10.05.1979
Neðri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4621 í B-deild Alþingistíðinda. (3770)

217. mál, söluskattur

Frsm. (Kjartan Ólafsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá fjh.- og viðskn. N. hefur fjallað um það frv., sem hér er til umr., um vissar breytingar á lögum um söluskatt. Málið er þegar afgreitt frá Ed. og fjh.- og viðskn. beggja d. hafa orðið sammála um að mæla með samþykkt frv. óbreytt.

Efni frv. er að undanþiggja söluskattsgreiðslum vinnu við verksmiðjuframleidd hús þannig að þar verði um að ræða sambærilega aðstöðu við vinnu þá sem fram fer og verið hefur söluskattsfrjáls við húsbyggingar sem unnar eru á byggingarstað. Ég vil leyfa mér að lesa yfir frvgr., þannig að efni málsins verði ljóst. Frv. er aðeins ein grein og er á þessa leið, með leyfi forseta:

„Við 1. tölul. 7. gr. laganna bætist tveir nýir málsl. er orðist svo:

Þó er fjmrh. heimilt að ákveða með reglugerð að frá heildarsöluverði verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa megi framleiðandi þeirra draga við söluskattsuppgjör tiltekinn hundraðshluta verðsins. Skal frádráttarhlutfallið ákveðið sérstaklega fyrir hin ýmsu afhendingarstig verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa og taka mið af því að sú verksmiðjuvinna verði undanþegin söluskatti er unnin hefði verið söluskattsfrjáls á byggingarstað við smíði húss á hefðbundinn hátt.“

Ég hygg að efni þessa frv. þarfnist ekki frekari skýringa, en endurtek aðeins að lokum að í fyrsta lagi hafði frv. verið afgreitt einróma frá Ed. og fjh.- og viðskn. Nd. varð sammála um að mæla með samþykkt þess.