18.10.1978
Neðri deild: 3. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

11. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt af fulltrúum allra þingflokka. Hér er því um samkomulagsmál að ræða sem ég vænti að geti fengið fljóta afgreiðslu hér á þingi. Frv. er mjög einfalt. Frv. gerir ráð fyrir því, að í fjvn. skuli eiga sæti 9 þm. í stað 10 sem er í gildandi lögum. En eins og öllum hv. alþm. er kunnugt, hefur sú skipan lengst af verið, að í fjvn. væru 9 menn. Frá þessu var vikið á Alþ. 1974, enda voru þá sérstakar ástæður til þess að sú skipan var tekin upp. Þær ástæður eru ekki lengur fyrir hendi og hefur því orðið að samkomulagi milli þingflokkanna að flytja þetta frv. og fækka um einn mann í fjvn., taka upp gömlu regluna og gera ráð fyrir að 9 þm. sitji í fjvn.

Að lokinni þessari umr. legg ég til að frv. gangi til allshn. til athugunar. Ég vil beina því til n. að hún sjái sér fært að taka málið fyrir nú þegar og afgreiða það í dag. Jafnframt óska ég þess, að hæstv. forseti sjái sér fært að boða til áframhaldandi fundar í dag, þannig að hægt væri að afgreiða málið út úr þessari deild til Ed. Það er þörf á að flýta þessu máli svo að hægt sé að kjósa fjvn. og hefja reglulega þau störf í fjvn. sem þar liggja fyrir.

Að svo mæltu legg ég til, að málinu verði að þessari umr. lokið vísað til hv. allshn., og vænti þess, að hún sjái sér fært að taka málið til hraðrar afgreiðslu.