09.05.1979
Neðri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4555 í B-deild Alþingistíðinda. (3687)

151. mál, framhaldsskólar

Frsm. meiri hl. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Svo sem fram kemur á nál. á þskj. 618 frá meiri hl. menntmn. hefur menntmn. hv. d. ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n. mælir með samþykkt frv. með þeim breytingum er lagðar eru til á þskj. 619. Þess skal getið að fulltrúar Alþfl. í n., þeir hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og Eiður Guðnason, skrifa undir nál. með fyrirvara. Fulltrúar Sjálfstfl., hv. þm. Ellert B. Schram og Ólafur G. Einarsson, munu skila minnihlutaáliti.

Þetta er í þriðja sinn sem frv. til l. um samræmdan framhaldsskóla liggur fyrir Alþ. Það var lagt fram áður árið 1977 og aftur vorið 1978. Vert er að vekja á því sérstaka athygli að allir þingflokkar allra stjórnmálaflokka, sem nú eiga fulltrúa á Alþingi, hafa staðið að því að leggja þetta frv. fram með þeirri menntastefnu sem þar er lýst. Ágreiningur hefur aldrei komið fram á Alþ. um grundvallarhugmyndina, um samræmdan framhaldsskóla eða skipulag hans, enda er hún sú sama í öllum gerðum frv. Sá ágreiningur, sem hér hefur orðið, hefur verið um allt önnur atriði og minni háttar. Það hafa því orðið mér vonbrigði og nokkurt undrunarefni að samkomulag varð ekki betra en raun ber vitni um afgreiðslu málsins.

Að þessu sinni var frv. lagt fram í desembermánuði og var þá strax í samráði við menntmrn. leitað umsagna ýmissa aðila, einkum vegna þeirra nýmæla sem eru í núverandi gerð frv. Þau nýmæli varða helst fjármögnun framhaldsskólastigsins og hlutdeild framhaldsskólans í fullorðinnafræðslu. Um þau atriði, er að mestu voru óbreytt í frv. og þá aðallega um menntastefnu og kennslufræðilega hlið þess, var stuðst við eldri umsagnir og eru þær prentaðar með frv. Alls eru þær umsagnir orðnar um 75 talsins sem fyrir Alþ. liggja um þetta mál, og eru þá ótalin mörg bréf sem þm. hafa verið send beint.

Strax að loknu jólaleyfi þm. hófust reglubundin störf að frv. og var það starf unnið sameiginlega af báðum menntmn. Alþ. Fundir urðu alls 14 um málið. Vil ég í þessu sambandi þakka menntmn. Ed. og formanni hennar sérstaklega prýðilegt samstarf. Nm. ræddu frv., meginstefnu þess í kennslumálum og málefni framhaldsskólastigsins í heild, við ýmsa menn: Hörð Lárusson deildarstjóra í menntmrn., Guðmund Arnlaugsson rektor Menntaskólans við Hamrahlið, Guðna Guðmundsson rektor Menntaskólans í Reykjavík og Ólaf Ásgeirsson skólameistara Fjölbrautaskólans á Akranesi. Þá mætti Indriði H. Þorláksson deildarstjóri einnig á fund með nm. og ræddi fjármálakafla frv. og kostnaðaráhrif þess.

Hæstv. menntmrh. fylgdi frv. úr hlaði með ítarlegri ræðu við 1. umr. og mun ég reyna að forðast endurtekningu á því sem hann gerði þá að umtalsefni. Þó hlýt ég að fara fyrst nokkrum almennum orðum um frv. áður en ég lýsi brtt. okkar, vegna ýmissa aths. sem almennt hafa komið fram um málið.

Öllum hv. þm. er vitanlega ljóst hversu vandasamt er að smíða löggjöf um skólamál og þá einkum þegar þarf að taka afstöðu til alls framhaldsskólastigsins í heild og heildarendurskipulagningar þess. Hér er verið að fjalla um skilyrði og möguleika alls þorra æskufólks landsins til mennta og þroska og sníða störfum þeirra, kennaranna og annarra, er að skólamálum starfa, stakk. Mikið liggur við að sá stakkur sé við hæfi. Það er því að mínu viti afar hyggilegt að setja rammalöggjöf um svo viðamikið og mikilvægt mál.

