07.11.1978
Sameinað þing: 15. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

34. mál, framkvæmd laga um heilbrigðisþjónustu

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður um þetta mál. Ég fagna því mjög sem ráðh. upplýsti hér, en meginatriðið tel ég að hafi komið fram í fsp. fyrirspyrjanda, hv. 5. þm. Vesturl., að aðstöðumunur sveitarfélaganna gagnvart rekstri heilsugæslustöðva er geysilega mikill. Í kjördæmi okkar kemur þetta mjög svo í ljós, þar sem tvö sjúkrahús eru á svæðinu, en það á þó fyrst og fremst við um sjúkrahúsið á Akranesi. Akraneskaupstaður sleppur miklu betur frá þessum málum en t.d. næsta heilsugæslustöð, sem er í Borgarnesi, og líkt er farið um Ólafsvík, eins og fyrirspyrjandi veit best um.

Hver stefnan ber að vera í þessum málum skal ég ekki endilega fullyrða um. En hitt er alveg víst, að mönnum skal ekki mismunað á þann hátt að þegar þjónustan verður lakari verði útgjöldin meiri, eins og nú er um þessi mál, því að það er vissulega lakari þjónusta sem er rekin á heilsugæslustöðvum, verð ég því miður að segja, eins og í Borgarnesi en á Akranesi, og þegar sá baggi kemur svo á dreifbýlismanninn meir en á þann sem býr í kaupstað þar sem sjúkrahús er rekið, þá er þetta náttúrlega óréttlæti gagnvart þeim sem býr í meiri fjarlægð frá sjúkrahúsinu. Þetta kemur aðallega fram í sambandi við rannsóknardeildir stöðvanna. Ég held að e.t.v. verði þetta aldrei leyst fullkomlega nema með því móti að tryggingarnar taki þessi mál öll á sína arma og heilsugæslustöðvarnar verði beinlínis reknar eins og sjúkrahúsin.

Um greiðslur til lækna á fyrirspyrjandi vel að vita, en það er ekki atriði sem veldur neinum erfiðleikum fyrir heilsugæslustöðvar.