10.05.1979
Sameinað þing: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4583 í B-deild Alþingistíðinda. (3715)

253. mál, rannsókna- og þróunarstarfsemi í þágu atvinnuveganna

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Till. sú, sem hér er flutt, hefur verið undirbúin í fullu samráði við mig og aðra fulltrúa Rannsóknaráðs ríkisins, en samkv. lögum frá 1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, á menntmrh. sæti í Rannsóknaráði og stjórnar fundum þess.

Till. þessi fjallar um langtímaáætlun um rannsóknir og þróunarstarfsemi í þágu atvinnuveganna og er hér flutt til að leita stuðnings og samþykkis Alþingis við þessa mikilsverðu áætlun og þá stefnu sem í henni felst. Mér þykir rétt að nota þetta tækifæri til að fara nokkrum orðum um till. og efni hennar.

Samkv. lögum eru helstu viðfangsefni Rannsóknaráðs eftirfarandi, svo að laganna hljóðan sé dregin saman:

1. Að efla og samræma rannsóknastarfsemina í landinu.

2. Að veita stjórnvöldum ráðgjöf um rannsókna- og vísindamál í landinu.

3. Áð beita sér fyrir athugunum á nýtingu náttúruauðæfa landsins til nýrra atvinnuvega.

4. Að beita sér fyrir miðlun upplýsinga um niðurstöður innlendra og erlendra rannsókna og tækniþróunar.

5. Að stuðla að þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi á sviði vísindarannsókna og greiða fyrir samskiptum á því sviði.

Með gerð langtímaáætlunar er Rannsóknaráð þannig að sinna þeim hlutverkum sínum að efla og samræma rannsóknastarfsemina og veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni hennar með hliðsjón af hagsmunum og viðfangsefnum atvinnuvega. Tilgangur Rannsóknaráðs ríkisins með þessari langtímaáætlun er í aðalatriðum annars vegar sá að tengja betur en verið hefur rannsóknastarfsemina við þjóðfélagsleg markmið og þau viðfangsefni, vandamál og tækifæri sem blasa við í atvinnulífinu, hins vegar sá að stuðla að bættri nýtingu hins takmarkaða mannafla og fjármagns, sem varið er til þessarar starfsemi, með betri skilgreiningu verkefna og skarpara mati á árangri og með því að beina aukinni rannsókna- og þróunarstarfsemi að þeim sviðum sem geta skilað þjóðfélaginu mestum árangri á hverjum tíma. Með langtímaáætluninni er stefnt að verulega breyttum starfsháttum, bæði í rannsóknastarfseminni sjálfri og opinberri umfjöllun um málefni hennar. Felur þetta m. a. í sér eftirfarandi atriði:

1. Áhersla verði lögð á áætlanagerð og könnun á forsendum, stöðu og þróunarhorfum á þeim ýmsu sviðum sem rannsóknir þurfa að beinast að þannig að mikilvægustu og hagkvæmustu verkefnin verði valin á hverjum tíma.

2. Rannsóknastarfið verði sem mest unnið í afmörkuðum, vel skilgreindum verkefnum sem reynt verði að ljúka á tilteknum tíma.

3. Fjármagn til rannsókna verði veitt í ljósi mats á þörfum og með langtímasjónarmið í huga.

4. Áhersla verði lögð á heildarsamhengi rannsóknarverkefna og reynt að samhæfa sem best störf sérfræðinga innan stofnana og auka samstarf milli þeirra.

5. Áhersla verði lögð á þjálfun og endurmenntun starfsliðs til að auka hæfni þess í daglegum stjórnunarlegum efnum.

6. Aukið samstarf fjárveitingavalds, opinberra sjóða og atvinnufyrirtækja um fjármögnun rannsókna- og þróunarstarfsemi þannig að reynt sé að auka þátttöku atvinnufyrirtækja í rannsókna- og þróunarstarfsemi.

