09.05.1979
Neðri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4550 í B-deild Alþingistíðinda. (3676)

56. mál, Hæstiréttur Íslands

Frsm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég ætla að gera grein fyrir nál. allshn. Nd., sem er á þskj. 594, í máli er varðar breytingu á lögum um Hæstarétt Íslands og er komið frá Ed.

Frá því skal segja, að dagsetningin í 4. gr. frv. hefur tekið breytingum í Ed. Þar sem stóð í frv. „l . jan. 1979“ stendur nú „1. ágúst 1979“ og aðrar breytingar eru sama eðlis.

N. leggur til að frv. verði samþ., en í frv. er gert ráð fyrir fjölgun hæstaréttardómara úr 6 í 7. Jafnframt er m. a. gert ráð fyrir að aðeins þrír dómarar skipi dóm í kærumálum og minni háttar málum, en hvort tveggja er talið hraða meðferð mála fyrir dómstólnum. Þá er einnig í frv. gert ráð fyrir að áfrýjunarupphæð hækki verulega, þ. e. a. s. lágmark áfrýjunarupphæðar hækki úr 25 þús. kr. í 200 þús. kr.

Við teljum að breytingarnar í frv. séu til bóta. Hugsanlegt er að tveir hópar eða tvær deildir hæstaréttardómara geti starfað samtímis auk þess sem gert er ráð fyrir í breytingunum að allur rétturinn taki til starfa í vissum mjög mikilvægum málum, en slíkt er gert víða erlendis, t. d. í Noregi. Þótt þar séu dómarar 18 eða 19 sitja þeir allir í dómstólnum í vissum málum, er fjalla um grundvallarefni.