11.05.1979
Sameinað þing: 92. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4690 í B-deild Alþingistíðinda. (3891)

234. mál, samvinnufélagalög

Flm. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Ég vil einungis vekja athygli á því, að í grg. er auðvitað gert ráð fyrir að fullt samráð verði haft um þessa endurskoðun við forustumenn samvinnufélaganna. Það er ekki verið að ákveða hér eitt eða neitt annað en að hefja, eins og það er orðað í till. sjálfri, undirbúning nýrrar löggjafar um samvinnufélög og samvinnusambönd. Auðvitað er mjög vel hægt að samþykkja till. og taka upp viðræður við forustumenn samvinnufélaganna.

Að því er varðar það, hvort Erlendi Einarssyni hafi verið alvara þegar hann orðaði það fyrir allmörgum árum að ég yrði hjálplegur við að koma fram þessum lagabreytingum, þá vildi það svo til að við fluttum hvor um sig erindi á ráðstefnu uppi í Bifröst, þar sem ég ræddi um almenningshlutafélög aðallega og hann um samvinnufélög. Það urðu mjög skemmtilegar og miklar umr. um þessi félagaform og að hvaða leyti þau væru skyld og að hvaða leyti ekki, og við vorum, held ég, sammála um flest sem sagt var á þessari ráðstefnu, ég og forstjóri Sambands ísl. samvinnufélaga. Því miður tókst hvorugum okkar að hafa þau áhrif í þjóðfélaginu að löggjöf yrði sett um þessi félagaform fyrr en á s. l. vetri. Ég get, held ég, sagt að ég hafi átt þátt í því að reka frv. um hlutafélög áfram í fjh.- og viðskn., og mér finnst þess vegna tímabært að bæði ég og aðrir reynum að endurbæta samvinnufélagalöggjöfina. Ég minnist þess sérstaklega að formaður fjh.- og viðskn., sem þá var, Halldór Ásgrímsson, ræddi það einmitt oftar en einu sinni við mig að samvinnufélagalögin yrðu endurskoðuð líka í framhaldi af endurskoðun hlutafélagalöggjafar og að þessi tvenn lög yrðu samræmd.

Ég get gjarnan bætt því við, að það skortir hér á Íslandi einnig löggjöf um ýmiss konar sjálfseignarstofnanir, samlagsfélög og sameignarfélög, sem atvinnurekstur stunda. Ég hef ekki haft það með í þessari till. vegna þess að ég held að eðlilegast væri að næst yrði samvinnufélagalögunum breytt, en síðan í framhaldi af því yrði sett sérstök löggjöf um þessar stofnanir sem sumar hverjar eru veigamiklar og reka mikinn atvinnurekstur í þjóðfélaginu án þess að um þær séu nokkur almenn lög.