11.05.1979
Efri deild: 97. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4657 í B-deild Alþingistíðinda. (3827)

295. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á fundi háskólaráðs 28. okt. 1976 var kjörin sjö manna nefnd til að endurskoða og samræma innbyrðis reglugerð fyrir Háskóla Íslands svo og til að gera till. til reglugerðarbreytinga vegna setningar laga nr. 45/1976.

Frv. það, sem hér er til umr., er ekki verulega efnis mikið eða afdrífaríkt, en er ávöxtur af ofangreindu nefndarstarfi. Verulegur hluti brtt. felur í sér aðlögun háskólalaganna að núverandi aðstæðum og framkvæmdavenjum í Háskólanum. Felld eru úr gildi ýmis úrelt ákvæði og ákvæði sem ekki hafa verið virk.

Veigamestu breytingarnar varða réttindi og skyldur háskólakennara við stjórnun Háskólans, ráðgefandi námsnefndir og heimild fyrir Háskólann til að eiga og reka lyfjabúð til kennslu og rannsókna í lyfjafræði lyfsala.

Mikið er um að háskólakennarar fái leyfi frá störfum. Nokkur óvissa hefur ríkt um hver væri réttarstaða þeirra kennara-og staðgengla þeirra á leyfistímanum. Í frv. eru gerðar till. um skýrar reglur varðandi það atriði. Má nefna sem dæmi, að lagt er til að kennari, sem settur er í stöðu meðan skipaður kennari er í leyfi, fái kosningarrétt við rektorskjör.

Í frv. er mælt svo fyrir, að við hverja deild og námsbraut skuli starfandi ráðgefandi námsnefndir um hverja kennslugrein. Kennarar og nemendur eiga jafnmarga fulltrúa í hverri nefnd. Ákvæði þetta er nýmæli í lögum, en námsnefndir hafa verið starfandi í nokkrum deildum Háskólans og gefið svo góða raun að rétt þykir að gera slíkt skipulag að almennri reglu.

Í 28. gr. frv. er lagt til að Háskólanum verði veitt heimild til að eiga og reka lyfjabúð til kennslu í lyfjafræði lyfsala. Um nokkurt skeið hafa verið vandkvæði á að fá nemendur í lyfjafræði vistaða til verknáms í lyfjabúðum. Þann vanda mundi lyfjabúð í eigu Háskólans leysa, jafnframt mundi skapast möguleiki fyrir Háskólann til að taka upp kennslu til kandídatsprófs í lyfjafræði lyfsala. Auk þess mætti gefast kostur til verulegrar framleiðslu á lyfjum og sérþekking, sem fyrir hendi er innan Háskólans, þannig nýtast.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þær brtt., sem fólgnar eru í frv. sem hér er til umr., en vil leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. menntmn.