11.05.1979
Neðri deild: 85. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4678 í B-deild Alþingistíðinda. (3865)

294. mál, almannatryggingar

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af digurmælum hv. síðasta þm., 10. þm. Reykv., til mín. Ég vil minna hv. þm. á það, að á þeim árum sem ég fór með heilbrigðis- og tryggingamál var skipuð endurskoðunarnefnd almannatryggingalaga sem fékk öll mál almannatrygginga til meðferðar. Allir stjórnmálaflokkar áttu fulltrúa í þessari n., ásamt fulltrúum frá Tryggingastofnun ríkisins og heilbrigðisstjórninni. Þessi n. skilaði áliti og það álit var flutt í formi frv. á síðasta þingi. Það frv. fékk afgreiðslu og þá voru tekin inn ýmis nýmæli í tryggingamálum. En þetta mál var ekki tekið upp af n. og ekki af fulltrúum eins einasta stjórnmálaflokks.

Ég skil ekki þau vinnubrögð, þegar núv. trmrh. hefur skipað að nýju endurskoðunarnefnd almannatrygginga og fulltrúar allra þingflokka hafa tilnefnt menn í n., að þá skuli, rétt eftir að n. hefur hafið störf, vera flutt hér hvert frv. á eftir öðru um breytingar á almannatryggingalögum. Hvers vegna er verið að standa í þessari endurskoðun? Hvers vegna er verið að skipa þessa n. og láta hana starfa, ef enginn þm. getur beðið eftir endurskoðuninni, og hefur þó hver þm. tækifæri til þess að hafa áhrif í gegnum fulltrúa síns þingflokks? En það er eins og allt hafi farið á hreyfingu og það séu ekki minni læti hér í þinginu heldur en á Kröflusvæðinu, því að það er flutt hér frv. eftir frv. og enginn getur beðið eftir neinu. Þetta er að verða alveg eins og með börn sem geta ekki beðið eftir því, sem þau biðja um, og þarf að hafa eitthvert taumhald á. Það er þetta, sem ég er að gagnrýna, það er þessi málsmeðferð sem er tekin upp og þm. almennt hafa samþykkt að sé viðhöfð með því að þingflokkar hafa tilnefnt sína fulltrúa. Þá finnst mér þetta vera líkast börnum, hvernig allur tillöguflutningur er hér á þessu hv. Alþingi.