07.11.1978
Sameinað þing: 15. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

Umræður utan dagskrár

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal hafa þetta stutt. Það er svo um mál, sem koma upp í Alþingi, að þeim er vísað til þn. eftir 1. umr. til meðferðar. Síðan skila þessar þn., fastanefndir Alþ., nál. Ein er sú þn., sem gerir þetta ekki, það er þingfararkaupsnefnd. Hún starfar samkv. lögum um þingfararkaup alþm. og ákveður ákveðnar greiðslur, sem er fjallað um í 3., 4. g 5. gr. nefndra laga. Ég hef, vegna þess að nál. frá þessari n. er ekki lagt fram í þinginu, ákveðið að gera grein fyrri störfum þfkn.

Í lögum um þingfararkaupsnefnd segir í 3. gr. — með leyfi hæstv. forseta — að þfkn. geti ákveðið hámark húsnæðiskostnaðar alþm. sem eru utan af landi. Í 4. gr. segir, að þfkn. ákveði dvalarkostnað yfir þingtímann fyrir alþ. Í 5. gr. segir, að þfkn. ákveði þá fjárhæð sem þarf til að greiða kostnað alþm. vegna ferðalaga í kjördæminu.

Á 2. fundi þfkn. voru þessir liðir teknir fyrir samkv. venju og samkv. lögum. Þessir liðir fjalla í fyrsta lagi um dagpeninga, í öðru lagi um ferðakostnað í kjördæmi og í þriðja lagi um húsnæðiskostnað. Þessir liðir hækkuðu sem hér segir og ég vil taka það fram, að þessi hækkun er gerð eftir eitt ár, þetta var síðast gert fyrir einu ári:

1. liður hækkaði um 27%, 2. liður um 331/3% og 3. liður um 38%. Ég vil geta þess í leiðinni, að almennt kaupgjald hefur hækkað um og yfir 50% á sama tímabili, þannig að allar þessar tölur eru miklu lægri. Í sambandi við ákvörðun hækkunar þessara kostnaðarliða er tekið mið af þeim upphæðum sem opinberir starfsmenn fá fyrir sinn kostnað í svipuðum tilfellum. Alþm. hafa alltaf verið talsvert undir þeim tölum og eru það enn og þessar prósentutölur breyta því ekki. Hlutfallið er enn sem fyrr það sama eða svipað.

Dagpeningar þm. voru 2950 kr. en voru ákveðnir 4000 kr., sem er ca. 27% hækkun.

Ferðakostnaður í kjördæmi var 375 þús. á ári, en verður 500 þús., sem er 331/3% hækkun. í sambandi við það má nefna að svipaðar tölur varðandi km-gjald fyrir opinbera starfsmenn og aðra hafa hækkað um meira en 40% og bensín á sama tímabili milli 80 og 90%.

Húsnæðiskostnaður hækkaði úr 39 þús. á mánuði í 55 þús. á mánuði hámark. Þessi hækkun var heldur hærri en á hinum liðunum, þó í svipuðu hlutfalli og áður, en það var vegna þess að upphæðin var álitin hafa verið ákveðin allt of lág fyrr. Svokallað km-gjald vegna aksturs þm. á eigin bifreiðum í þessum tveim ferðum, sem leyfilegt er að gera reikning fyrir, er enn sem fyrr á lægsta taxta opinberra starfsmanna.

Annað fyrirkomulag í sambandi við þær greiðslur, sem þfkn. ákveður lögum samkv., er óbreytt.

Undanfarin ár hafa nokkrir áhugasamir menn um kaup alþm. rætt um það nokkuð í fjölmiðlum, að þfkn. Alþingis starfaði með mikilli leynd. Sömu menn og aðrir þeim líkir hafa fullyrt opinberlega, til þess að koma höggi á alþm. og Alþ., því að það var vinsælt að skamma alþ. á þeim tíma, að alþm, væru upp til hópa skattsvikarar vegna þess að þeir gæfu ekki þessa kostnaðarliði upp á skattskýrslum sínum. Og enn í dag er talað um það sama. M.a. kemur fram í grg. fyrir frv. um þingfararkaup, sem nokkrir hv. alþm. hafa flutt hér, sama orðalagið, sömu fullyrðingarnar, þrátt fyrir það að þessum mönnum og öðrum hefur verið sýnt fram á að þær eru rangar. Yfir störfum n. hvílir ekki leynd og hefur ekki hvílt. Bókun hennar og ákvörðun var kynnt öllum þingflokkum að loknum störfum, og þar með var málið orðið að opinberu máli og hver sem var gat gefið það út hvar sem var.

Varðandi skattsvikin er það að segja, að í lögum um tekjuskatt og eignarskatt kveður mjög skýrt á um þetta efni í 10. gr., að þetta sé ekki framtalsskylt. Auk þess má nefna að í þessu sérstaka máli, varðandi þessa framtalsskyldu alþm., hefur fallið úrskurður réttra yfirvalda, þar sem þetta er staðfest.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir því, sem þfkn. ákvað á áðurnefndum fundi. Þar voru þessir liðir bornir upp hver fyrir sig og samþykktir einróma.

Ég vil að lokum segja það, að þetta, sem þfkn. gerði, var ekki nein breyting í grundvallaratriðum, heldur var aðeins verið að færa þessar upphæðir, sem ákveðnar voru fyrir ári, í átt til þeirra verðlagsbreytinga sem orðið höfðu á tímabilinu, en eins og ég sagði áður eru þær snöggtum lægri en margar aðrar og flestar aðrar hækkanir hafa verið.