10.05.1979
Sameinað þing: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4589 í B-deild Alþingistíðinda. (3717)

253. mál, rannsókna- og þróunarstarfsemi í þágu atvinnuveganna

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mjög, en þótt ekki væri nema vegna fyrri tengsla minna við Rannsóknaráð ríkisins vil ég standa upp og lýsa ánægju minni með að þessi till. skuli vera komin fram. Ég get einnig tekið undir mikinn fróðleik sem kom fram bæði í ræðu hv. frsm. og hæstv. menntmrh. Ég vil þó leggja áherslu á örfá grundvallaratriði í þessu sambandi.

Ég veit að það er fróðlegt og það er allt rétt sem þarna kom fram um mikilvægi vísinda og tækni fyrir nútímaþjóðfélag, og líklega eigum við fleira að rekja þangað og meira en menn gera sér almennt grein fyrir. En þó er það staðreynd að í þessari viðleitni Rannsóknaráðs til þess að vinna að langtímaáætlun fyrir rannsóknir í þágu atvinnuveganna er raunar það grundvallaratriði ráðandi, að nánari tengsl þurfi að vera á milli rannsókna og atvinnuvega og á milli rannsóknastarfsemi og ríkisvalds til að leysa það sem nefna mætti daglega þörf atvinnuveganna fyrir rannsóknir. Þetta er í raun og veru það grundvallaratriði sem því réð að 1972 ákvað Rannsóknaráð að fara inn á slíka áætlanagerð. M. ö. o. er þetta jarðbundnara en alls konar skemmtilegar og fróðlegar tilvitnanir í hinn mikla hraða tæknivísinda á undanförnum árum. Ég er með þessu ekki að segja að íslenskir atvinnuvegir hafi ekki notið rannsóknastarfseminnar. Vitanlega hafa þeir gert það. En þó fannst okkur, sem að þessu unnum, að slíkt væri ekki viðurkennt eins og skyldi og þess væri ekki gætt eins og skyldi að það fjármagn, sem rennur til rannsókna, nýtist fyrir íslenska atvinnuvegi eins og nauðsynlegt er, og þá á ég að sjálfsögðu við: miðaávið þær aðstæður sem íslenskir atvinnuvegir búa undir. Það hlýtur að verða meginverkefni rannsóknastarfseminnar hér á landi að laða alls konar tækni að þeim aðstæðum sem íslenskir atvinnuvegir búa við. Við flytjum inn ákaflega mikið af þekkingu, en í mörgum tilfellum nýtist hún alls ekki eins og nauðsynlegt er vegna allt annarrar aðstöðu hér en er erlendis þar sem slík þekking kann að vera þróuð. Á þetta vil ég leggja áherslu. Tilgangur Rannsóknaráðs, þegar út í þetta var farið, var að tengja og samræma betur alla starfsemi rannsókna í þágu atvinnuveganna og starfsemi atvinnuveganna sjálfra. Þetta var fyrsta markmiðið og svo í öðru lagi aðfá betri hljómgrunn og umr. við fjárveitingavaldið um fjármagn til þessarar mikilvægu starfsemi.

Eins og kom fram í ræðu hæstv. menntmrh. var farið að nokkru leyti eftir reynslu Norðmanna sem árum saman hafa unnið slíkar áætlanir og m. a. fengið þær kynntar á sínu Stórþingi með þeim afleiðingum, að þeirra eigin mati, að stóraukinn skilningur fékkst á mikilvægi rannsókna í atvinnulífinu. Ég vil því ljúka þessum örfáu orðum með því að lýsa ánægju minni með að þetta mál skuli vera komið hér fram, og ég geri það í trausti þess að hér fari einnig sem í Noregi, að stórbættur og aukinn skilningur fáist hjá fjárveitingavaldi okkar Íslendinga á mikilvægi rannsóknastarfseminnar fyrir eðlilega þróun okkar atvinnulífs.