11.05.1979
Sameinað þing: 92. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4689 í B-deild Alþingistíðinda. (3887)

116. mál, endurskoðun meiðyrðalöggjafar

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég hef mjög litlu við hina ítarlegu framsögu hv. 1. flm. að bæta. Þó langar mig, þar sem ég er meðflm. að þessari till., að drepa á eitt atriði enn, sem ég tók ekki eftir að kæmi fram í máli hv. 1. flm. Það er skoðun mín, að það þurfi að breyta þessari löggjöf, það þurfi að endurskoða hana og færa hana nokkuð til annars horfs en hún er nú. Meginrökin fyrir þeirri skoðun minni eru þau, að eftir henni sýnist mér hafa verið felldir dómar sem ekki er hægt að áfrýja, sem ég finn ekki vitrænar forsendur fyrir, en sjálfsagt eru þeir löglegir.

Ég vil enn fremur gera mikinn mun á því, á hvern hátt menn skammast. Ég vil fyrirgefa skammir miklu fremur ef settar eru fram með listrænum hætti. Hættan við að rýmka löggjöf eins og þessa er sú, að menn leiðist út í illyrði. Það er engum málstað til framdráttar, engum einstaklingi til framdráttar að illyrðast í geðvonsku og af kauðahætti, og út af fyrir sig sé ég ekkert á móti því að það sé refsingarvert athæfi. Hitt horfir öðruvísi við mér, ef þetta er gert með skemmtilegum og listrænum hætti. Ég hef orðið þess var, að það er hægt að komast að orði svo að fengur er að og svo að auðgi mannlífið, og það er ástæðulaust að refsa svo mjög fyrir það.

Þá væri líka æskilegt að geta gert mun á því, hvort sagt er satt eða logið. Ég lít svo að það eigi að vera refsivert athæfi að ljúga upp á mann rakalausum ósannindum og ekki síst ef þær eru settar fram á ósmekklegan hátt. En ég held ástæða sé til að fara mildari höndum um þann sem getur sannað áburð sinn, þann sem getur sannað að hann hafi haft rétt að mæla. Það er býsna mikið atriði. Og þetta leiðir hugann að fjölmiðlum nútímans. Fjölmiðlar eru orðnir máttugir í þjóðfélaginu. Fjölmiðlafólk hefur tamið sér nokkuð aðra starfshætti en áður. Blaðamennska er það sem menn kalla opnari en áður og blaðamenn eru að vísu ágengari og harðvítugri í ádeilu sinni heldur en þeir hafa áður verið. Það undirstrikar einmitt nauðsyn þess að menn umgangist staðreyndir og sannleika af virðingu og reyni að halda sér innan marka velsæmis og þeir, sem ekki virða það, taki út sína rassskellingu.

Hvort menn skammist meira í þjóðfélaginu nú um stundir eða áður, þá hygg ég að svo sé ekki. Ég hygg að orðaskipti manna á Alþ. fyrr meir hafi a. m. k. stundum verið allmiklu snarpari en við eigum að venjast sem sitjum á hv. Alþ. í dag.