11.05.1979
Neðri deild: 85. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4679 í B-deild Alþingistíðinda. (3867)

294. mál, almannatryggingar

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er sjálfsagt erfitt fyrir þá, sem hlusta á þessum þingfundi, að átta sig á hverjir eru í stjórn og hverjir eru í stjórnarandstöðu.

Ég verð að taka undir með hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, að það er að sjálfsögðu ósköp einfalt að flytja till. um að gera allt fyrir alla á annarra kostnað. Og ég get, alveg eins og hér hefur komið fram og skal gera betur grein fyrir því, stutt þær hugmyndir sem koma fram í þessu frv. En það er nú bara einu sinni þannig, að til þess að það sé hægt verður að koma yfirlýsing frá ábyrgum aðilum um að einhver vilji borga brúsann. Hér var að fara úr ræðustólnum hv. 6. þm. Reykv., og hann var að skýra frá því, að Atvinnuleysistryggingasjóður væri ekki borgunaraðili fyrir því sem hann ætti að greiða í þessu sambandi, hvað þá ef allir aðrir bættust við sem fengju réttindi samkv. því sem hér er gert ráð fyrir. Þetta er ósköp skiljanlegt, að það vísar hver á annan.

Ég tek til máls nú til að rifja það upp að á sínum tíma, þegar sett voru lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, voru þau ákvæði sett inn í þau lög, að konur í opinberu starfi fengju þriggja mánaða barneignarfrí. Þá verður að átta sig á því, að þetta eru ekki kjarabætur. Þetta eru einhvers konar mannréttindaákvæði án kjarabót a, því að þetta eru ákvæði sem aðeins koma öðru kyninu til góða samkv. þeim lögum. Frá setningu þessara laga leið og beið, og fyrst fór að bera á miklum erfiðleikum varðandi þetta þegar verkföll urðu hjá ríkisverksmiðjunum sínum tíma, en þá kom í ljós að konur annars vegar við þilið fengu þriggja mánaða barneignarfríi, en hinum megin ekkert frí nema þá 14 daga sem gert var ráð fyrir í samningum milli aðila vinnumarkaðarins. Þetta verðum við að hafa í huga. Þess vegna voru uppi raddir hér á þingi um að leiðrétta þennan mun, eins og hér hefur verið gerð grein fyrir, sem endaði með því að samkv. till. hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur fékkst sú lausn að Atvinnuleysistryggingasjóður greiddi fyrir þá sem voru starfandi í atvinnulífinu og voru félagar í verkalýðshreyfingunni. En það er fleira kvenfólk vinnandi en það sem á aðild að verkalýðshreyfingunni. Og vegna þess að hér kom upp fulltrúi Atvinnuleysistryggingasjóðs og sagði að það væri sjálfsagt að atvinnureksturinn borgaði brúsann, þá langar mig til að varpa spurningu hér fram: Hvað um smáatvinnurekstur, hvað um smáframleiðendur, konur í stjórnunarstörfum, eigendur fyrirtækja með konur í vinnu? Hvernig á að fara með slíkt?

Hér vorum við þm. nýlega að samþykkja till. um að ríkið tæki að sér kostnað við að senda afleysingamenn út í sveitir landsins í sambandi við veikindaforföll bænda. En hvað um smáframleiðendur í bæjunum? Ég er hræddur um að þeirra réttur sé fyrir borð borinn í öllu þessu tali.

Það frv. sem hér liggur fyrir, gerir aftur á móti ráð fyrir að allar konur, hvort sem þær eru heima á heimilunum eða eru atvinnurekendur eða starfandi í verkalýðsfélögum eða opinberir starfsmenn, fái þessi réttindi, og að því leyti til styð ég stefnuna sem kemur fram í þessu frv., það skal ég taka skýrt fram. Ég hef lýst þeirri skoðun minni margoft áður. En ég vara við þeirri stefnu að koma sífellt nýjum og nýjum gjöldum yfir á atvinnurekendur, þann atvinnurekstur sem stendur ekki betur undir sér en svo, að ríkisstj., stjórn hinna vinnandi handa, tekur svo mikið tillit til þess að skera verður niður umsamin laun í landinu eins og hér hefur verið gert hvað eftir annað í vetur. En ég minni á það, þar sem talað er um réttindi kvenna hér á landi, að það var í tíð fyrrv. ríkisstj. sem samþ. voru lög um jafnrétti eða jafnstöðu kvenna. Það var í ráðherratíð hæstv. fyrrv. ráðh. Gunnars Thoroddsens, og ég vil gjarnan fá tækifæri til að minna á það í þessum umr. Hins vegar er afar skiljanlegt að fyrrv. hæstv. ráðh., Matthías Bjarnason, komi hér upp til að gera aths. þegar einn hæstv. ráðh. kemur upp í ræðustól, segist taka undir þau atriði sem er um að ræða í þessu frv., þegar af þeirri ástæðu að hæstv. ríkisstj. hefur samþykkt að ekkert frv. eigi að ná fram að ganga nema búið sé að rannsaka kostnaðinn af því, og reyndar án þess að hreyfa einu einasta orði í þá átt, hvernig fjármagna eigi þetta mál. Ég held að við verðum að gera kröfu til þess, að hinir ábyrgustu menn í þessu þjóðfélagi leyfi sér ekki þann munað að koma hér upp og lýsa yfir slíkri skoðun, nema þeir sýni fram á hvernig þeir ætli að gera þetta okkur öllum hinum skattborgurunum að kostnaðarlausu, því að að sjálfsögðu er enginn vandi að vera með öllum málum sem hér koma fram á Alþ., ef maður hefur engan áhuga á að finna út hvernig á að útvega peningana sem þau mál kosta.

Að lokum vil ég votta hæstv. fjmrh. samúð mína með því að hafa slíka ráðh. innanborðs.