Í tengslum við langtímaáætlunina hafa aðalmarkmið þjóðfélagsins verið skýrð þannig: Efling efnahagslífs til að auka þjóðartekjur á mann, tryggja fullnægjandi atvinnutækifæri, fjárhagslegt sjálfstæði og hagsæld þjóðarinnar. Jafnvægi í þróun byggðar og búsetu í landinu með því að efla tækifæri til arðbærrar atvinnu og með jöfnun á hvers konar félagslegri aðstöðu. Bætt sambúð lands og þjóðar með verndun náttúrlegs umhverfis, fegrun þess umhverfis, sem maðurinn sjálfur mótar, og fjölþættri og skipulegri nýtingu íslenskra auðlinda. Efling félagslegrar samhjálpar til viðbúnaðar gegn hvers kyns áföllum og erfiðleikum, til aukinnar heilbrigðisgæslu, til bættrar menntunar og til verndunar einstaklingsöryggis. Og í seinasta lagi auðgun og efling menningarlífs með varðveislu íslenskrar tungu og ástundun lista, vísinda og mennta.

Rannsóknaráð telur að rannsóknastarfsemi í þágu atvinnuvega muni beinast fyrst og fremst að hinum þremur fyrstu markmiðum og að megináherslan verði lögð á eflingu efnahagslífs, en byggðamál komi þar á eftir. Að sjálfsögðu beinast rannsóknir annarra aðila en Rannsóknastofnana atvinnuveganna einnig að félagslegum og menningarlegum efnum, ekki síst á sviði íslenskrar tungu og bókmennta, en um þær rannsóknir er ekki fjallað hér.

Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Friðriks Sophussonar standa Íslendingar nú á krossgötum í atvinnu- og efnahagslegu tilliti og taka verður mikilvægar ákvarðarnir um það á næstunni hvernig eigi að að tryggja áframhaldandi efnahagsframfarir og atvinnuöryggi í landinu og að lífskjör okkar dragist ekki aftur úr því sem gerist í nálægum löndum. Margt blasir við sem hlýtur að móta viðbrögð okkar og ákvarðanir á næstunni.

Í fyrsta lagi eru um þessar mundir að verða miklar breytingar á verkaskiptingu og viðskiptaháttum í heiminum sem munu gera mun meiri kröfur en áður til að við einbeitum okkur að þeim framleiðslumöguleikum, sem gefa okkur besta samkeppnisstöðu, og höldum árvekni okkar með stöðugri leit að nýjum og betri framleiðsluaðferðum og afurðum.

Í öðru lagi er okkur ekki hvað síst nauðsyn að ná tökum á hagnýtingu auðlinda hafsins, þannig að við fáum af þeim hámarksafrakstur með sem minnstum tilkostnaði í veiðum.

Í þriðja lagi þurfum við að beisla orku landsins og hagnýta hana til aukinnar og hagkvæmari framleiðslu og til að gera daglegt starf auðveldara.

Í fjórða lagi þurfum við að gera búvöruframleiðslu hagkvæmari og miða þá fyrst og fremst við innlendar markaðsþarfir fyrir matvöru- og iðnaðarhráefni, nema fundnar verði leiðir til að stunda arðbæran útflutning á landbúnaðarafurðum.

Í fimmta lagi þurfum við að auka fjölbreytni í undirstöðugreinum efnahagslífsins og hækka vinnslustig afurðanna þannig að við fáum af þeim sem mestan arð og umsvif í atvinnulífi.

Í sjötta lagi þurfum við að reyna að bæta nýtingu þess fjármagns, sem við leggjum í íbúðarhúsnæði, og gera mannvirki okkar hæfari til að standast álag íslensks veðurfars og náttúrufars. Einnig þurfum við að átta okkur betur á því, hvernig við skipuleggjum byggðina í landinu og hvernig við byggjum hús miðuð við þarfir okkar.

Í sjöunda lagi þurfum við að átta okkur vel á því, hvaða afleiðingar fyrir okkur sú umbylting mun hafa sem nú gengur yfir heiminn og felst í stöðugt aukinni miðlun upplýsinga og bættum aðgangi stjórnvalda, stofnana, fyrirtækja og einstaklinga að þekkingarsöfnum heimsins.

Í áttunda lagi þurfum við að átta okkur á hinum ævintýralegu örtölvum sem með ótrúlega lágum kostnaði munu geta leyst manninn af hólmi í hinum ólíklegustu verkum á heimilum, í verksmiðjum og í opinberri starfsemi. Örtölvan mun breyta lífi okkar ótrúlega mikið á næstu árum, hvort sem við viljum það eða ekki. En á miklu veltur að við hagnýtum kosti hennar og möguleika til að efla samkeppnishæfni atvinnuvega okkar, auka farsæld okkar og velferð, en ekki til að skapa böl fyrir þá sem verða að breyta störfum sínum og lífsháttum vegna tilkomu hennar. Í öllu þessu er virk rannsókna- og þróunarstarfsemi og markviss viðleitni til nýsköpunar í atvinnulífi nauðsynleg til að vísa veginn og leysa vandamál, sem koma upp, og opna nýjar leiðir til að hagnýta tækifæri og möguleika sem tíminn færir okkur.

