11.05.1979
Neðri deild: 85. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4678 í B-deild Alþingistíðinda. (3866)

294. mál, almannatryggingar

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða þetta mál efnislega að öðru leyti en því sem það snýr að Atvinnuleysistryggingasjóði.

Hv. þm. Matthías Bjarnason, 1. þm. Vestf., flutti hér eins konar siðferðisprédikun, einkanlega yfir stjórnarandstöðunni og ríkisstj., og það er ekki nema gott eitt um það að segja. Mér er mjög vel kunnugt um það, að þessi hv. þm. er ekki fyrst og fremst upphafsmaður eða fylgismaður þess að fæðingarorlofið var lagt á Atvinnuleysistryggingasjóð með lögum árið 1975, ef ég man rétt. Það var flutt, eins og hér hefur verið skýrt frá, af nokkrum þm., og ég er þeirrar skoðunar, að það hafi ekki verið neinn meiri hl. í Alþ. fyrir framgangi þess máls á sínum tíma efnislega. En allir þm. létu svo að segja hafa sig í það að greiða þessu máli atkv. Málið sjálft var ákaflega þakkarvert, en hvernig það átti að fjármagnast var hrein vitleysa. Vitað var að Atvinnuleysistryggingasjóður gæti ekki tekið þessar greiðslur á sig. Er nú komið á daginn og kom raunar mjög fljótlega, eins og hér hefur verið frá skýrt, að mun hærri greiðslur fara til fæðingarorlofs heldur en til atvinnuleysisbóta. Greiðslur sjóðsins vegna fæðingarorlofsins eru það háar að lausafjárstaða sjóðsins er nú þannig, að það er mun lægri upphæð en fer í greiðslur vegna fæðingarorlofs á þessu ári. Þannig er staðan og nær náttúrlega engri átt að fara að á þennan hátt. Það verður að snúa þessu við. Ég fagna því út af fyrir sig, að hæstv. heilbr.- og trmrh. tekur undir þetta mál, en það eru margir ráðh. á undan honum búnir að segja hið sama, en ekkert hefur gerst.

Þegar hv. 1. þm. Vestf. var heilbr.- og trmrh. svaraði hann hér iðulega spurningum á hv. Alþ. varðandi þessi mál á þann hátt að málin væru í n., og sjálfur skipaði hann n. sem átti að endurskoða lög um atvinnuleysistryggingar. Og ég hygg að það hafi ekki verið síst þetta mál sem varð þess valdandi að sú n. var skipuð, til þess að geta skákað einhverju fram gegn þeirri gagnrýni sem iðulega hefur komið fram varðandi greiðslu fæðingarorlofs úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Sú n., sem hv. þm. skipaði þá, hefur ekki endanlega lokið störfum, en eitt voru nm. sammála um strax, og það var að fæðingarorlofið ætti ekki að heyra undir Atvinnuleysistryggingasjóð.

Ég held þess vegna að það sé mikið vafamál að það eigi að bíða með þetta mál eftir alls konar nefndarstörfum, það eigi að stíga þetta skref. Atvinnurekendur eiga að fjármagna fæðingarorlofið. Það eiga þeir að gera og það er auðvelt að koma því fyrir. Þetta benti ég á þegar málið var til ákvörðunar hér á sínum tíma, en á það var þá ekki hlustað. Ég var sá eini sem greiddi þá atkv. á móti þessari aðferð við fjármögnun fæðingarorlofs. Aðrir urðu ekki til þess.

Ég ætla aðeins að lokum að brýna fyrir hv. þm. að það verður að létta byrðum af Atvinnuleysistryggingasjóði. Það er alveg óhjákvæmilegt, og það getur kostað meira fé en það sem hér er um að ræða. Alveg sérstaklega lýsi ég fyllstu undrun og andúð á því, að enn liggur frv. fyrir hv. Alþ. þar sem á að bæta verulegum milljónahundraðaböggum á Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég ætla að vona að alþm. beri gæfu til að það verði ekki gert. En ég lýsi fyllsta stuðningi mínum við þetta frv. og tel að það væri langaffarasælast að það fengi hér skjóta afgreiðslu.