ég gat um áðan. Ef menn skoða frv. og lesa þær greinar, sem ég hef nú vitnað í, sjá menn að þar er alls staðar tekið fram að þær ráðstafanir, sem lagt er til að verði samþykktar, bera allar ártalið 1979. Þess vegna hef ég leyft mér að flytja á þskj. 640 brtt. við brtt. á þskj. 577, svo hljóðandi:

„Á eftir orðunum „samkv. 25. gr. laganna“ í 9. lið komi: á árinu 1979.“

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða nánar um þessa till. Mér skilst af samtölum mínum við hv. talsmann fjh.- og viðskn. að hann telji þessa breytingu eðlilega. Ég vona að verið hafi um mistök að ræða þegar frv. var sett í prentun, en ekki viljandi áætlun um að gera varanlegar breytingar á lögum um Ferðamálasjóð.