Hvernig stöndum við þá að rannsókna- og þróunarstarfsemi hér á landi og hvernig beitum við kröftum okkar á næstu árum?

Á það hefur oft verið bent, að Íslendingar verja mun minna fjármagni til rannsóknastarfsemi en aðrar þjóðir á svipuðu stigi lífskjara og tækniþróunar. Á tímabilinu frá 1950–1960 vörðu Íslendingar árlega um og undir 0.2% þjóðartekna til rannsókna, en á árunum 1960–1970 hækkaði þetta hlutfall upp í 0.45% og var árið 1977 nálægt 0.48% þjóðartekna, þegar hugvísindum og rannsóknum í læknisfræði er sleppt. Hafði hlutfallið þó lækkað úr 0.66% árið 1975. Hlutfall þetta hefur raunar verið sveiflukennt, en farið hægt og þétt vaxandi. Sé litið til nágrannalandanna verja þau yfirleitt 1.3%, eins og t. d. Noregur og Kanada, og upp í ca. 2.5%, eins og Holland, Þýskaland og Bretland, af þjóðartekjum sínum til rannsókna- og þróunarstarfsemi.

Svipuðu máli gegnir um mannafla til rannsókna, þar sem Íslendingar notuðu árið 1975 0.38% mannár af hverjum 10 þús. íbúum til rannsókna, en í Svíþjóð 93 mannár og í Noregi 71 mannár á hverja 10 þús. íbúa. Við erum því hálfdrættingar á við Norðmenn, bæði að því er fjármagn og mannafla til rannsókna varðar.

Ef lítið er á megingreinar atvinnulífsins og fjármagn í hverri grein er borið saman við vinnsluvirði, en það er framlag hverrar greinar til þjóðarframleiðslu, kemur í ljós að árið 1977 verjum við um 1.5% af vinnsluvirði sjávarútvegs til hafrannsókna, um 2.4% af vinnsluvirði landbúnaðar, þegar niðurgreiðslur eru meðtaldar, en aðeins 0.19% af vinnsluvirði fiskiðnaðar til fiskvinnslurannsókna. 0.33% af vinnsluvirði byggingariðnaðar var varið til byggingarannsókna og 0.16% af vinnsluvirði iðnaðar til iðnaðarrannsókna.

Þannig sést að við leggjum hlutfallslega mesta áherslu á rannsóknir vegna frumvinnslugreina, þ. e. fiskveiða og landbúnaðar, en mun minni áherslu á úrvinnslugreinar eins og iðnað, fiskiðnað og byggingariðnað. Í öðrum löndum eru það þó einmitt úrvinnslugreinar sem mest áhersla er lögð á og er talið að gefi mestan árangur af rannsóknum. Þessi áherslumunur á sínar eðlilegu skýringar, m. a. vegna mikilvægis frumvinnslugreina í efnahagslífi okkar hingað til. Liggur reyndar nær lagi, að rannsókna- og þróunarstarfsemi á þessum sviðum hafi opnað leiðina til hinnar miklu afkastaaukningar í fiskveiðum með aukinni þekkingu á lífsháttum sjávardýra og til örrar framleiðniaukningar í landbúnaði með betri þekkingu á eðli landsins og þeim jurta- og dýrastofnum sem nytjaðir eru. Á næstunni verður þó án efa að leggja hlutfallslega meiri þunga á rannsóknir í þágu úrvinnslugreina til að undirbyggja nýsköpun í atvinnuvegum og efnahagsþróun framtíðar. Þetta þýðir að sjálfsögðu ekki að draga beri úr hafrannsóknum og landbúnaðarrannsóknum frá því sem nú er, heldur að hlutfallslega meiri vöxtur verði í rannsóknum vegna iðnaðar, fiskvinnslu og byggingariðnaðar á næstu árum.

