10.05.1979
Neðri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4637 í B-deild Alþingistíðinda. (3787)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Við 2. umr. um málið kom í ljós að hér lágu fyrir nokkrar allstórar brtt. við frv. og þær voru dregnar til baka til 3. umr. Í millitíðinni gafst fjh.- og viðskn. tóm til að ræða málið nokkru nánar. Mér þykir því ástæða til að gera stutta grein fyrir hver er afstaðan, að því leyti til sem bein afstaða hefur verið tekin, um hverja till. um sig.

Það er í fyrsta lagi lítil till. á þskj. 640 frá Albert Guðmundssyni, þar sem lagt er til að bæta þremur orðum inn í 20. gr. frv. Það þarf að vísu að aðlaga þessa till. að formi, vegna þess að hún var flutt við 2. umr. sem brtt. við brtt., en ég vænti að það komi ekki að sök því að hér er um augljósa breytingu að ræða sem fjh.- og viðskn. mælir með að verði samþ. Í brtt. felst, að sú breyting, sem fram kemur í 20. gr. frv. varðandi lögin um Ferðamálasjóð, skuli aðeins ná til ársins 1979 eins og aðrar hliðstæðar breytingar sem frv. fjallar um. Hér er sem sagt ekki gert ráð fyrir að breyta lögum um Ferðamálasjóð nema aðeins varðandi þetta eina ár. Fjh.- og viðskn. mælir með að till. á þskj. 640, um Ferðamálaráð, frá Albert Guðmundssyni verði samþ.

Þá lá hér við 2. umr. brtt. á þskj. 591 frá Ellert B. Schram sem varðaði greiðslu til Ríkisútvarpsins. Hæstv. fjmrh. hefur gert grein fyrir till. sem fjallar um sama efni og hann og hæstv. menntmrh. flytja, þar sem gert er ráð fyrir að um verði að ræða 300 millj. kr. greiðslu. Þar liggur því fyrir önnur till. um sama efni, en fjh.- og viðskn. hefur ekki fjallað um þetta atriði sérstaklega.

Þá liggur fyrir brtt. frá meiri hl. fjh.- og viðskn. á þskj. 676, við 3. gr. frv., að lokaorð greinarinnar falli niður, þar sem segir: „enda sé sala skuldabréfa þessara í samræmi við lánsfjáráætlun ríkisstj.“ Hér er um að ræða till. frá meiri hl. n., sem leggur þetta til. Við grein þessa höfðu komið fram nokkrar aths., bæði frá mér og fleiri aðilum. Því hefur brtt. verið flutt sem gengur nokkuð til móts við þau sjónarmið sem komið höfðu fram.

Þá liggur fyrir brtt. á þskj. 663 frá Eggert Haukdal um að varið verði 300 millj. kr. hærri upphæð til hitaveitu í Vestmannaeyjum. Hann gerir að sjálfsögðu grein fyrir þeirri till., en n. hefur ekki fjallað um hana sem slíka.

Þá er á þskj. 571 till. frá Pálma Jónssyni, sem dregin var til baka til 3. umr., sem fjallar um að ríkissjóður taki að sér að standa undir afborgunum og vöxtum og öðrum kostnaði af því 600 millj. kr. láni sem gert er ráð fyrir í lánsfjáráætluninni að tekið verði handa Rafmagnsveitum ríkisins. Samkomulag hefur ekki tekist í fjh.- og viðskn. um að standa að samþykkt till., en ýmsir nm. fylgja henni. Ég er í þeim hóp sem mun greiða atkv. með þessari till., tel að hún sé réttmæt og það sé mikil nauðsyn á að samþ. till. af þeirri gerð sem hér er um að ræða, vegna þess að hér hafa komið fram frá mörgum aðilum mjög sterkar yfirlýsingar á Alþ. um að nauðsynlegt væri að ríkissjóður legði Rafmagnsveitum ríkisins nokkurt fé, eins og fjárhagur, þeirra er, m. a. til að draga úr þörfinni á að leggja á sérstakt verðjöfnunargjald. Ég lít svo á, að þessi till. fjalli fyrst og fremst um að unnið sé að því í nokkru ríkari mæli en verið hefur að jafna rafmagnsverð á milli aðila í landinu. Ég mun því greiða till. atkv. fyrir mitt leyti.

Þá er hér um að ræða brtt. á þskj. 459 frá Ingvari Gíslasyni og Lárusi Jónssyni varðandi framkvæmdir við Kröflu. Satt að segja átti ég von á að hér kæmi brtt. — hún á kannske eftir að koma fram — varðandi þetta atriði, en fjh.- og viðskn. hafði ekki tekið afstöðu sérstaklega til þessarar tillögu.

Þá vil ég geta þess, að mér barst í hendur bréf í dag frá oddvita Bessastaðahrepps, það er dagsett í gær, og þar skorar hann á Alþ. að hækka áætlaða fjárveitingu til hitaveitu í Bessastaðahreppi. Ekki hefur unnist tími til að taka þetta fyrir sérstaklega. Eflaust eru óskir frá fleiri aðilum um að fá ríflegri fjárveitingu en gert er ráð fyrir. En ég get þess, að þetta bréf hefur mér borist, ósk liggur fyrir um þetta. Ekki eru tök á að fjh.- og viðskn. tefji lengur við afgreiðslu þessa máls en orðið er, en þyki ástæða til að verða við þessari beiðni verða till. að koma fram um það eða þá að taka málið fyrir í Ed., sem fær málið væntanlega til fyrirgreiðslu.

Ég held þá að ég hafi gert grein fyrir þeim till., sem hér liggja fyrir, og afstöðu minni til þeirra og afstöðu n. eftir því sem hún hefur komið fram, varðandi þær till. sem um er að ræða.

Um þetta þarf ég svo ekki að hafa fleiri orð, en ég endurtek það sem mína skoðun, að ég er mjög ósáttur um orðalag 3. gr. frv., sem ég hef lýst áður, þar sem farin er fyrirskipunarleið gagnvart lífeyrissjóðunum. Ég er líka mjög andvígur efni 11. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir að ráðstafa skyldusparnaði ungmenna á þann hátt sem þar er gert ráð fyrir.