11.05.1979
Neðri deild: 85. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4673 í B-deild Alþingistíðinda. (3861)

294. mál, almannatryggingar

Flm. (Bjarnfríður Leósdóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. til l. á þskj. 621 ásamt hv. þm. Svövu Jakobsdóttur um breytingar á lögum um almannatryggingar, þannig að 10. gr. laganna orðist svo:

„Lífeyristryggingar taka til ellilífeyris, örorkulífeyris, makabóta, barnalífeyris, barnsburðarbóta, mæðralauna, fæðingarstyrks, ekkjubóta og ekkjulífeyris.“

„Á eftir 14. gr. laganna komi ný grein, er verði 15. gr., svo hljóðandi:

„Allar íslenskar konur, sem forfallast vegna barnsburðar, skulu njóta barnsburðarbóta í 90 daga samtals. Rýmri réttur samkv. kjarasamningum eða öðrum lögum helst. Bætur samkv. öðrum ákvæðum þessara laga hafa ekki áhrif á greiðslur samkv. grein þessari.

Upphæð greiðslu barnsburðarbóta skal miðast við full laun fyrir 8 klst. dagvinnu, eins og þau eru á hverjum tíma samkv. næstlægsta taxta verkamannafélagsins Dagsbrúnar í Reykjavík og greiðast mánaðarlega eftir á.“

Í grg. með frv. er stiklað á nokkrum röksemdum fyrir þessu máli. Í fyrsta lagi, að meiri hl. kvenna er við vinnu utan heimilis. Mikilvægar atvinnugreinar eru bornar uppi af vinnu kvenna. Nægir í því sambandi að minna á fiskiðnað landsmanna, heilbrigðisþjónustuna í landinu, kennarastéttina og svo mætti lengi telja. Ég held að það sé ljóst, að það heyrir til liðinna tíma að konur vinni eingöngu inni á heimilum sínum. Hvernig skyldi velferðarþjóðfélaginu vegna ef kaupmáttur heimila færi aðeins eftir launum heimilisföður? Skyldi ekki ríkisstj, eða kaupsýslumönnum bregða í brún? Ég held að efnahagskerfi okkar mundi hreinlega hrynja ef allar konur hyrfu til baka inn á heimilin. Fyrir utan vinnuframlag þeirra í undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar er efnahagsleg afkoma heimilanna undir vinnu þeirra komin. Þó verða konur enn þá að sætta sig við að vera annars flokks vinnuafl.

Konur vilja vera efnahagslega sjálfstæðar. Þær vilja vera virkir,þátttakendur í störfum þjóðfélagsins, ekki einskorða sig við heimilishald og barnauppeldi. Hvort sem þær vinna utan heimilis eingöngu af fjárhagsástæðum eða vegna þess að þær hafa kosið sér það sem áhugi þeirra og menntun segir til um, þá vilja þær halda áfram starfi sínu, hvort sem þær verða mæður eða ekki, rétt eins og karlar velja sér ekki störf eftir því hvort þeir verða feður eður ei. Gegn þessari þróun verður ekki gengið. Þess vegna varðar það miklu um velferð þessarar þjóðar, um framtíð barna okkar, að félagslegar aðgerðir mæti þörfum útivinnandi foreldra og barna þeirra. Það vantar mikið á að þessu hafi verið nægjanlega sinnt til þessa.

Mikið vantar t. d. á að hægt sé að bjóða börnum jafnan rétt til dvalar á dagvistunarheimilum eða að nægjanlegt tillit sé tekið til þess almennt að aukin útivinna foreldra útheimtir stofnanir sem sinnt geti uppeldi barna og tekið að nokkru við hlutverki því sem móðir gegnir á heimili.

Ég flutti till. til þál. um þetta mál hér á Alþ. í febr. 1975. Þá sat ég hér sem varamaður Jónasar Árnasonar. Þá stóð fyrir dyrum endurskoðun á lögum um almannatryggingar, og þá vænti ég þess að þetta réttlætismál næði fram að ganga í gegnum almannatryggingar, en sú varð ekki raunin á.

Litlu seinna — eða í apríl sama ár — flytur hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir ásamt fleirum frv. til l. um breyt. á lögum um atvinnuleysistryggingar þess efnis að Atvinnuleysistryggingasjóður skuli standa undir greiðslu til kvenna í verkalýðsstétt sem forfallast frá vinnu vegna barnsburðar, þær skuli fá atvinnuleysisbætur í 90 daga. Þessu tilræði við Atvinnuleysistryggingasjóð var þegar mótmælt af stjórn sjóðsins og Alþýðusambandinu og sýnt fram á að það mundi hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir sjóðinn til þess að gegna því hlutverki sem hann var stofnaður til að inna af hendi. Meðflm. frv., þeir Guðmundur H. Garðarsson og Pétur Sigurðsson, voru háðir í miðstjórn Alþýðusambandsins og Pétur auk þess í stjórn sjóðsins. Þrátt fyrir það var málið rekið áfram þó þeim sérstaklega hefði átt að vera fullljóst að sjóðurinn hefði ekki bolmagn til að standa undir þessum greiðslum. Nú er svo komið að greiðslur vegna fæðingarorlofs eru meira en helmingur af öllum bótum úr sjóðnum. Á s. l. ári nam þessi upphæð 517 millj. 623 þús. kr. Þá greiddu atvinnurekendur 395.6 millj. kr. í sjóðinn, um það bil 2/3 af þessum útgjöldum. Á sama tíma voru allar aðrar atvinnuleysisbætur 389 millj. kr. Konur í verkalýðsstétt, sem eru að gegna því hlutverki að eignast börn, hafa síðan hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur tókst með fulltingi Alþingis að koma fram breytingum á lögum um atvinnuleysistryggingar verið skilgreindar sem stærsti atvinnuleysingjahópurinn í landinu. Ég læt hv. alþm. um að meta þá virðingu sem íslenskum konum í verkalýðsstétt er sýnd með þessum lögum.