Skýringar á lágu hlutfalli rannsókna- og þróunarstarfsemi miðað við þjóðartekjur eru einkum tvær. Annars vegar er það, hve fyrirtæki leggja lítið til rannsókna sjálf, og hins vegar, hve hlutur háskólarannsókna er lítill. Nú sjást þess nokkur merki að hlutur Háskólans fari vaxandi og sá mikli og hæfi mannafli, sem þangað hefur ráðist á undanförnum árum, verði virkjaður til að stunda öfluga rannsóknastarfsemi í þágu íslensks þjóðlífs. Ég vil sérstaklega nefna það sem mikilvægt atriði að kennslulið í verkfræði við Háskólann fái aðstöðu til rannsókna við sitt hæfi. Ég tel reyndar orðið mjög brýnt mál að sett verði á fót verkfræðistofnun við Háskólann til að skapa þessa starfsaðstöðu. Um þátt atvinnufyrirtækjanna er það að segja, að smæð flestra íslenskra fyrirtækja dregur mjög úr því að þau geti stundað eigin rannsóknir. Sýnist mjög æskilegt að beita opinberu fé og þá hugsanlega skattalegum ráðstöfunum til að hvetja þau til samstarfs við opinberar rannsóknastofnanir um viðfangsefni sem þau hafa áhuga á og gætu hagnýtt sér niðurstöður af í framleiðslunni. Sýnist skynsamlegt að gera ráð fyrir að fjármagn til Rannsóknastofnana atvinnuveganna eða jafnvel til Háskólans gæti komið í vaxandi mæli með þessum hætti í gegnum samstarfsverkefni með fyrirtækjum, og næðist þá betra samræmi milli þarfa atvinnulífs og framkvæmdar á rannsóknum. Niðurstöður yrðu þá hagnýttar með skjótari hætti.

Í öðrum löndum er nú mikil áhersla lögð á þetta nána samband milli þeirra, sem rannsaka og þeirra fyrirtækja eða framleiðslugreina, sem eiga að hagnýta niðurstöður. Þessi viðhorf til fjármögnunar á rannsóknastarfsemi hafa raunar verið mjög til umfjöllunar hjá tveim nefndum sem unnið hafa að endurskoðun á lögum um Vísindasjóð og um Rannsóknaráð ríkisins. Er líklegt að ítarleg umræða verði um þessi mál þegar álit þessarar n. berst. Mun ég því ekki fjölyrða um þau mál frekar að sinni.

Dreift hefur verið útdrætti um langtímaáætlun Rannsóknaráðs um rannsókna- og þróunarstarfsemi. Koma þar fram till. ráðsins um fjármagn og mannafla til Rannsóknastofnana atvinnuveganna til 1981 og skiptingu þeirra á helstu rannsóknasvið samkv. mati á því hvað leggja beri áherslu á. Samkv. till. er gert ráð fyrir að fjármagn til Rannsóknastofnana aukist úr 1 124 millj. kr. árið 1976 upp í 1 630 millj. kr. árið 1981 miðað við samsvarandi verðlag, sem mun vera verðlag ársins 1976. Mannafli ykist þá úr 288 mannárum í 430 mannár. Till. þessar eru mjög hóflegar og fela í sér heldur hægari meðalársaukningu fjármagns en verið hefur, eða 7.7% á ári í stað 9.1% sem verið hefur, þegar rekstur hafrannsóknaskipa er talinn með. Hins vegar er gert ráð fyrir nokkru örari aukningu til annarra þátta rannsóknastarfsemi en rekstrar hafrannsóknaskipa þannig að mannafli til rannsókna aukist um 8.4% að meðaltali á ári til 1981, en þessi aukning var 7.5% á ári frá 1965 til 1976. Reiknað er með að umsvifin aukist örast í rannsóknum vegna iðnaðar, byggingariðnaðar og fiskvinnslu. Einnig verði nokkur áhersla lögð á aukinn mannafla í hafrannsóknum til að nýta betur hinn mikla skipakost Hafrannsóknastofnunar. Reiknað er með nokkrum breytingum á áherslum innan hverrar stofnunar, m. a. í ljósi þeirra alþjóðlegu og innlendu viðhorfa sem ég áður nefndi.