Þjóðfélagið tekur miklum og örum breytingum og skólastarfið verður að geta brugðist við þeim breytingum. Löggjöf verður því að vera svo úr garði gerð að hún veiti skólamönnum svigrúm til að laga skólastarfið hæfilega að breyttum aðstæðum í tíma, og löggjöf verður einnig að vera það sveigjanleg að allur sá fjöldi, sem eftir þeirri löggjöf á að starfa, geti beitt eigin frumkvæði þegar þess er þörf. Enginn vafi er á því, að núverandi fyrirkomulag með mergð lagasetninga um hvern einstakan skóla eða skólagerð og hvers konar sérnám og með ítarlegum lagafyrirmælum um skólastarfið er þegar orðið þrándur í götu eðlilegra framfara. Skólastarfið hefur þegar í raun sprengt þau bönd af sér. Nægir hér að minna á að fjölmennasti framhaldsskóli landsins, Menntaskólinn við Hamrahlíð, starfar enn sem tilraunaskóli með undanþágu og fjölbrautaskólarnir hafa engan lagagrundvöll nema þann sem felst í heimildarlögum til að stofna fjölbrautaskóla sem sett voru árið 1973. Alvarlegast er þó að núverandi framhaldsskólakerfi er byggt á úreltum viðhorfum um skarpa aðgreiningu bóknáms og verknáms. Í samræmdum framhaldsskóla er öllum námsbrautum gert jafnt undir höfði, bæði stjórnunarlega og fjárhagslega. Skipulag hins samræmda framhaldsskóla tryggir því jafnframt að möguleikar til áframhaldandi náms fylgja jafnt öllum námsbrautum, en við núgildandi skipulag eru þessi sjálfsögðu réttindi að mestu bundin við þá sem valið hafa bóknámsleiðina, en nemendur á verknámsbrautum hafa haft afar takmarkaða möguleika á að skipta um námsbraut eða sækja fram til áframhaldandi náms.

Allt framhaldsskólanám samkv. frv. um samræmdan framhaldsskóla lýtur því sama markmiði, eins og það er skilgreint í 3. gr. frv., þar sem segir að hlutverk framhaldsskóla sé að veita menntun er sé á hverjum tíma markviss undirbúningur starfs eða frekara náms og stuðli jafnframt að alhliða þroska nemandans sem einstaklings og þátttakanda í lýðræðissamfélagi. Þetta þýðir auðvitað ekki að allt verklegt nám eigi að fara fram í skólahúsnæði, eins og sumir virðast halda. Það er hvorki framkvæmanlegt né æskilegt. Eftir sem áður mun framhaldsskólinn þurfa að njóta samstarfs við meistara í iðngreinum og ýmsar stofnanir og fyrirtæki. En í frv. er kveðið svo á, að allt slíkt nám, sem fram fer utan skólans, skuli vera undir stjórn skólans og háð eftirliti hans. Þannig er leitast við að tryggja að kennslufræðileg sjónarmið ráði, en ekki þröng stéttarsjónarmið. Eftir sem áður er leitast við að tryggja áhrif ýmissa aðila vinnumarkaðarins með aðild þeirra að framhaldsskólaráði.

Margir hafa gert aths. við hið fjölmenna framhaldsskólaráð og vilja hafa annan hátt á. Við leggjum ekki til breytingu á þessu sviði, sérstaklega vegna þess að hér er um að ræða samkomulag við aðila vinnumarkaðarins, en þeir leggja mjög ríka áherslu á að áhrif þeirra séu tryggð einmitt með þessum hætti.

Framhaldsskólafrv. er byggt á þeirri stefnumörkun við grunnskólann, að allir nemendur, sem ljúka námi í grunnskóla, skuli eiga kost á einhverju námi í framhaldsskóla og að val í grunnskóla takmarki ekki réttindi nemenda til framhaldsnáms. Um þetta atriði er kveðið á í 4. gr. frv. og svo um það, að hver sá sem verður 19 ára geti á því sama ári hafið nám í framhaldsskóla án þess að fullnægja inntökuskilyrðum nema að því er varðar starfsþjálfun þar sem hennar er krafist.

Þau mótmæli hafa komið fram gegn þessari stefnu, að hún muni leiða til almennrar lækkunar á menntastaðli, ekki síst á bóklegum sviðum og í því námi sem hinir hefðbundnu menntaskólar veita, og að hinir „betur gefnu“, eins og það er stundum orðað, fái ekki notið sín í samræmdum framhaldsskóla sem sé opinn öllum og veiti öllum jöfn tækifæri. Ég get ekki að því gert, að mér finnst stundum stutt í það hjá þeim sem þannig tala, að nemendum, æskufólki landsins, sé skipt í fyrsta flokks fólk og annars flokks fólk. Um slíkan hugsunarhátt og þær afleiðingar, sem af honum getur leitt, ætla ég ekki að fjölyrða, en læt mér nægja að lýsa þeirri skoðun minni, að sú menntun, sem fengin er með því móti að m eina öðrum sjálfsagðra réttinda til náms, er ekki mikils virði.

