11.05.1979
Efri deild: 97. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4662 í B-deild Alþingistíðinda. (3835)

177. mál, húsaleigusamningar

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. 3. landsk. þm. var samstaða í n. um þetta mál. Við erum allir sammála um að mæla með samþykkt frv. og við erum allir sammála um hinar mörgu brtt. sem félmn. gerir og hér hefur verið lýst.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál, m. a. vegna þess að ég tek mjög undir það sem hæstv. félmrh. sagði áðan, að það er mjög æskilegt, ef maður segir ekki nauðsynlegt, að málið nái fram að ganga á þessu þingi. Því þurfum við að hafa nokkurn hraða á.

Ég lýsi ánægju minni með þetta mál og þau tildrög þess, að hæstv. félmrh. skyldi hafa skipað sérstaka n. til að semja frv. Það hafa gert þrír valinkunnir menn sem hafa mikla sérþekkingu í þessum efnum, tveir hæstaréttarlögmenn, þeir Páll S. Pálsson og Ragnar Aðalsteinsson, og framkvæmdastjóri Húsnæðismálastofnunar ríkisins, Sigurður E. Guðmundsson. Mér virðist að verk þeirra sé mjög vel unnið, en sjálfsagt má alltaf eitthvað um bæta í þessu efni. Hv. félmn. hefur leitast við að gera það með þeim brtt. sem hún leggur fram á þskj. 657.

Ég vildi aðeins víkja að brtt. Ólafs Ragnars Grímssonar á þskj. 658 í tilefni af því sem hann sagði um tildrög þeirrar till. og hvers vegna hún væri ekki með hinum till. sem félmn. í heild flytur. Það er vegna þess að ég óskaði eftir að hún yrði flutt sér, svo að allir í n. gætu staðið að meginmálinu óskiptir. En ég óskaði eftir að brtt. yrði flutt sér, ef hún ætti að koma fram, vegna þess að ég er mótfallinn henni. Nú hefur hæstv. félmrh. eiginlega tekið af mér ómakið að færa rök fyrir þeirri afstöðu að vera á móti till. Ég er honum í einu og öllu sammála og þeim sjónarmiðum sem fram komu. Ég held að það verk, sem hér hefur verið unnið og liggur hér fyrir í frv.-formi, sé, eins og ég sagði áðan, mjög vel unnið og mjög vel hugsað. Þeir menn, sem hafa samið frv., gerðu ekki ráð fyrir húsaleigunefndum, og ég hygg að það sé engin tilviljun að þeir gerðu ekki ráð fyrir að komið yrði á fót sérstökum húsaleigunefndum. Ég hygg að það sé vegna þess að þeir hafi talið að slíks gerðist ekki þörf. Mér virðist að við eigum að hafa þá reglu að setja ekki á fót nefndir, hvort sem þær eru þessar eða einhverjar aðrar, þar sem ekki er brýn þörf á slíku. Það þjónar engum tilgangi og getur auk þess verið til hins lakara. Hv. 3. landsk. þm. talaði um húsaleigunefndir sem millilið. Milliliðir kunna að vera góðir undir sumum kringumstæðum, en ekki eru allir milliliðir góðir. Ég sé ekki ástæðu til að við tökum upp þennan millilið.