18.10.1978
Efri deild: 3. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

7. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti, þingmenn. Í tilefni þessara seinustu ummæla og fsp. vil ég í fyrsta lagi taka fram, að mér er auðvitað fullkomlega ljóst að það þarf víða að huga að tæknilegum framförum og að það er mjög mikið atriði að þetta fé nýtist sem best, sem ég tel reyndar að hafi komið fram í þeim orðum sem ég sagði áðan.

Varðandi úreldingarstyrkina er augljóst að hér er um nokkurn blæmun að ræða, þar sem í hinum fyrri lögum var talað um að gömul og óhentug skip verði tekin úr notkun og eyðilögð, en hér er talað um úreldingarstyrki til þess að auðvelda mönnum að hætta rekstri skipanna. Það þarf ekki beinlínis að vera um eyðileggingu að ræða. Þetta er heldur víðtækara ákvæði. Auðvitað er þetta hvort tveggja af sama toganum, nefnilega að menn vilja stuðla að því, að fiskiskipastóllinn sé sem hagkvæmastur. Jafnframt gera menn sér ljóst, að fiskiskipastóllinn er nokkuð stór eins og stendur og þarna getur ákveðin grisjun verið til hagsbóta, bæði fyrir sjómenn og útgerðarmenn, að stuðlað verði að því, að það sem erfiðast er í rekstri og mest úrelt í þessum efnum, helltist úr lestinni.