Hitt er annað mál, að það er yfirlýst takmark framhaldsskólans að veita öllum nám við hæfi. Það þýðir að kerfið sjálft verði að vera sveigjanlegt, svo að allir nemendur — eða sem flestir a. m. k. — fái notið sín sem einstaklingar og einstaklingsbundinna hæfileika sinna. Það er skoðun mín, að hinn samræmdi framhaldsskóli og þá einkum áfangakerfið veiti svigrúm til slíkra einstaklingsbundinna frávika í miklu ríkari mæli en núverandi kerfi gerir kleift. Nemendur geta farið hratt yfir og þeir geta farið hægt yfir námsefni, allt eftir getu og vilja, innan skynsamlegra marka að vísu. Og hvað það varðar að nemendur muni koma verr undirbúnir en áður inn í framhaldsskólana og þar af leiðandi hljóti öll kennsla í framhaldsskólum að rýrna að gæðum er ekki um óleysanlegt vandamál að ræða ef vilji er fyrir hendi á annað borð til að leysa það. Á þessum vanda tók Menntaskólinn í Hamrahlíð þegar haustið 1977 með stofnun svonefndra núlláfanga.

Guðmundur Arnlaugsson ræddi þetta málefni sem önnur við nm. þegar hann mætti á fund n. Það er skoðun hans að bæta verði við menntaskólana að neðan, eins og hann orðar það í umsögn sinn. En hann tekur jafnframt fram, að í því efni standi skólar áfangakerfis mun betur að vígi en hefðbundnir menntaskólar. Í umsögn Guðmundar Arnlaugssonar, sem prentuð er með frv., segir svo, með leyfi hæstv. forseta, og mun ég lesa það hér þm. til glöggvunar:

„Núlláfangarnir, sem MH hyggst taka upp í haust, eru í raun ekki annað en námshagræðing sem fyrir löngu er tímabær. Nemandi, sem kemur í menntaskóla með lélegan undirbúning í grein (eða greinum), lendir oft í öðrum pyttinum af tveimur:

1) hann fellur og tefst um ár eða

2) hann slampast að vísu upp úr bekk, en nær sér aldrei á strik í greininni, vegna þess að í kennslunni er sífellt verið að byggja ofan á undirstöðu sem ekki er til. Í núlláfanga fær nemandinn yfirferð þeirra frumatriða sem frekari kennsla byggir á, og ef sæmilega tekst til nægir það til að fleyta honum yfir upphafsörðugleikana og koma honum á réttan kjöl. Í áfangakerfi á nemandinn svo kost á því að vinna aftur þann tíma, er hann missti í núlláfanga, síðar á námsbrautinni.“

Ég læt þess getið, að fleiri skólar munu hafa sama hátt á. T. d. mun Iðnskólinn í Reykjavík hafa fornám í sama tilgangi.

Í nál. hefur meiri hl. n. greint frá því, að meginstefna frv. hafi hlotið mjög jákvæðar undirtektir hjá miklum meiri hl. umsagnaraðila, og er mjög kvatt til þess að Alþ. afgreiði þetta frv., enda þótt margir umsagnaraðilar hafi vitaskuld sitthvað að athuga við einstök atriði frv. Ég tilfæri nokkur dæmi úr umsögnunum.

Í ályktun fundar fulltrúaráðs Sambands ísl. sveitarfélaga, sem haldinn var á Húsavík 28. og 29. mars til þess að fjalla um framhaldsskólafrv., segir:

„Þrátt fyrir þá ágalla, sem hér hefur verið bent á, leggur fulltrúaráðið áherslu á, að það er sammála mörgum atriðum frv. og telur brýnt að lög um samræmdan framhaldsskóla verði sett.“

Þá segir í umsögn frá fræðsluráði Reykjavíkur, með leyfi hæstv. forseta:

„Fræðsluráð Reykjavíkur vísar til þeirrar afstöðu er fram kom í umsögn þáverandi fræðsluráðs frá nóv. 1977, að það væri „samþykkt þeirri meginstefnu frv. að allt nám á framhaldsskólastigi verði samræmt og námsefni skipað í skilgreinda áfanga með opnum leiðum til framhaldsnáms.“

„Mikilvægt er,“ segir enn fremur í þessari umsögn fræðsluráðs, „að stefnt er að því að nemendur stöðvist ekkí í námi né tefjist að ráði þótt þeir leiti nýrra leiða á námsbrautinni. Mjög er því til bóta að ætla nemendum mislangan tíma til að ljúka sama námsefni. Fræðsluráð fagnar ekki hvað síst þeirri viðleitni er í frv. felst að gera verk- og bóknámi jafnhátt undir höfði og væntir þess að þeirri stefnu verði fast fylgt eftir.“

Ekki er ráðrúm hér að vitna í þá ótalmörgu aðila sem lýsa stuðningi við hugmyndina um samræmdan framhaldsskóla og hvetja til lagasetningar um hann. Meðal þeirra eru t. d. Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasambandið, Félag menntaskólakennara, ýmis fræðsluráð og margir reyndir skólamenn. Fljótlegra væri raunar að tilgreina þá sem eru hugmyndinni andvígir eða leggjast gegn því að Alþ. afgreiði frv.

