07.11.1978
Sameinað þing: 16. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

27. mál, lágmarks- og hámarkslaun

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um þá till. sem hér liggur fyrir til umr. Ég veit að tilgangur flm. með þessum tillöguflutningi er góður, og mörg rök mæla með því að létta vinnuálagi af þjóðinni. Samt hljóta að vakna ýmsar spurningar þegar rætt er um þessi mál, og reyndar hefur verið komið inn á sumar þeirra í þessum umr.

Í fyrsta lagi má geta þess, að á sumum heimilum eru tvær og jafnvel fleiri fyrirvinnur. Þetta mundi eflaust bitna misjafnlega á fjölskyldum. Sumar fjölskyldur eru stórar, aðrar minni, þannig að þörf fyrir vinnu til þess að afla lífsviðurværis er misjafnlega mikil. Loks má minnast á það, að ekki er sama hvort þessi launamunur er mældur fyrir eða eftir skatta. Á því er gífurlegur munur. Í raun er launamunur hér á landi ákaflega lítill milli stétta ef borið er saman við önnur lönd, jafnvel þótt tillit sé tekið til skatta, en eins og við vitum jafna þeir að nokkru leyti út þann mun sem er á launum.

Ég er hræddur um að það sé hættulegt skref fyrir hv. Alþ. að samþykkja till. eins og þessa, vegna þess að hér erum við að nálgast það að lögbinda laun, en eins og allir vita virðist það vera stefna allra stjórnmálaflokka og flestallra Íslendinga að ríkið hafi sem minnst afskipti af slíku, launakjör eigi að ráðast í frjálsum samningum aðila vinnumarkaðarins. Nýlega hafa ein stærstu launþegasamtökin hér á landi, BSRB, fengið sinn rétt í þessum efnum, þannig að gera má ráð fyrir að sú skoðun sé að breiðast út frekar en hitt. Ég tel þess vegna varasamt að lögbinda þá stefnu sem kemur fram í þessari þáltill. Við skulum minnast þess t.d., að ýmsir dugnaðarmenn hjá þessari þjóð, og ég vil þá sérstaklega nefna í hópi fiskiskipstjóra, hafa áberandi há laun og ég vænti að verðleikum. Það getur komið slysalega út, ef þarf að setja þá í stroffuna og hífa þá í land og geyma þá þar um langt eða stutt skeið, aðeins vegna þess að þeir séu búnir að fiska of mikið. Ég get a.m.k. ekki séð annað en það þurfi að gera, því að varla verða þeir látnir bíða eftir stóru kasti eða mörgum pokum í hall og skipi síðan fyrir, þegar þeir sjá að of mikið er í vörpunni: Lagó. Nú er nóg komið. Nú má ég ekki fiska meir, mér er bannað það af hinu hv. Alþingi.

Hins vegar má vel vera að fjárveitingavaldið og reyndar framkvæmdavaldið geti gert ýmislegt til að koma í veg fyrir að vinnuálag sé of mikið hér á landi. Margoft hefur verið bent á að hið opinbera hafi með aðgerðum sínum þanið út atvinnulífið í landinu þegar allt of lítið framboð var á vinnuafli, það út af fyrir sig hafi gert vinnudag hér á landi miklu lengri en ella hefði orðið. Má minna t.d. á stórvirkjanir og aðrar slíkar framkvæmdir, en það er einmitt á slíkum stöðum sem fólk vinnur einna lengstan vinnudag. Með hæfilegum samdrætti, með jafnvægi í atvinnulífinu mætti þess vegna koma í veg fyrir of mikið vinnuálag í þessum efnum.

Sums staðar háttar þannig til hér á landi, og það gerir atvinnulíf okkar dálítið sérstakt, að við ráðum ekki yfir því, hvenær vel aflast. Það er þannig, að upp koma aflahrotur og þá finnst öllum Íslendingum það vera skylda sín, öllum þeim sem vettlingi geta valdið, að taka þátt í þeim uppgripum og leggja þá jafnan nótt við dag. Þess á milli er ördeyða og þá minnkar atvinnan að sjálfsögðu.

Ég tek það fram, að ég tel hugsunina, sem kemur fram í þessari þáltill., vera góða og gegna og ástæðu til að ræða þessi mál sérstaklega. Kemur þá vel til greina að kanna það rækilega, sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir benti á, hvernig ýmsum málum er háttað hér á landi í þessu sambandi og þá sérstaklega launaskriðinu og yfirborgunum. En ég held að atriði eins og þessi eigi ekki erindi á lög. Þau eiga hins vegar erindi til þeirra manna, sem um þessi mál fjalla. Ég vil mæla með því, að fremur sé reynt að ýta undir það með öllum tiltækum ráðum að fyrirtæki hér á landi taki upp nægilega vinnuhagræðingu til þess að allur almenningur geti lifað á daglaunum einum saman.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram í umr., að viss atvinnufyrirtæki, bæði í iðnaði og fiskiðnaði, gátu jafnvel náð sömu afköstum þegar yfirvinnubannið átti sér stað og áður hafði verið gert með talsverðri yfirvinnu. Það segir að sjálfsögðu sína sögu.

Ég tel sem sagt að lög um þetta hefðu takmarkaða þýðingu, enda megi búast við því, að lítt verði eftir þeim farið, lagasetning gæti jafnvel orðið til þess að um meiri tvískinnung og undandrátt yrði að ræða í þessum efnum en hingað til hefur borið á.