10.05.1979
Sameinað þing: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4571 í B-deild Alþingistíðinda. (3707)

41. mál, varnir gegn olíumengun í nágrenni Keflavíkurflugvallar

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Svo sem fram kemur í nál. höfum við fulltrúar Alþb. í utanrmn. skrifað undir nál. með fyrirvara. Það er að vísu rétt, sem fram kom í framsögu hv. þm. Árna Gunnarssonar, að utanrrh. hefur skipað n. til þess að athuga mengunarmál umhverfis Keflavíkurflugvöll — og er það vel. Hins vegar er ljóst af sjálfri till.flm. hefur ætlast til að þessi athugun á mengun færi fram í miklu nánari tengslum við sjálft Alþ. en venjuleg hefðbundin nefnd getur gert og í samráði við stjórnir sveitarfélaga í nágrenni við Keflavíkurflugvöll.

Ég lét það álit mitt í ljós á fundi utanrmn., að ég teldi að utanrrh. ætti að gefa Alþ. skýrslu strax að ári og svo reglulega um störf n. og hvað þar kæmi í ljós til þess að Alþ. gæti fylgst sem best með þessum málum. Með þetta í huga taldi ég rétt að skrifa undir nál. með fyrirvara og bíða þess og sjá til hvað gerðist í málinu að ári. Ef það reyndist ekki fullnægjandi, þá væri rétt að Alþ. tæki málið upp aftur og kæmi þá fastari skipan á þetta, en rétt væri að sjá til fyrst um sinn hvernig þetta reyndist.