Meiri hl. minnir á, að nú þegar eru skólamenn í nánast öllum fræðsluumdæmum landsins farnir að skipuleggja nám samkv. meginhugmyndum frv. um samræmdan framhaldsskóla, og hætt er við að skortur á lagasetningu hamli mjög eðlilegri þróun þessara mála.

Meiri hl. minnir einnig á, að samræmdur framhaldsskóli er forsenda þess að grunnskólög geti komið til fullra framkvæmda, enda liggur sama menntastefnan til grundvallar báðum þessum skólastigum, sem hljóta því að byggjast upp í samhengi.

Þá er í frv. kveðið á um hlutdeild framhaldsskóla í fullorðinnafræðslu, og teljum við að þar sé stórum áfanga náð í þessum mikilvæga þætti menntunar og löngu orðið knýjandi að Alþ. komi skipulagi á hann. Meiri hl. telur því, að hlutur Alþ. liggi eftir, og við teljum ekki vansalaust að Alþ. skjóti sér lengur undan þeirri ábyrgð að afgreiða þetta frv. Við teljum að með þeim brtt., sem við flytjum, sé bætt úr helstu ágöllum frv. og þeir agnúar á brott numdir sem voru okkur og flestum umsagnaraðilum þyrnir í augum.

Áður en ég vík að fjármálakafla frv. mun ég gera grein fyrir brtt. okkar við þá kafla sem eru þar fyrir framan, en þær eru ekki nema þrjár talsins og eru á þskj. 619.

Fyrsta brtt. okkar varðar 9. gr. Við leggjum til að 9. gr. orðist eins og segir á þskj. 619. Þar er ekki um mikla breytingu að ræða. Breytingin, sem þarna er, gengur einungis út á að menntmrn. skuli setja námsskrá í samráði við samtök kennara og nemenda á framhaldsskólastigi. Þetta er viðbótin. Að öðru leyti er greinin óbreytt. Í rauninni er hér um litla breytingu að ræða frá þeirri framkvæmd sem nú tíðkast, en við teljum rétt að þetta sé tryggt í lögum og er það samkvæmt ábendingu frá Hinu íslenska kennarafélagi.

Önnur brtt. okkar er við 27. gr. Við leggjum til að í stað 1. málsl. 3. mgr. komi: „Menntmrn. setur eða skipar skólastjóra framhaldsskóla að fengnum tillögum og umsögnum skólanefndar og fastra kennara við skólann sé ekki um nýjan skóla að ræða. Rn. setur eða skipar fasta kennara að fengnum tillögum og umsögnum skólanefndar og skólastjóra viðkomandi skóla.“

Breytingin hér felur í sér að fastir kennarar við framhaldsskóla fái umsagnar- og tillögurétt þegar skólastjóri er settur eða skipaður, nema um sé að ræða nýjan skóla eða skóla sem verið er að stofna, en þá mun líklega óframkvæmanlegt að fara eftir þessu. Við teljum að þetta atriði sé mikilvægt til þess að tryggja farsælt og snurðulaust skólastarf.

Þriðja brtt. okkar er við 28. gr., að 2. mgr. hennar orðist svo: „Setja skal í reglugerð ákvæði um orlof og endurmenntun starfsmanna framhaldsskóla. Við setningu þeirra skal þess gætt, að réttindi kennara í þessum efnum verði eigi minni en þau eru nú.“ Raunar hafa fallið út í vélritun eða prentun síðustu orð setningarinnar. Þau áttu að vera svona: „verði eigi minni en þau eru í núgildandi lögum og reglugerðum.“ — Ég vænti þess, að það orðalag, sem hér er prentað, sé fullnægjandi, og mun ekki gera till. um að þskj. verði prentað upp, nema í samráði við hæstv. forseta eða skrifstofu Alþingis.

Það, sem er nýtt í þessari mgr., er síðari málsl., sem er viðbót okkar. Í umsögn frá Hinu íslenska kennarafélagi kom fram krafa um að réttindi kennara yrðu bundin í lögum eins og nú er í lögum um menntaskóla. Þetta er að vísu skiljanleg krafa, en ekki þótti fært að fara þá leið sem þar er lögð til, bæði sakir þess að ýmislegt, sem nú er í lögunum, er orðið kjarasamningaatriði og þó kannske fyrst og fremst vegna þess að þau réttindi, sem framhaldsskólafrv. kveður á um, ná til fleiri aðila, bæði annarra kennara en menntaskólakennara og svo annarra starfsmanna skólans sem starfa að uppeldislegum verkefnum, svo sem sálfræðinga og félagsráðgjafa. Hætt er því við að úr þessari grein hefði orðið ruglingslegur grautur hefðum við ætlað að koma til móts við alla þessa aðila og tilgreina nákvæmlega rétt þeirra í lögum. Hins vegar teljum við að með þessari breytingu sé réttur viðkomandi aðila tryggður. Bæði er kveðið á um rétt til orlofs og endurmenntunar og svo að réttindi skuli ekki minni en þau sem viðkomandi aðilar hafa nú samkv. gildandi lögum og reglugerðum. Væntum við að það sé fullnægjandi.

