11.05.1979
Neðri deild: 85. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4677 í B-deild Alþingistíðinda. (3864)

294. mál, almannatryggingar

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Vandlæting hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar er algert vindhögg og furðulegt að hann skuli nota þetta tækifæri til að ausa úr skálum reiði sinnar. Það vill nefnilega svo til að þegar þessi hv. þm. var heilbrrh. samþykkti Alþ. lög um barnsburðarbætur til allra kvenna á Íslandi og það skyldi koma til framkvæmda, ef ég man rétt, 1. jan. 1976. Þetta voru lög sem Alþ. samþykkti, en þessi hv. þm. lét sig hafa það að láta sem þessi lög hefðu aldrei verið samþykkt og gerði ekkert með þau. Síðan kemur hann hér upp í ræðustól mörgum árum seinna — mér liggur við að segja til þess að hneykslast á því að enn skuli vera hreyft þessu máli.

Það er kannske ekki tilviljun að menn æsast hér þegar barnsburðarbætur eru á dagskrá. Það er eins og það sé mesti óþarfi sem nokkurn tíma hefur heyrst þegar um almannatryggingar er að ræða. Og ef ég man rétt var ástæðan til þess, að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir hreyfði þessu máli árið 1975, sú að hún hreinlega skammaðist sín, þegar hún var úti meðal manna í Norðurlandaráði, fyrir þær sakir að Íslendingar eru í þessum efnum langt á eftir öðrum þjóðum sem vilja telja sig mannúðlegar þjóðir. Sannleikurinn er sá, að þar sem þessi mál eru talin sjálfsögð eru menn komnir það langt að menn binda fæðingarorlof ekki lengur að öllu leyti við móður barnsins, heldur foreldra, sem þýðir í rauninni að það er vérið að hugsa um velferð barnsins sjálfs. Þannig verðum við að fara að hugsa hér. Barnsburðarleyfi er alveg sama eðlis og fjölskyldubætur sem okkur þykir sjálfsagt að greiða með ungum börnum.

Við flm. þessa frv. erum báðar sammála um að stefna beri að því, að þessar bætur tengist við barnið og það sé þá foreldranna sjálfra að ákveða hvort þeirra taki sér leyfi frá störfum til þess að hugsa um batnið og heimilið. En ég held að einmitt þetta síðasta upphlaup sé sönnun þess, að við höfðum rétt fyrir okkur þegar við mátum það að ekki væri rétt á þessu stigi málsins að stíga skrefið til fulls, sem þó hlýtur að vera framtíðarþróunin. Við göngum ekki svo langt að leggja til að það skuli vera bundið við báða foreldra, heldur aðeins móðurina, við leggjum til að það sé aðeins í 90 daga, og ég hygg að það sé algert lágmark fyrir konu sem hefur fætt.

Ég fagna því að lokum, að hæstv. ráðh. hefur í sérstöku erindisbréfi mælt svo fyrir til n. að þetta mál skuli tekið sérstaklega fyrir. En það er skoðun mín með hliðsjón af forsögu þessa máls á Alþ., að það mál eigi að taka út úr sérstaklega og ekki bíða heildarendurskoðunar á tryggingalögunum. Ég held að þetta mál sé svo brýnt að það verði að hafa forgang.