07.11.1978
Sameinað þing: 16. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

27. mál, lágmarks- og hámarkslaun

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram svofellda þáltill.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að setja í samráði við launþegasamtökin lög um lágmarks- og hámarkslaun, og skal munur þeirra eigi vera meiri en einn á móti tveimur og hálfum til þremur, þ.e. hámarkslaun í hæsta lagi þreföld við lágmarkslaun.

Í sömu lögum verði takmörk sett um tengd yfirvinnu, þar sem daglega er unnið um virka daga, þannig að hún verði eigi lengri en 2 tímar hvern vinnudag, nema undantekningarleyfi sé veitt af viðkomandi launþegafélagi.“

Það er alkunna, að skipting launa milli hinna mismunandi starfshópa þjóðfélagsins er ein viðkvæmasta og vandteknasta ákvörðun í launamálum. Sífelld spenna og ókyrrð á launamarkaði veldur hins vegar slíkri óvissu, að þróun atvinnulífsins bíður tjón af. Löngu er ljóst, að aðilar vinnumarkaðarins, atvinnurekendur og vinnuseljendur, hafa ekki reynst þess umkomnir að skapa festu og jafnvægi í þessum málum. Hér þarf því löggjafinn að setja rammalöggjöf, sem haldi þessum málum innan vissra marka, en að sjálfsögðu leita samvinnu og samráðs við þau samtök sem þetta snertir mest.

Til að taka af tvímæli skal strax tekið fram, hér eru höfð í huga laun fyrir ákveðna tímaeiningu, þ.e. tímakaup eða vikukaup fyrir umsamda vinnuviku eða mánaðarkaup fyrir umsaminn vinnumánuð, eins og gildir hverju sinni samkv. samningum milli aðila vinnumarkaðarins. Tökum sem dæmi, að nú væri mánaðarkaup daglaunamanns í ófaglærðu starfi 200 þús. kr. á mánuði miðað við 40 stunda vinnuviku — láta mun nærri að lægstu greiddir taxtar gefi nú það kaup — þá gætu hæstu laun samkv. þessari þáltill. verið um 600 þús. kr., en gætu verið miðað við 33–35 stunda vinnuviku svo sem samningar eru til um.

Eins og tekið er fram í grg. þáltill. þessarar er aðeins höfð í huga rammasetning fyrir launabilum, en að neðri jaðar haldi hálaunum í hófi eða hæfi og efri jaðar varni þess, að lág laun verði óhæfilega lág, því að alltaf mega þeir betur launuðu sín meir í hverju þjóðfélagi og engan veginn ósanngjarnt að beita þeim sem nokkurs konar lyftistöng fyrir þá sem minna mega sín.

Hér tel ég rétt og skylt að taka fram, að hv. 4. þm. Norðurl. e. Stefán Jónsson, hefur a.m.k. tvö undanfarin þing flutt þáltill. líks eðlis og þessa er hér um ræðir, hvað lágmarks- og hámarkslaun snertir, en viðmiðun hans var önnur, þ.e. 1:2, sem mér finnst of lítill munur. Að sjálfsögðu er mér ljóst að síst má vanmeta svonefnda ófaglærða vinnu, og víst og satt er það, að þjóðin væri báglega stödd ef ekki fengist nægilegt vinnuafl til svonefndra framleiðslustarfa. En bæði er, að viss framleiðslustörf — svo sem sjósókn og búskapur — falla ekki innan þess ramma sem hér er dreginn upp, og svo má menningar- og framfaraþjóð, sem við viljum telja okkur, aldrei missa sjónar á því, að slíku þjóðfélagi ber að hvetja þegna sína fram til menntunar áræðis og ábyrgðar, m.a. með svo jarðneskum hætti, að það svari kostnaði fjárhagslega séð, enda menntun hvort heldur hugar eða handar, hæfileikar og ábyrgð launaverðir hlutir. Við höfum farið allt of mikið inn á þá braut að greiða þessi verðmæti undir borðið. Það er opinbert leyndarmál, að víða í kerfinu, sem svo er nefnt, er greitt fyrir störf, sem ekki eru unnin, eða menn fá að taka að sér störf og vinna í vinnutíma hins fasta raunverulega starfs síns og fá umtalsverðar greiðslur fyrir, svo að þeir koma út með miklu hærri tekjur en uppgefinn starfstími bendir til. Auk þess eru alls konar fríðindi tekin upp til að fá menntaða manninn eða hæfileikamanninn til starfs fyrir hið opinbera. Síðan njóta margir góðs af sem ekki eru sömu kostum búnir og sá sem í fyrstu helgaði fríðindin og undirborðsgreiðsluna. Ákveðin og fastmótuð launastefna þarf hér að koma til, og einn liður í því gæti verið rammasetning um lágmarks- og hámarkslaun.

