10.05.1979
Neðri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4639 í B-deild Alþingistíðinda. (3791)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð.

Ég vil fyrst láta í ljós að ég harma, hversu afgreiðsla lánsfjáráætlunar hefur dregist langt úr hófi fram, og endurtaka það sem ég hef áður sagt í því efni.

Till. frá hv. 1. þm. Reykv. hef ég fallist á fyrir mitt leyti vegna þess að hún felur ekki í sér breytingu á fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni. Þess vegna tel ég að ég hafi fulla heimild til að fylgja henni, þrátt fyrir samkomulag um áætlunina sem slíka.

Varðandi till. frá hv. 1. þm. Suðurl. um hækkun á lánsheimildum vegna Hitaveitu Vestmannaeyja vil ég segja, að þegar ég mælti fyrir fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni á sínum tíma tók ég fram mjög skýrt að vegna breyttra viðhorfa við tilkomu olíukreppu hinnar nýju kynni að vera skynsamlegt og nauðsynlegt að hraða vissum framkvæmdum í landinu sem beinlínis væru þess eðlis að þær spöruðu olíuinnkaup til landsins. Nokkrar hitaveitur koma til greina. Það er Hitaveita Vestmannaeyja, það er Hitaveita Bessastaðahrepps, það er Hitaveita Akureyrar, það er Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar og e. t. v. fleiri. Ég álit, að þessi mál þurfi að athuga betur áður en breytingar eru gerðar sérstaklega á lánsfjáráætluninni varðandi einhverja eina framkvæmd, og vil því mælast til að menn fallist á að ríkisstj. athugi þessi mál á þann veg sem ég hef nú gert grein fyrir og gert verði ráð fyrir að það kynni að koma til frekari lánsútvegunar seinna á árinu í þeim tilgangi að hraða þeim framkvæmdum sem sérstaklega varða hitaveitur og e. t. v. fleiri framkvæmdir sem spara innflutning á olíuvörum.

Varðandi till., sem lögð hefur verið fram af hv. þm. Pálma Jónssyni um lán til Rafmagnsveitna ríkisins, vil ég segja það, að þegar við vorum að semja um lánsfjáráætlunina í ríkisstj. var að sjálfsögðu samið um þetta tiltekna mál á þann veg sem greinir í fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni, að lán að upphæð 600 millj. kr., sem rennur til Rafmagnsveitna ríkisins, verði greitt af ríkissjóði á næstu 5 árum. Hins vegar var ekki gert ráð fyrir í fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni að vextir af láninu væru greiddir af ríkissjóði, heldur af Rafmagnsveitum ríkisins. Brtt. hv. þm. Pálma Jónssonar er einmitt þess eðlis, að ríkissjóður taki að sér greiðslu á vöxtunum einnig. Ég skýrði frá því, þegar við vorum að ræða þessi mál og semja um þau, að ég mundi að sjálfsögðu í framsögu gera grein fyrir málinu eins og lánsfjáráætlunin greinir frá, hins vegar mundi ég láta þá skoðun í ljós í síðari umr. málsins, að ég væri hlynntur því að Rafmagnsveiturnar tækju yfir þetta lán að öllu leyti, þó að síðar yrði. Þess vegna er ég reiðubúinn til þess að beita mér fyrir því við næstu fjárfestingar- og lánsfjáráætlun að ríkissjóður yfirtaki þetta mál að öllu leyti, en stend að sjálfsögðu að öðru leyti við þá samninga, sem gerðir voru við samningu lánsfjáráætlunar, og tel mig bundinn við þá að þessu sinni.

Hv, þm. Ingvar Gíslason og Lárus Jónsson flytja till. um sérstakar heimildir til að bora við Kröflu tvær borholur. Ég hef verið þeirrar skoðunar, hef oft látið þá skoðun í ljós, að við ættum að fara okkur hægt við að verja miklu viðbótarfjármagni til framkvæmda við Kröflu á meðan sú ókyrrð er að ganga yfir sem er og hefur verið og verður e. t. v. um einhvern tíma í Mývatnssveit og nágrenni Kröflu. Mun ég greiða atkv. á móti þessari till., þar sem ég tel mig vera samningsbundinn í samræmi við samninga innan ríkisstj. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlunina. Hins vegar kann að vera skynsamlegt að athuga síðar á árinu hvort ekki sé rétt að bora eina borholu í nágrenni við Kröflu. Það kann að vera skynsamlegt. En ég álít að það þurfi að skoða það mál betur og bíða enn um sinn áður en menn taka ákvarðanir í því efni.

Ég vildi láta þessi atriði koma hér fram, herra forseti, að gefnu tilefni.