Ég er sammála þeirri skoðun sem kemur fram í lokaorðum þess bæklings um langtímaáætlun sem margir þm. munu hafa lesið, að till. um fjármagn og mannafla séu raunhæfar og að móta þurfi heildarstefnu um rannsókna- og þróunarstarfsemi er miði að því að gera hana að virkari þætti en verið hefur í þróun atvinnu- og efnahagslífs. Reyndar liggur almennur vilji stjórnarflokkanna gagnvart málinu fyrir með því að í lögum um aðgerðir í efnahagsmálum, sem nýlega voru samþykkt, er gert ráð fyrir aukinni áherslu á rannsóknir í þágu atvinnuvega í samræmi við langtímaáætlun Rannsóknaráðs ríkisins. Mikilvægur þáttur þess, að till. ráðsins sé vel tekið, er hvernig fjallað verður um fjárveitingabeiðni stofnana. Nauðsynlegt er að tengja ákvarðanir um fjárútlát við mat á verkefnum. Við núverandi aðstæður gerist það varla nema haft verði samráð við stofnanir og forsendur einstakra verkefna verði metnar um leið og undirbúningur fjárl. fer fram.

Í janúar s. l. skrifuðu forstjórar Rannsóknastofnana atvinnuveganna og Rannsóknaráðs bréf til rn. þeirra er fjalla um málefni stofnananna og fjárveitingabeiðni til þeirra. Er þar gerð till. um að tekið verði upp ákveðið fyrirkomulag varðandi samráð um meðferð fjárveitingabeiðna og hagnýtingu á langtímaáætlun Rannsóknaráðs sem endurskoðuð yrði reglulega á þriggja ára fresti og kynnt á Alþ. Kjarni þess er að teknir verði upp starfshættir sem miðist við stjórnun samkv. markmiðum, skipulagi og fjármögnun á grundvelli verkefna, eins og rakið hefur verið hér. Óskað er eftir samráði um forgangsröðun og breytingar á fjárveitingabeiðnum við fjárlagaundirbúninginn þannig að stofnanirnar hafi þar ásamt rn. full áhrif á það sem skorið verði niður ef svo ber undir. Á sameiginlegum fundi ráðh. og ráðuneytisstjóra menntamála, landbúnaðar, sjávarútvegs og iðnrn. ásamt fulltrúa fjmrn. kom fram eindreginn vilji til að taka upp þessi vinnubrögð, en fundur af þessu tagi var haldinn í febrúarbyrjun. Ég hef einnig þann skilning að fjvn. og fjárlaga- og hagsýslustofnun hafi fjallað um málið og ætli sér að taka upp þetta samstarfsform. Ég tel mjög mikilsvert að starf með þessum hætti geti hafist við undirbúning næstu fjárl. og síðan verði smám saman þróuð sú málsmeðferð í einstökum atriðum sem henta þykir.

Alþ. er með framlagðri till. til þál. um langtímastefnu í rannsókna- og þróunarstarfsemi beðið um stuðning við þau markmið, sem skilgreind eru, og þann ramma, sem settur er verkefnavali og ráðstöfun fjármagns og mannafla. Gefst þm. með þessu kostur að ræða málefni rannsóknastarfseminnar í ljósi þjóðfélagslegra þarfa og almennrar stefnumótunar. Yrði þá unnt að taka mið af umr. þingsins og vilja þess við nánari útfærslu á áætluninni og við ákvarðanir um málefni stofnanna. Áhersla er lögð á að langtímaáætlunin er fyrst og fremst rammi og verður að sjálfsögðu unnt að breyta henni í einstökum atriðum eftir því sem forsendur kynnu að breytast og aðstæður krefðust. Langtímaáætlun sú, sem hér liggur fyrir, varðar að nokkru tímabil sem er liðið. Hins vegar hefur hinn langi tími, sem farið hefur í undirbúning, nýst þannig að sjálf vinnan að langtímaáætluninni hefur leitt til umtalsverðra breytinga á viðhorfum innan stofnana og í sumum þeirra valdið breytingum á starfsháttum í þá átt sem gert er ráð fyrir í áætluninni. Farið hefur verið í gegnum kerfisbundið starf að norskri fyrirmynd við gerð hennar. Þessi umr. hér á Alþ. er í rauninni síðasta stig þeirrar málsmeðferðar. Ég treysti því, að undirtektir þingsins verði góðar, og hvet þm. til að tjá sig um málið. Jafnframt vonast ég til að till. fái skjóta þinglega meðferð og samþykki fyrir þinglok.