Þá vík ég að síðari þætti þeirrar þáltill. er hér um ræðir, þ.e. að takmörk verði sett um lengd daglegrar yfirvinnu. Löngu er orðið tímabært að setja skorður við þeirri óhóflegu yfirvinnu, sem nú tíðkast í vissum vinnugreinum, setja eins konar ný vökulög. Það ætti að vera algert hámark, að vinnudagur sé 10 tímar á sólarhring — nema í sérstökum undantekningartilfellum — enda gerist allt í senn sé staðið lengur að verki: vinnuafköst minnka, heilsu manna er stefnt í tvísýnu og menn eru sviptir tíma og næði til að njóta nokkurs nema vinnu og aftur vinnu. Jöfn og stöðug vinna er að sjálfsögðu þakkarverð, en vinnuþjökun er allt annað og ber að hindra.

Samkv. Fréttabréfi kjararannsóknarnefndar, októberhefti þessa árs, er hlutfall yfirvinnu af vinnutíma eftirgreindra vinnustétta árið 1972–1978 mánuðina apríl til júní að báðum meðtöldum þessi: Verkamanna 25.5%, verkakvenna 10%, iðnaðarmanna 23.9%. Álykta verður að enn meiri yfirvinna hafi fallið á mánuðina júlí – sept. Þegar haft er í huga að hér er um meðaltal að ræða gefur auga leið, að yfirvinna sumra í þessum hópum er miklu lengri. Vita allir, sem erfið störf hafa stundað, að einungis sérstakir vinnugarpar skila fullum afköstum fari vinnulengd daglega fram úr 9–10 stundum. Flestir grípa til þess ráðs að ætla sér af, sem kallað er, og er þá stutt í þá ályktun, að vinnukaupanda hljóti að vera betra að láta vinna hóflegan vinnutíma og greiða hann vel og fá hann vel unninn en þjarka fólki út langan dag vangreiddan.

Til að vinna gegn vinnuseinlæti eða vinnusvikum hefur verið gripið til ákvæðisvinnu, bónustaxta og yfirborgana, og sýnist sitt hverjum um afleiðingarnar. Launþegafélögin gripu til hárra yfirvinnutaxta til að hamla gegn ónauðsynlegri vinnutímalengd, en hafa ekki hlotið erindi sem erfiði, því að hátt yfirvinnukaup hefur leitt þá, sem ýmissa hluta vegna þurfa að rífa upp mikið á skömmum tíma, til að útslíta sér við vinnu og einstaka kannske gengið ágirndin ein til.

Nú veit ég eins og aðrir, að hnattstaða landsins kallar á langan vinnudag yfir sumarið. En fyrr má bjóða en ofbjóða. Þeir, sem erfiðisvinnu stunda, þurfa ekki síður öðrum að nóta unaðssemda sólar og sumars. Hér er ég að tala um innivinnufólk, m.a. það sem vinnur í frystihúsunum.

Nú mun einhver segja: Verði bannað að vinna lengur en 2 tíma í yfirvinnu hvern virkan dag á föstum verkstað, hvernig fer í öllum frystihúsum okkar, þar sem aflahrotur kalla stundum á nær sólarhringsvinnuskorpur? Sums staðar mætti mæta þessu með vaktavinnu, en hitt er rétt, að sums staðar skortir fólk til að mæta þessu álagi. Þar verður að haldast í hendur hagræðing á innkomu skipa til löndunar og leyfi fyrir undantekningum með vinnutímalengd, svo sem þáltill. gerir ráð fyrir við sérstakar ástæður. Langur og strangur vinnudagur árum saman hefur boðið hættunni heim hvað heilsunni viðvíkur hjá mörgum. Svo heilsusamleg sem hæfileg og holl vinna er, bæði andlegri og líkamlegri velferð okkar, svo er vinnuþjökun háskaleg. En óhóflega langur vinnudagur veldur öðru, sem minna er leiddur hugur að . Hann varnar því, að menn eigi tómstundir og læri að nota þær. Þann lærdóm þurfa menn gjarnan að nema fyrr en síðar á ævinni, þegar hugurinn er opinn og frjór og höndin lipur, en vinnuþjökun ungs fólks hérlendis er einmitt ofboðsleg, t.d. þess sem er að byggja yfir sig, þegar lögð er nótt með degi árlangt eða jafnvel lengur.

Í sumar heyrði ég greindan og athugulan iðnaðarmann lýsa ástandinu í vinnumálum margra, sem nú eru á miðjum aldri, á þessa leið efnislega: Við unnum myrkranna á milli við að koma yfir okkur þaki og að koma börnunum til manns í. gegnum skóla og annað. Síðan, þegar þau festu ráð sitt sjálf, réttum við þeim hjálparhönd eftir getu. Nú höfum við efni á að taka okkur hvíld og njóta lífsins, en rekum okkur þá á að okkur leiðist ef við höfum ekki verk að vinna. Við kunnum ekki á tómstundir. Það er eitthvert tómarúm í okkur, einhver meinsemd. — Ég held að það sé þetta sem veldur því, að margt fólk á miðjum aldri leitar um of á vit áfengis um margar helgar. Það er ekki andskotalaust að vera maður, eins og karlinn sagði.

Herra forseti. Ég legg til að að frestaðri þessari umr. verði þáltill. þessari vísað til allshn.