10.05.1979
Sameinað þing: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4568 í B-deild Alþingistíðinda. (3697)

182. mál, sending matvæla til þróunarlanda

Frsm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Allshn. hafði til meðferðar till. á þskj. 348 um könnun á sendingu matvæla til þróunarlanda. Þetta mál hefur verið athugað og kannað nokkuð. Það hefur satt að segja ekki blásið byrlega fyrir því og þarna eru mörg ljón á veginum. Hins vegar væri ágætt ef unnt væri að haga stuðningi okkar við þróunarlönd á þann veg sem þarna er lagt til, og slík athugun má gjarnan fara fram öðru hverju eftir því sem ástæður leyfa, því að á skammri stund geta breyst kringumstæður í veröldinni þannig að það, sem var ómögulegt í gær, getur verið orðið mögulegt í dag. Þetta er vandasamt verk og verður að gæta þess vel, eins og með alla svona hjálp, að hún misfarist ekki, en komi þeim að gagni, sem til er ætlast. Við leggjum sem sagt til í allshn., að till. verði samþ., og undir þetta skrifa Páll Pétursson, Vilmundur Gylfason, Ellert B. Schram, Lárus Jónsson, Gunnlaugur Stefánsson, Bjarnfríður Leósdóttir og Ólafur Ragnar Grímsson.