Með þessari frv.-gerð er reynt að leiðrétta það misræmi og óréttlæti sem nú er ríkjandi varðandi þetta mál. Í nær aldarfjórðung hafa konur, sem vinna hjá ríkinu, haft launað leyfi vegna barnsburðar - og hjá bæjarfélögum einnig. Síðan bættust atvinnuleysisbætur við hjá konum í verkalýðsstétt, sem uppfylla lágmarksskilyrði til bóta. Þrátt fyrir þetta eru fjölmargar konur utan allra réttinda.

Æskilegast hefði verið að stíga stærra skref fyrir foreldra sem gætu eftir eigin óskum skipt á milli sín launuðu leyfi til að annast um nýfædd börn sín. Í Verkalýðsfélagi Akraness höfum við t. d. farið inn á þessa braut. Þar er svolítil upphæð veitt úr sjúkrasjóði félagsins vegna barnsburðar. Þessa upphæð fá jafnt karlar sem konur, — karlarnir ef konur þeirra hafa ekki uppfyllt skilyrði til bóta. En ég tel það vænlegra til árangurs að hafa skrefið ekki stærra að sinni. Þá horfi ég sérstaklega á þær staðreyndir, að af tæpum 4000 fæddum börnum á Íslandi árið 1977, sem eru síðustu útgefnar tölur frá Hagstofu Íslands, eru 1437 börn óskilgetinn. Eftir orðanna hljóðan eru þetta börn einstæðra mæðra. Við vitum að þetta er ekki alls kostar rétt, því að margir foreldrar búa saman í óvígðri sambúð eða án þess að vera gift, en samt eru það gífurlega mörg börn sem eru á framfæri einstæðra mæðra. Hlutur þessara kvenna og barna er náttúrlega langverstur. Margar þessar mæður eru ungar og allslausar og það tekur sinn tíma að fá úrskurð um meðlag. Þær hafa margar hverjar ekki getað fengið atvinnuleysisbætur vegna barnshurðar eingöngu vegna þess að þær hafa ekki uppfyllt lágmarkskröfur, ekki verið búnar að vinna nógu lengi til að ná tilskildum réttindum. Ég held að efnahagsleg og félagsleg röskun á lífi þessara kvenna og öll aðstaða barna þeirra sé slík að ekki sé sæmandi þjóðfélagi sem býr við almannatryggingar.

Við erum nýbúin að samþykkja hér á Alþ. aðild Íslands að alþjóðasamningum um mannréttindi. Í 10. gr. þessara laga um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi segir, með leyfi forseta:

„1. Mesta mögulega vernd og aðstoð skuli látin fjölskyldunni í té, en hún er hin eðlilega grundvallarhópeining þjóðfélagsins, sérstaklega við stofnun hennar og á meðan hún er ábyrg fyrir umönnun og menntun framfærsluskyldra barna . .

2. Mæðrum skal veitt sérstök vernd í hæfilegan tíma fyrir og eftir barnsburð. Á þessum tíma skal vinnandi mæðrum veitt launað leyfi eða leyfi með nægum almannatryggingagreiðslum.“

Með þessari samþykkt tel ég að við höfum skuldbundið okkur til þessarar félagslegu ábyrgðar. Nú verður mörgum hugsað til þess á hvern hátt þetta skuli fjármagnað. Lífeyristryggingar almannatrygginga eru fjármagnaðar 86% af ríkinu, 14% af atvinnurekendum. Við gætum í fyrsta lagi hugsað okkur að sami háttur verði hafður á. Þá vex hlutur atvinnurekenda vegna þessa máls í sama hlutfalli og ríkisins. En í öðru lagi gætum við hugsað okkur að sérskatta atvinnurekendur vegna þessa.

Ég hef fengið frá Þjóðhagsstofnun tölur um atvinnutekjur landsmanna annarra en sjómanna og voru þær 260 milljarðar árið 1978. Þar af er ASÍ-verkafólk með 180 milljarða. Það eru 1250 börn sem atvinnuleysistryggingar greiða fyrir 517.6 millj. eða um 0.3% miðað við launatekjur ASÍ-verkafólks. Þessi prósenta yrði hærri ef miðað væri við aðrar launagreiðslur og tekjur kvenna innan annarra stétta. Þetta fyndist mér eðlilegasta og sjálfsagðasta lausnin og ég sé í Alþingistíðindum í umr. um þetta mál, að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir lýsir þar þeirri skoðun sinni í umr. um breyt. í lögum um atvinnuleysistryggingar, að atvinnurekendum beri að borga þetta. Þá væri eðlilegast að hækka tillag þeirra til lífeyristryggingabálksins innan almannatrygginga sem þessu næmi. En hvor hátturinn sem yrði upp tekinn til að fjármagna þessa greiðslu ætti ekki að verða til að tefja framgang þessa máls. Mér sýnist að þm. úr öllum flokkum séu sammála um þá lausn, að þessar bætur fari gegnum almannatryggingar. Ég sé að hér hafa verið lagðar fram till. til þál. sama eðlis, og ég bendi aftur á samþykkta yfirlýsingu í alþjóðasamningi um mannréttindi, og síðast, en ekki síst höfða ég til réttlætiskenndar hv. þm.

Herra forseti. Ég vona að þetta mál fái fljóta og góða afgreiðslu á þessu þingi. Það er ekki eftir neinu að bíða. Ég legg til að málið verði sent heilbr.- og trn.