En veigamesta breytingin á frv. frá fyrri gerðum þess er kaflinn um fjármögnun framhaldsskólastigsins. Þar er gert ráð fyrir að skólahaldið skuli kostað af ríki og sveitarfélögum með þeim hætti að kostnaður af tveimur fyrstu skólaárum framhaldsskólans skiptist milli ríkis og sveitarfélaga eftir sömu meginreglum og kostnaður við grunnskólann, en kostnaður af námi umfram tvö fyrstu árin greiðist úr ríkissjóði.

Báðar fyrri gerðir frv. gerðu ráð fyrir að framhaldsskólástigið allt yrði kostað af ríki og sveitarfélögum í sameiningu. Þessari leið höfnuðu margir, m. a. Samband ísl. sveitarfélaga sem krafðist þess eindregið — að ríkið kostaði allt framhaldsskólanám. Ég ætla ekki að rekja fyrri ágreining um þetta atriði, en tel þó rétt að minna á að sjálf hef ég margoft lýst þeirri skoðun minni í þessum ræðustól, að ég teldi óframkvæmanlegt annað en ríkið kostaði allt framhaldsskólastigið. Ég tel því rétt að rekja ástæður þess að ég get þrátt fyrir fyrri afstöðu mælt með þeirri lausn sem frv. gerir ráð fyrir.

Í fyrsta lagi gerum við raunhæfa till. um að sveitarfélögum verði bætt hin aukna greiðslubyrði sem frv. hefur í för með sér.

Í öðru lagi hefur þróun undanfarinna ára verið á þann veg, að sveitarfélög hafa í auknum mæli verið að taka á sig kostnað vegna framhaldsskólanámsins. Þar vega þyngst fjölbrautaskólarnir, en auk þess má minna á að 4. bekkur gagnfræðaskóla var á vegum sveitarfélaga og mörg sveitarfélög eru enn með framhaldsdeildir í tengslum við grunnskóla. Þarna er því ekki að öllu leyti verið að velta yfir á sveitarfélög verkefnum sem þau hafa ekki sinnt til þessa.

Í þriðja lagi vil ég segja það sem persónulega skoðun mína, að ég tel ekki verjandi að láta deilur um fjármögnun framhaldsskólans tefja öllu lengur framgang þessa frv. Hætt er við að seint verði allir sammála um þessa hlið málsins, en á meðan mundi eðlileg þróun framhaldsskólastigs drepin í dróma. Í frv. er fundin millileið sem ég geri mér vonir um að sem flestir geti sæst á. Í þessu sambandi er rétt að minna á að í frv. er gert ráð fyrir heimild til að ákveða að framtag ríkissjóðs verði allt að 75% í byggingarkostnaði og meiri háttar búnaði sérbyggðrar verknámsaðstöðu eða skólaverkstæða, og er það gert til að auðvelda sveitarfélögum kostnaðinn af hinu dýra verknámi og þar með stuðla að því yfirlýsta markmiði að bæta verkmenntun í landinu.

Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga mæltist til þess með bréfi, sem er dagsett 15. jan., að Alþ. afgreiddi ekki frv. fyrr en að loknum fulltrúaráðsfundi sambandsins sem var ákveðinn þann 28. og 29. mars og fjallaði um framhaldsskólafrv. Ég vék áðan að þessum fulltrúaráðsfundi. Sá fundur sendi frá sér ályktun sem allir hv. alþm. hafa væntanlega séð. Augljóst er af þeirri ályktun að mjög hefur dregið úr andstöðu Sambands ísl. sveitarfélaga við hlutdeild sveitarfélaga í kostnaði af framhaldsskólum. Í ályktuninni segir, með leyfi hæstv. forseta, um kostnaðarákvæði frv.:

„Verði sú niðurstaða löggjafans við samþykkt þessa frv., að aukin verði kostnaðarleg þátttaka sveitarfélaga í rekstri framhaldsskóla, verður að gera þá kröfu, að annað tveggja verði gert, að létta af þeim útgjaldaliðum eða veita þeim nýja tekjustofna til að mæta þeim kostnaði.

