10.05.1979
Neðri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4644 í B-deild Alþingistíðinda. (3810)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Af mörgum meinlegum ágöllum frv. til lánsfjáráætlunar er sá þó einna verstur hversu mjög er skorið niður fé til hitaveituframkvæmda. Í ræðu hæstv. iðnrh. á Alþ. um daginn kom fram, að þar sem heildarsamdráttur að magni samkv. fjárfestingaráætlun ríkisstj. væri um 5–7% frá síðasta ári væri niðurskurður í hitaveituframkvæmdum meiri eða um 13% að magni. Þetta viðhorf er sannast sagna óskiljanlegt á sama tíma sem öll rök mæla með því að draga ekki úr hitaveituframkvæmdum, heldur auka þær vegna þess mikla gjaldeyrissparnaðar sem af þeim leiðir, ekki síst eins og olíuverð er nú og horfur eru á.

Þetta er sem sagt einn af hinum stærstu ágöllum frv. og næsta furðulegt að hæstv. ríkisstj. skuli ófáanleg til að breyta frá þessari háskalegu stefnu, en lýsir því þó yfir til knúin nú, að hún muni væntanlega síðar á árinu ákveð einhverjar hækkanir. Slík málsmeðferð er einnig næsta furðuleg. Það er ekki Alþ. sem á að ákveða stefnuna í þessum efnum, heldur ætlar ríkisstj. sér utan við lánsfjáráætlun einhvern tíma síðar að taka málið til nýrrar athugunar.

till., sem hér liggur fyrir og er að vísu ekki stór, en þó merkileg tilraun til þess að auka og hraða framkvæmdum við eina tiltekna hitaveitu, stefnir vitanlega í rétta átt og ég segi já.