11.05.1979
Neðri deild: 85. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4683 í B-deild Alþingistíðinda. (3872)

301. mál, tekjustofnar sveitarfélaga og vegalög

Flm. (Albert Guðmundssonu):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 651 frv. til l. um breyt. á l. nr. 8 1972, um tekjustofna sveitarfélaga, og vegalögum, nr. 6 frá 1977, svo hljóðandi:

„1. gr.: Í stað orðanna „orlofsheimili launþegasamtaka“ í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 8 1972 komi: orlofsheimili, sem samtök vinnumarkaðarins og einstakir meðlimir þeirra reisa á svæðum sem sérstaklega eru keypt og skipulögð fyrir slíka starfsemi.

2. gr.: Fyrri málsl. 24. gr. laga nr. 6 1977 orðist svo: Undanskildar vegaskatti samkv. 23. gr. eru allar kirkjur, skólahús, sjúkrahús, þinghús, félagsheimili, orlofsheimili, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins og einstakir meðlimir þeirra reisa á svæðum sem sérstaklega eru keypt og skipulögð fyrir slíka starfsemi og víðar.

3. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Eins og hv. þm. er ljóst, er hér orðalagsbreyting, sem er þó nokkuð þýðingarmikil, að í stað orlofsheimila launþega nái þessi lög yfir orlofsheimili sem samtök vinnumarkaðarins og þar með atvinnurekenda reisa. Með frv. því, sem hér liggur fyrir, er ætlunin að undanþiggja öll orlofsheimili launþegasamtaka, sem reist eru á svæðum sem skipulögð eru fyrir slíka starfsemi, greiðslu fasteignaskatta, hverju nafni sem nefnist. Þá þykir eðlilegt og í samræmi við þær jafnréttishugmyndir, sem ríkjandi eru í þjóðfélaginu, að orlofsheimili vinnuveitendasamtaka sitji við sama borð. Löggjafarvaldið hefur að nokkru viðurkennt menningar- og félagslegt hlutverk þessarar starfsemi með þeirri breytingu sem gerð var á lögum um tekjustofna sveitarfélaga á árunum 1972, en þá voru orlofsheimili launþegasamtaka undanþegin greiðslu fasteignaskatts og þar með skipað á bekk með sjúkrahúsum, félagsheimilum, kirkjum, skólum og safnahúsum.

Nýlega hefur komið í ljós að tiltekin sveitarfélög túlka undanþáguákvæðið þröngt og telja það aðeins taka til þeirra orlofsheimila launþegasamtaka sem eru skráð eign samtakanna sjálfra. Þennan skilning hefur yfirstandandi eignarmatsnefnd tekið undir í úrskurði nú fyrir skömmu.

Þá orkar tvímælis að undanþágan taki til vegaskatts samkv. 23. gr. vegalaga þótt hann sé hreinn fasteignaskattur, þar sem hann ber annað nafn. Í því sambandi er einnig á það að líta, að IV. kafli vegalaga geymir undanþáguákvæði hliðstæð 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, en þar er orlofsheimila launþegasamtaka að engu getið.

Það má segja að frv. þetta gangi ekki nógu langt. Það ætti e. t. v. að ná yfir alla sumarbústaði, því að allir þurfa að njóta náttúrunnar á þeim fáu góðviðrisdögum sem hér eru.

Ég legg til að máli þessu verði að loknum þessum umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr.