11.05.1979
Sameinað þing: 92. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4686 í B-deild Alþingistíðinda. (3886)

116. mál, endurskoðun meiðyrðalöggjafar

Flm. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Ásamt hv. þm. Páli Péturssyni og Gunnlaugi Stefánssyni flyt ég þáltill. um að fela ríkisstj. að endurskoða löggjöf um ærumeiðingar. Lög þau, sem hér um ræðir, eru almenn hegningarlög, nr. 19 frá 1940, 108. gr. í XII. kafla og 234. 237. gr. og 7.41. gr. í XXV. kafla. Í þessum greinum er m. a. kveðið svo á að sektum varði bregði maður manni brigslum án tilefnis, þótt hann segi satt, og varðandi opinbera starfsmenn, að aðdróttun, þótt sönn sé, varði sektum sé hún borin fram á ótilhlýðilegan hátt. Af þessu sést að gildandi lög um meiðyrði þrengja mjög prentfrelsi og málfrelsi manna og beinlínis banna mönnum að viðlagðri refsingu að segja sannleikann. Þau geta því beinlínis komið í veg fyrir opna þjóðmálaumræðu og hljóta þar með að teljast varhugaverð fyrir lýðræði í landinu.

Hér er rétt að minna á að umrædd löggjöf um ærumeiðingar hefur þótt orka tvímælis allt frá því að hún var sett, en lögin eru tæpra 40 ára gömul eða sett árið 1940. Helsti andófsmaður þessa máls á þingi, þegar það var til umr. árið 1939, var Gísli Sveinsson sýslumaður og þm. og voru tvær greinar honum einkum þyrnir í augum. Það voru 236. gr. og 237. gr. og varaði hann mjög við að binda þau ákvæði í lög. Áður en ég rek málflutning Gísla Sveinssonar, sem ég tel merkilegan og sígildan, er rétt að ég rifji upp hvernig þessar greinar hljóða.

236. gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sé ærumeiðandi aðdróttun höfð í frammi eða borin út gegn betri vitund, þá varðar það varðhaldi eða fangelsi allt að 2 árum.

Sé aðdróttun birt eða borin út opinberlega, enda þótt sakaráberi hafi ekki haft sennilega ástæðu til þess að halda hana rétta, þá varðar það sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 2 árum.“

237. gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef maður bregður manni brigslum án nokkurs tilefnis, þá varðar það sektum, þótt hann segi satt.“

Um efni þessara ákvæða sagði Gísli í þingræðu á sínum tíma að verið væri að skerða þá hluti sem í eina og hálfa öld hefðu verið uppistaða alls lýðfrelsis í ræðu og riti, og hann minnir á að allar þjóðir hafi keppst við að taka upp í stjórnarskrár sínar ákvæði um ritfrelsi og prentfrelsi allt frá stjórnarbyltingunni miklu í Frakklandi. Með hliðsjón af þeirri þróun telur Gísli umrædd ákvæði þessarar tveggja greina varhugaverð fyrir lýðfrelsið. Hann greinir frá umr. í danska þinginu um sama efni, sem áttu sér þá stað um líkt leyti, og hann greinir frá andstöðu danskra þm. við sams konar ákvæðum sem þáv. dómsmrh. Dana, Steincke, var talsmaður fyrir. Um þetta segir Gísli, með leyfi hæstv. forseta:

„Það hefur ekki farið dult hjá þeim bræðrum okkar við Eyrarsund, að þetta sé að brjóta frelsið, en Steincke hefur varið það með þeirri forsendu, að nauður geti rekið til að brjóta frelsið til að vernda frelsið. En nú hefur það ekki komið fram, hvor hluti frelsisins sé þyngri á vogarskálinni, sá sem brotinn er eða sá sem er verndaður.“

Þessi málflutningur Gísla Sveinssonar er enn í fullu gildi, og þeir atburðir hafa gerst á síðustu árum, sem sanna okkur, að veruleg þörf er á endurmati á því, hvorn hluta frelsisins meiðyrðalöggjöfin á fyrst og fremst að vernda. Á hún að vernda æru manns á kostnað tjáningarfrelsis eða á hún fyrst og fremst að vernda frelsi manns til að tjá sig? Þetta mætti einnig orða svo: Ef árekstrar verða milli frelsisins að tjá sig og frelsisins til að hafa 100% æru, hvorn hluta frelsisins teljum við þá þýðingarmeiri? Þetta er þungamiðja málsins, ef maður reynir að meta einhver þau illræmdustu og víðtækustu meiðyrðamál sem orðið hafa hér á landi eftir að þessi lög voru sett, og reyndi þá mjög á þessa löggjöf og túlkun hennar. Hér á ég vitaskuld við VL-málin svonefndu sem fylgdu í kjölfar opinberrar umr. um bandaríska hersetu á Íslandi. Undirréttardómarar vildu leysa þennan ágreining yfirleitt á þann hátt, að tjáningarfrelsi ætti að sitja í fyrirrúmi þegar opinber umræða væri annars vegar, en smásmuguleg vernd ærunnar að víkja. Þessi stefna undirréttardómaranna allra sem um málin fjölluðu, hnígur raunar mjög í sömu átt og hæstiréttur Bandaríkjanna stefnir í og má vitna til dóma þar að lútandi. Þessi stefna gefur tjáningarfrelsinu allan forgang og takmarkar það ekki af æruverndunarástæðum nema farið sé yfir öll siðræn mörk. Hins vegar hnikaði Hæstiréttur hér yfirleitt öllum VL-dómunum til og gaf ærunni meiri vernd á kostnað tjáningarfrelsisins en undirréttur gerði. Þess ber þó einnig að geta, að Hæstiréttur klofnaði í tvennt í öllum dómum sínum.

Þessar niðurstöður dómstólanna sýna að sú löggjöf, sem dómstólarnir verða þó að styðjast við, er í engu samræmi við réttarvitund manna nú. Sú meiðyrðalöggjöf, sem við búum við í dag, gerir ekki ráð fyrir að opinber þjóðfélagsumræða sé til. Löggjöfin miðast við hugsunarhátt löngu genginna kynslóða og allt annað þjóðlíf en við lifum við nú. Það er því í rauninni ekkert undarlegt þó að dómarar sýna að tímabært er að færa þessar réttarreglur í það horf að það samsvari réttarvitund manna og tryggi, en skerði ekki grundvallarmannréttindi eins og tjáningarfrelsi. Eigi menn að geta borið traust til dómstólanna, þá er ein grundvallarforsendan sú, að sem mest samsvörun sé á milli löggjafar og réttarvitundar almennings.

Stofnun Málfrelsissjóðs sýndi einnig glögglega hver réttarvitund manna er í þessum efnum í þjóðfélagi okkar, en í ávarpi því, sem sjóðsstofnuninni fylgdi og fjöldi manná af öllum stjórnmálaskoðunum skrifaði undir, er enn hert á því að vernda skuli tjáningarfrelsi og ekki eigi að veita heimild til skerðingar á því í nútímaþjóðfélagi. Ég vil leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa ávarpið eða meginhluta þess, þar eð það skýrir glögglega kjarna málsins. Þar stendur svo, með leyfi forseta:

„Allt frá tímum frönsku stjórnarbyltingarinnar hefur skoðana- og tjáningarfrelsi verið einn af hornsteinum þess lýðræðis sem þjóðir um norðanverða Evrópu og Ameríku hafa fylgt og leitast við að festa í sessi. Réttarþróun í þessum efnum hefur mjög gengið í þá átt að rýmka málfrelsi í stjórnmálaumræðum. Samkv. stjórnarskrá Íslands eiga þessi réttindi að vera tryggð Íslendingum, en með framkvæmd gildandi lagaákvæða um meiðyrði er hætta á að þessum réttindum verði í raun settar óæskilegar og ónauðsynlegar skorður.

Tilefni þessa ávarps eru dómar þeir sem nýlega hafa verið kveðnir upp í Hæstarétti vegna ummæla sem fallið hafa í umræðum um hersetuna, eitt heitasta deilumál þjóðarinnar síðustu þrjá áratugi. Með þeim hefur mörgum einstaklingum verið gert að greiða háar fjárhæðir í málskostnað og miskabætur handa stefnendum. Undirritaðir telja nauðsynlegt að tryggt verði fyllsta frelsi til umræðna um málefni, sem varða almannaheill, og til óheftrar listrænnar tjáningar. Meðan þetta frelsi er ekki ótvírætt tryggt teljum við höfuðnauðsyn að slá skjaldborg um málfrelsið og höfum í því skyni ákveðið að beita okkur fyrir stofnun Málfrelsissjóðs. Málfrelsissjóði verður ætlað það að standa straum af kostnaði og miskabótum vegna meiðyrðamála þegar stjórn sjóðsins telur að með þeim séu óeðlilega heftar umræður um mál sem hafa almenna, samfélagslega eða menningarlega skírskotun.“

Ég læt lestri úr ávarpi stofnenda Málfrelsissjóðs lokið, herra forseti, en minni á, að þegar hefur nokkrum aðilum verið greitt fé úr sjóðnum.