Samkvæmt athugun, sem gerð var á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga, hefur komið fram að kostnaðarauki sveitarfélaga af rekstri framhaldsskóla er áætlaður um 500 millj. kr. miðað við verðlag á árinu 1979. Þá má einnig gera ráð fyrir einhverjum kostnaðarauka sveitarfélaga vegna stofnkostnaðar.“

Til þess að bæta sveitarfélögum þessa auknu greiðslubyrði höfum við, meiri hl. menntmn. Nd., flutt frv. til laga um breyt. á þeim ákvæðum laga nr. 63 frá 1974, um grunnskóla, er snerta viðhald og endurnýjun fasteigna og búnaðar, í þá mynd sem þau höfðu fram til 1975, en þá var sú breyting gerð að sveitarfélög skyldu greiða þessa kostnaðarliði að fullu. Áætlað er að hluti ríkissjóðs í viðhaldskostnaði vegna grunnskóla, ef það frv. verður að lögum, verði 770 millj. kr. miðað við verðlag á árinu 1979.

Með leyfi forseta mun ég mæla fyrir því frv. hér í leiðinni, því að það er svo nátengt því frv. um framhaldsskóla sem ég mæli fyrir nú.

Ástæðan til þess, að við teljum þessa leið heppilegasta, er fyrst og fremst sú, að með henni yrði gætt samræmis í þessum efnum varðandi grunnskóla og fyrstu tvö ár framhaldsskólans, ef það frv. verður að lögum, en víða á landinu, einkum utan höfuðborgarinnar, er allt þetta nám kennt í sama húsnæði. Auk þess er ekki því að leyna, að ákvæði laganna, eins og þau hafa verið frá 1975 um viðhaldskostnað grunnskóla, hafa ekki reynst vel. Örðugleikum hefur valdið að gera skil á milli viðhalds og endurnýjunar annars vegar og endurbóta, breytinga og nýkaupa á búnaði hins vegar. Með þeirri breytingu, sem hér er lögð til, verður þáttur ríkissjóðs í öllum þessum liðum hinn sami og verður það til einföldunar.

Í 3. gr. er kveðið svo á, að gildistökutími frv. miðist við sama tíma og ákvæði laga um framhaldsskóla að því er tekur til námsvistargjalda.

Meiri hl. menntmn. flytur nokkrar brtt. við fjármálakafla framhaldsskólafrv. og eru sumar til komnar vegna ábendinga frá Sambandi ísl. sveitarfélaga.

Fjórða brtt. okkar á þskj. 619 er við 30. gr. Við leggjum til að úr staflið b falli niður orðin „gegn jafnháu framlagi sveitarfélaga“. Þessi breyt. er gerð til samræmis við grunnskólalög.

Fimmta brtt. okkar er við 32. gr. Við leggjum til að við greinina bætist: „Sama máli gegnir um skóla sem nú eru reknir af ríkinu einu ef ekki næst samkomulag við sveitarfélög um rekstraraðild samkv. 31. gr., sbr. og 36. gr., enda sé um sérhæft nám að ræða.“

Hér er varnagli rekinn ef ekki tækist samkomulag við sveitarfélög eða milli sveitarfélaga, ef þau hugsanlega teldu að námið væri það sérhæft að það væri ekki í þeirra verkahring að standa að rekstri skólans. Með þessu ætti að vera tryggt að nauðsynlegur sérskóli yrði ekki lagður niður.

Sjötta brtt. okkar er við 33. gr. Hún varðar námsvistargjöldin sem gert er ráð fyrir að lögheimilissveitarfélag greiði vegna þeirra nemenda er tvö fyrstu skólaárin sækja skóla sem reknir eru af öðrum sveitarfélögum eða ríkinu. Hér var um tvær leiðir að velja. Önnur var sú að skylda öll sveitarfélög til þátttöku í framhaldsskólarekstri. Þótti sú leið óheppileg. Hin leiðin var sú sem valin var að lokum, þ. e. a. s. að skylda lögheimilissveitarfélag til að greiða námsvistargjald. Því er ekki að neita að mörgum þykir þetta fremur ógeðfellt og nokkur sveitarstyrkskeimur af. Ég held því að sú breyting, sem við leggjum til, að námsvistargjöld skuli greidd úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga af framlagi sjóðsins til viðkomandi sveitarfélags, sé mjög til bóta. Þannig fer uppgjörið eiginlega fram hjá sjóðnum og viðkomandi nemandi eða einstaklingur þarf ekki að standa í því að rukka þetta gjald eða sjá til þess að gjaldið sé greitt. Með þessu móti ætti að vera unnt að uppræta það sem mönnum hefur helst þótt að þessari leið. Mín skoðun er sú, að þetta gjald sveitarfélaganna sé ekki óeðlilegt með hliðsjón af því að fyrstu ár framhaldsskólastigsins eru orðin nánast sjálfsögð og mjög fáir nemendur sem ekki gangá þá braut. Það er því afskaplega óeðlilegt að lögheimilissveitarfélag taki ekki einhvern þátt í þeim kostnaði, og ef viðkomandi sveitarstjórnarmenn telja menntun á annað borð sjálfsagða ætti ekki að vera hætta á að þeir sæju eftir þessum greiðslum.

