07.11.1978
Sameinað þing: 16. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

27. mál, lágmarks- og hámarkslaun

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa því í byrjun, að ég er í öllum meginatriðum samþykkur þeirri hugsun, sem býr að baki þáltill. sem hér er til umr. En ég sé töluverða galla á henni. Ég sé þann megingalla á henni, að ég held að þjóðfélag okkar sé ekki viðbúið að taka á móti þessari kenningu. Hún er rétt, en því miður, við erum ekki enn þá komnir á það þjóðfélagslega stig, að við getum á Alþingi Íslendinga skipað mönnum að hlýða svona lögum. Þau verða ekki virt vegna þess að þjóðfélagið finnur enn þá ekki til réttlætis þeirra.

Flm. tók fram að sjómennska og landbúnaður gætu ekki fallið undir þetta. Sýnir það út af fyrir sig og sannar mér, að ég fer að því leyti með rétt mál, að þessir tveir meginatvinnuvegir Íslendinga eru ekki núna tilbúnir að taka á móti þessu og þarf að setja þessa tvo atvinnuvegi á allt annan bekk, heldur en þá aðra sem mundu kannske hlýða þessum lögum.

Enginn hleypur af fjalli úr smalamennsku þegar 8 plús 2 tímar eru liðnir af vinnudegi. Enginn hleypur úr flekk frá heyvinnslu þegar vinnudagur er búinn, ef aðstæður leyfa ekki. Enginn hættir vinnu á sjó, ef full nót er af loðnu þegar vinnudegi lýkur. En svo eru margir aðrir hópar sem geta ekki móttekið þetta. Við þurfum að vinna að því að breyta þjóðfélagi okkar á þann hátt að þetta verði mögulegt. Ég vildi a.m.k., áður en ég gæfi mitt fulla atkvæði með þessari till., fá umsagnir manna úr öllum atvinnugreinum um till., og þegar ég hef séð jákvæð svör allra atvinnuvega við þessari till., þá skal að sjálfsögðu fylgja henni til hlítar.

Það er mikið rétt að yfirvinna hefur verið geysilegur ósómi á íslenskum atvinnuvegum. En ég er afskaplega hræddur um að sums staðar verði ekki alfarið hjá henni komist. Það er hins vegar hægt að leysa það mál að nokkru leyti, eins og nú er þegar gert í einstaka atvinnugreinum. Þurfi t.d. að bjarga verðmætum, við segjum í frystihúsi, þykir nauðsynlegt að hafa fólk í vinnu, við skulum segja tveimur tímum lengur en leyfilegt er, en þá er það bætt upp með tveggja tíma fríi daginn eftir. Þetta þekkist t.d. í heilbrigðisþjónustunni. Við skulum segja að hjúkrunarkona vinni að nóttu til, þá þarf hún ekki að koma til vinnu aftur fyrr en hún hefur fengið fulla hvíld, ekki koma til vinnu daginn eftir sem nemur þeim tímum sem hún vann yfirvinnu. Svona ákvæði og mörg fleiri mundu verða til athugunar ef við færum að samþykkja þessa till. En þess vegna hika ég, að ég finn ekki þjóðfélag okkar tilbúið að taka á móti þessum boðskap.