Í þessari till., sem ég mæli hér fyrir, er einnig gert ráð fyrir að endurskoðun meiðyrðalöggjafarinnar taki til 241. gr., en samkv. henni má dæma óviðurkvæmileg ummæli ómerk ef sá krefst þess sem misgert var við. Fremur en leita langt yfir skammt í rökfærslu að þeirri skoðun okkar, að hér sé um úrelt ákvæði að ræða, ætla ég að leyfa mér að vitna í hæstv. forsrh., Ólaf Jóhannesson. Í opnu bréfi, sem hirtist í Tímanum í marsmánuði 1976, til Þorsteins Pálssonar þáv. ritstjóra Vísis, fjallar hæstv. forsrh., sem þá var raunar dómsmrh., um þetta ákvæði. En tilefnið var það, að ritstjóri Vísis höfðaði mál á hendur ráðh. og krafðist þess, að dómari dæmdi dauð viss ummæli ráðh. sem hann hafði látið sér um munn fara í útvarpsþættinum Beinni línu. Um þetta umrædda ákvæði segir Ólafur Jóhannesson á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalatriðið er spurningin, hvort hægt sé að dæma orð til dauða. Heilbrigð skynsemi svarar því neitandi. Orð lifa eða deyja eftir því sem efni standa til. Ekkert dómsorð getur deytt þau. Þótt dómsorð segi einhver orð dauð og ómerk getur það eftir sem áður lifað góðu lífi, flogið á milli manna í talmáli og verið skrifað í bækur og blöð, en dómsorðið verður þá bara dauður bókstafur, engum til gagns eða ánægju. Ég veit auðvitað eins vel og þú, að enn er heimild til þess í íslenskum hegningarlögum að dæma tiltekin orð eða ummæli dauð og marklaus, svo sem það mun oftast hafa verið orðað í dómsorði, sbr. 1. mgr. 241. gr. hegningarlaganna. Ég veit líka að þess háttar heimild hefur verið íáslenskum lögum allt frá því að hún var tekin upp í prentfrelsistilskipun frá 9. maí 1855, en þá þótti nú heldur vissara að setja prentfrelsinu hæfilegar skorður. Hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan og hugmyndir manna um tjáningarfrelsi og prentrétt hafa tekið talsverðum stakkaskiptum.

Ég hygg að hliðstæð ákvæði í sambandi við meiðyrðamál þekkist vart utan Íslands nema í norskum og dönskum lögum. Við fengum þau að sjálfsögðu frá Dönum.

Ómerking er ekki refsing, heldur mun hún upphaflega hafa verið hugsuð sem plástur á sár þess er taldi misgert við sig í orðum. Meginatriðið er að ákvæði þetta, þótt enn standi í íslenskum lögum, er fyrir löngu orðið úrelt og að steinrunnu nátttrölli sem samrýmist ekki nútímahugmyndum manna og síst þeirra sem telja sig fyrirsvarsmenn hins frjálsa orðs. Það væri því viðeigandi að dómstólar virtu það að vettugi og bættu þannig úr tómlæti löggjafans.“

Herra forseti. Ég álít að nægileg rök hnígi að því að endurskoða beri þá meiðyrðalöggjöf sem við búum við, og það er skoðun okkar flm., að sú endurskoðun eigi að fara í þann farveg að tryggja að umr., sem hafa menningarlega og þjóðfélagslega skírskotun, geti farið fram á eðlilegan hátt og séu ekki heftar með tilliti til ærunnar, sem við hljótum að skipa skör lægra. Og þótt þau ráð hæstv. núv. forsrh. til dómstólanna um að bæta úr tómlæti löggjafans með því að virða að vettugi viss lagaákvæði hafi í því samhengi, sem þau voru sett fram, verið sanngjörn og rétt, þá hlýtur hitt þó að teljast réttara, að löggjafinn hæti úr eigin tómlæti og setji lög er tryggi grundvallarmannréttindi í þágu almannaheillar.

Ég leyfi mér að leggja til að till. verði vísað til allshn.