Sjöunda brtt. okkar er við 34. gr. Það er að mestu umorðun á greininni, sem varðar kostnað vegna fullorðinnafræðslunnar sem talað er um í 15. gr. Þar er, eins og hv. þm. vita, gert ráð fyrir að kostnaðurinn greiðist að þriðjungi úr ríkissjóði, að þriðjungi af sveitarfélögum og að þriðjungi með námskeiðsgjöldum nemenda. Nú er það svo, að mjög er hætt við að heildarkostnaður af námskeiðum geti verið mjög mismunandi eftir því hvort um er að ræða fámenn námskeið eða fjölmenn og hvort um er að ræða bóknám eða verknám. Þetta ákvæði gat því komið harkalegar niður á verknámsnemendum og einnig á þeim nemendum sem eru á fámennari námskeiðum úti á landi. Við leggjum því til að í reglugerð skuli kveðið á um nokkurs konar jöfnun á gjöldum, að námskeiðsgjöld nemenda skuli aldrei á einstökum námskeiðum fara yfir hámark og að reglugerðarákvæði um þetta skuli miða að því að ekki verði óeðlilegt misræmi í námskeiðsgjöldum.

Í áttundu brtt. okkar er komið til móts við kröfur Sambands ísl. sveitarfélaga, en þar er gert ráð fyrir að hluti ríkissjóðs í þeim kostnaði skóla, sem reknir eru af sveitarfélögum, öðrum en kennslulaunum skuli greiddur mánaðarlega samkvæmt áætlun sem menntmrn. samþ. Uppgjör skal síðan fara fram árlega þegar endurskoðaðir reikningar liggja fyrir. Með þessu móti ætti sveitarfélögum að sparast nokkuð fé.

Níunda brtt. okkar varðar 35. gr., en þar voru ákvæði sem voru óviðunandi fyrir sveitarfélög. Var helst hægt að lesa út úr greininni að eignaupptaka ætti að fara fram hjá sveitarfélögum við það að kostnaðarákvæði þessara laga kæmi til framkvæmda. Við slíkt getur að sjálfsögðu enginn unað. Við leggjum til að síðari mgr. 35. gr. orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við breytingar á rekstraraðild skólastofnana á þessum tíma skulu fasteignir þær, sem reistar hafa verið og notaðar til skólahalds, ásamt búnaði og tilheyrandi lóðum vera áfram til afnota fyrir skólastarf án endurgjalds. Verði sú skólastarfsemi, sem þannig er stofnað til, lögð niður innan fjögurra ára frá breytingunni skal eignunum ráðstafað sameiginlega af þeim aðilum, sem áttu þær fyrir, og skipt milli þeirra í samræmi við fyrri eignaraðild.“

Með þessari breytingu er því tryggt að skólahúsnæði helst áfram í eigu sveitarfélaga þrátt fyrir breytingar. Tíunda brtt. okkar er við 37. gr., sem verður 38. gr.

Greinar munu færast þarna eitthvað til. Þessi grein er að mati margra ein mikilvægasta grein frv., því í þessari grein er gert ráð fyrir að sérskólar ýmsir og sérfræðslulög falli úr gildi. Upptalning á skólum, sem eru í þessari grein, er vitanlega tengd hugmyndum nefndarinnar, sem samdi frv., um námsbrautirnar, sem skýrðar eru í grg. frv. Ég vek athygli á að í nál. um þetta atriði er prentvilla á bls. 3. Þar er talað um „námsbrautirnar átta“. Orðið „átta“ á ekki að vera þarna. Hefur slegið saman námssviðum og námsbrautum. Námsbrautirnar eru vitanlega fleiri en átta.

Það er augljóst að verði þetta frv. samþ, er um að ræða mikla kerfisbreytingu þar sem allt framhaldsskólanám verður innan einnar rammalöggjafar og lög um sérskóla og einstaka þætti framhaldsfræðslu afnumin. Það var álit meiri hl. í n., að með þeirri afgreiðslu mála, sem lögð er til í frv., færðist úrslitavald um skipulag framhaldsskóla eða inntak framhaldsnámsins með of skjótum og gagngerum hætti úr höndum Alþ. til menntmrn. Við teljum að ýmsir þættir framhaldsnáms þurfi miklu meiri umræðu við áður en endanleg ákvörðun er tekin um einstakar námsstofnanir. Þetta gildir einkum um sérnám ýmiss konar, sem einmitt um þessar mundir er í mikilli gerjun. Í þessu sambandi get ég t. d. nefnt hjúkrunarnám, fósturnám og vélstjóranám. Talsmenn þessara stétta hafa eindregið mótmælt þeim hugmyndum, sem fram komu í grg. frv. um tilhögun náms þeirra, og hafa fulltrúar þeirra sumir hverjir átt á undanförnum árum langar og miklar viðræður við menntmrn. um framtíðarþróun síns náms, svo er t. d. um hjúkrunarfræðinga, en fulltrúar þeirrar stéttar og heilbrigðisstéttanna mættu á fundi með n. Þeir voru Jóhanna Bernharðsdóttir formaður Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga. — Í nál. er villa. Þar stendur „hjúkrunarkvenna“, en félagið heitir Félag háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga. Einnig mættu María Pétursdóttir skólastjóri Nýja hjúkrunarskólans, Svanlaug Árnadóttir formaður Hjúkrunarfélags Íslands, Þorbjörg Jónsdóttir skólastjóri Hjúkrunarskóla Íslands og Ólafur Ólafsson landlæknir.

Nm. ræddu mjög ítarlega við þetta fólk og ég held að sá fundur hafi orðið til þess að skýra betur fyrir okkur hversu varhugavert væri að taka í einu vetfangi afstöðu til alls þess náms sem felst raunar í 37. gr. frv. Ég ætla ekki hér að rekja alla þá aðila sem hafa mótmælt hugmyndum þeim sem koma fram í grg. Ég lít svo á að brtt. okkar bendi einmitt ótvírætt til þess að til þessara mála höfum við ekki treyst okkur að taka endanlega afstöðu að svo stöddu. En í brtt. okkar felst þó sá vilji, að þetta verði athugað nánar og að það sé engan veginn sjálfsagt, að þetta nám sé á framhaldsskólastigi. Einkum og sér í lagi tel ég persónulega að rök hjúkrunarfræðinga séu mjög réttmæt og ég teldi rangt ef nám hjúkrunarfræðinga yrði skipulagt eins og gert er ráð fyrir í grg. Hjúkrunarfræðingar benda á að hjúkrunarfræðinám geti ekki farið fram innan framhaldsskólastigsins, vegna þess að undirbúningsnám eins og frv. gerir ráð fyrir sé ófullnægjandi ef nemendur eigi að geta tileinkað sér það námsefni sem krafist er fyrir hjúkrunarstarfið nú. Hjúkrunarfræðingar telja því að óraunhæft sé að ætla nemendum að stunda almennt nám jafnhliða svo umfangsmiklu sérnámi og hjúkrunarfræðinámið er. Þá telja hjúkrunarfræðingar að ekki sé hægt að gera ráð fyrir að 19 ára einstaklingar hafi yfirleitt öðlast þann þroska sem nauðsynlegur er til þess að geta innt af hendi sjálfstæð hjúkrunarstörf. Ég held að almennt megi segja um þær hugmyndir, sem koma fram í grg., enda þótt þær komi náttúrlega ekki til með að hafa lagagildi, eins og margir hafa bent á, að tilhneiging sé til að byrja sérnám of snemma. Ég er ekki frá því að n. hafi haft tilhneigingu til þess að haga svo málum, sérstaklega þegar um er að ræða hin hefðbundnu kvennastörf, og að þar sé ekki gert ráð fyrir nægilegum tíma til undirbúningsmenntunar og almennrar fræðslu. En vegna þeirra mótmæla, sem komu fram, og vegna þess að við töldum að hv. alþm. og við nm. meðtalin værum alls ekki reiðubúin til að taka afstöðu til allra þeirra sérskóla sem ætlast er til að séu numdir úr lögum leggjum við til þá breytingu að þær reglugerðir, er settar verða um hverja námsbraut í framtíðinni, verði afgreiddar á hinu háa Alþingi með samþykkt þáltill. Í greininni var gert ráð fyrir að Alþ. fjallaði um þessar reglugerðir. Við teljum það ekki nægilegt, en vildum tryggja að Alþ. ætti enn eftir að segja sitt síðasta orð um væntanlegar námsbrautir, hvernig þær eru byggðar upp, og um þá sérskóla sem hér eru taldir upp.

Ef þetta verður samþ. teljum við að tryggt sé að Alþ. fái ekki aðeins að fjalla sérstaklega um hvern námsþátt framhaldsskólastigsins, heldur teljum við líka tryggt að enginn sérskóli verði lagður niður með lögum nema Alþ. hafi áður fjallað um hann sérstaklega og samþ. aðra skipun á þeirri menntun er þar er veitt, þ. e. a. s. annaðhvort samþykkt það á framhaldsskólastigi eða hafnað því. Þá hefði Alþ. líka svigrúm til að samþykkja síðar að eitthvert nám flyttist alveg upp á háskólastig ef það þætti rétt. Ég legg því áherslu á að þótt þetta frv. verði samþ. nú er sporið ekki stigið til fulls fyrir sérskólana, en hins vegar tel ég að hinu almenna viðurkennda framhaldsnámi mundi styrkur að samþykkt þess og hægt væri að taka til hendinni og skipuleggja almennt framhaldsnám á grundvelli þeirra laga, en sérnám ýmiss konar biði frekari afgreiðslu Alþingis hvenær sem það hentaði.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu. Einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt.