11.05.1979
Sameinað þing: 92. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4699 í B-deild Alþingistíðinda. (3901)

264. mál, fiskeldi að Laxalóni

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég geri ekki ráð fyrir að tala hér langt mál að þessu sinni þó fullkomin ástæða væri til.

Ég hef áður látið þá skoðun í ljós, að illa væri farið um störf Alþ. í framtíðinni ef þm. teldu sig eiga að sitja í rannsóknarrétti og vinna að rannsókn mála. Ég hef litið svo á að löggjafarstarfsemin, sem er þeirra aðalmál, eigi að sitja í fyrirrúmi, og ýmsir hafa farið í stjórnmálabaráttuna með tilliti til þess að þeir vildu taka þátt í slíkum störfum, en ekki hugsað sér réttarrannsókn, enda væru þeir að mínu mati illa til þess hæfir, því þeir þekktu ekki svo til sem skyldi og gætu haft annarleg sjónarmið þegar þeir færu til slíkra starfa.

Ég heyrði í vetur að ein þingnefnd hefði tekið sig til að athuga mál, sem hefur stundum verið til umr. hér á hv. Alþ. og víðar, af eigin hvötum að kallað var. Það þarf enginn mér að segja að það hafi verið af eigin hvötum, heldur hefur verið á bak við það áróður og hann í meira lagi. Þetta finnst mér vera sönnun þess sem ég hef áður sagt, að slíkir aðilar eru ekki heppilegir til rannsóknar í málum vegna þess að annarleg sjónarmið kunna þar að ráða.

Það mál, sem hér er um að ræða, er á vissan hátt kannske einsdæmi í sambandi við regnbogasilung. En það er ekki einsdæmismál í sambandi við ræktun á nytjafiskum hér á landi. Það hafa margir orðið fyrir verulegu tjóni vegna áfalla af því að sjúkdómur hefur komið upp í stofni, og hefur ekki verið hægt að bæta vegna þess að hér er enginn tryggingasjóður sem greiðir slíkar bætur. Hins vegar er það skoðun mín að nauðsyn beri til að einhver slík stofnun sé í þessu landi, vegna þess að hér getur verið um geysilegt fjárhagstjón að ræða ef engar bætur koma til. Í þessu sambandi vil ég minna á það, að hjá Stangveiðifélagi Reykjavíkur kom upp sjúkdómur í laxeldisstöð fyrir nokkrum árum og gerði það að verkum að slátra þurfti öllum þeim stofni sem þar var, og fengust sama og engar bætur fyrir.

Nú hafa atvikin hagað því svo til, að ég hef á nokkurn hátt kynnst því máli sem hér er til umr. En áður en ég vík að því vil ég vekja á því athygli, inn á hvaða braut Alþ. væri að fara ef það af eigin hvötum færi að taka upp tjónbætur til einstaklinga. Mér finnst að við hinir alþm., sem ekki höfum enn kynnt okkur málið eins og nm., verðum að eiga okkar rétt til ákvörðunartöku eins og aðrir hv. þm. En ég efast ekkert um að þetta á eftir, ef samþ. verður, að verða fordæmi sem í verður vitnað og margir munu reyna að hagnýta sér. Ég er í raun og veru alveg hissa ef það á eftir að gerast að hv. Alþ. samþ. þetta án þess að gera sér grein fyrir slíkum afleiðingum í sambandi við fordæmið.

Þessu vil ég vekja sérstaka athygli á því að hér er ekki um lítið mál að ræða. Það eru ótalmörg dæmi um að tjón, sem hefur orðið vegna sjúkdóma sem hafa komið upp í stofni, hafi ekki verið bætt nema að mjög takmörkuðu leyti eða kannske að engu leyti. Nú er það svo, að fyrir nokkrum árum var um það rætt hvort öruggt væri að regnbogasilungurinn á Laxalóni væri heilbrigður. Þá stóð þannig á hjá okkur að við höfðum hér á landi engan sérfræðing sem sérstaklega hafði kynnt sér þennan þátt. Hins vegar höfðum við sérfræðinga sem höfðu kynnt sér hliðstæða sjúkdóma og voru þeim kunnugir, eins og t. d. dr. Guðmundur Pétursson á Keldum, nú yfirdýralæknir. Var þó talið að öruggt væri ekki að þeir gætu úrskurðað þarna svo að réttmætt væri. Fyrir mín tilmæli sem landbrh. var þá farið inn á þá braut að leita eftir því við tilraunastöð og sérfræðistöð í Danmörku að fá að senda þangað fisk til þess að fá úr því skorið. Þessi vísindastöð fékkst til að vinna þetta verk og vann það, og það var úrskurður hennar að það væri ekki smit í þessum fiski. Beiðnir um afgreiðslu í því sambandi voru því afgreiddar á þann veg að um heilbrigðan fisk væri að ræða.

Hins vegar kom svo upp í framhaldi af þessu að Skúli á Laxalóni vildi fara að setja upp stöð austur við Ölfusá. Nú er mér ekki kunnugt um að framkvæmdir hafi verið hafnar þar að neinu marki, og það var a. m. k. ekki þegar þetta var til umr. Það voru mörg ljón talin á veginum og m. a. varfærni embættismannanna í sambandi við smit á sjúkdómum. Enn fremur var það, að ef smit kæmi í þennan fisk og honum tækist að komast inn í veiðisvæði Ölfusár og Hvítár, þá væri geysilegt tjón orðið sem við kynnum ekki að sjá fyrir hvað mundi kosta ef slíkt væri gert. Var því talið mjög hættulegt að fara inn á þessa braut, og niðurstaða varð ekki um að gefa leyfi til slíks.

Nú kom það enn upp á s. l. ári, að í laxi, sem þarna var geymdur, kom upp sjúkdómur. Það var nokkuð gert í því máli og meira en ég held að það hafi verið metið til gagns af þeim sem um þessi mál hafa talað. Það voru fengnir erlendir sérfræðingar til að kynna sér og úrskurða hvort um sjúkdóm væri að ræða. Það er ekki nokkur vafi á að sagan, sem gerðist í kringum þetta allt, hafði sitt að segja til tjóns fyrir eiganda stöðvarinnar, því að meðan verið var að snúast í kringum þetta voru laxaseiðin látin lifa og þau voru fóðruð og það var verulegur kostnaður við að fóðra seiðin eða fiskinn. Þetta endaði svo að áliti þeirra, sem best þekktu til, með þeim hætti að eyða þessum fiski. Það féll í minn hlut sem landbrh. að ákveða þau mörk sem þarna voru sett því sem niður yrði skorið. Sú ákvörðun var að láta regnbogasilunginn eiga sig, þar sem ekki væri vitað um neinn sjúkdóm í honum, og freista þess að halda þeirri starfsemi áfram. Þannig var að því máli staðið þá. Enn fremur var það svo, að í þeirri ríkisstj., sem sat þá, var tekin sú ákvörðun, þrátt fyrir það að ekki væru lagafyrirmæli um það, að greiða Skúla á Laxalóni nokkrar bætur vegna þessa tjóns. Það var látið athuga hversu mikið tjón væti. Þeir, sem skoðuðu það, mátu tjónið á 30–34 millj., ef ég man rétt. Upphaflega voru svo greiddar 15 millj. kr. Og ég held að ég muni það rétt, að meðan ég hafði áhrif á þessi mál voru greiddar um 20 millj. kr. til þeirra sem fyrir tjóninu urðu. Ég er ekkert að efast um að tjónið var verulegt, en það var gert meira úr því en þurfti ef þessum stofni hefði verið eytt strax og ekki hefði verið reynt að telja mönnum trú um að hér væru vondir menn að verki sem vildu eyða þessum fiski því að það var á miklum misskilningi byggt. Hér var auðvitað um það að ræða að þessi seiði, sem þarna voru, máttu ekki fara út í árnar, og jafnvel þó að stjórnvöld hefðu gefið leyfi til að flytja þau, hvort sem var innanlands eða utan, þá hefði enginn orðið til að kaupa þau.

Í framhaldi af því, sem gert hefur verið í þessum málum, er svo það að Íslendingur var í námi um þessa sjúkdóma, varð sérfræðingur á því sviði, og hann var ráðinn til starfa undireins og hann hafði lokið þessu námi.

Ég held því að það sé á miklum misskilningi byggt, að það hafi verið sýnd þarna þvermóðska eða menn hafi haft nokkra löngun til þess að láta verða tjón hjá viðkomandi aðila, nema það sem leiddi af þeim erfiðleikum sem upp komu, og úr því tjóni hafi verið dregið eins og nokkur tök voru á. Ég tel einnig að það hafi verið haldið á þessu máli af fullum vinskap og reynt að hafa þau áhrif að draga úr hugsanlegum deilum í sambandi við málið og sigla þannig á milli skersins og bárunnar í þessu máli sem nokkur hávaði var í kringum.

Eftir því sem kemur fram virtist það vera niðurstaða þessa nýja sérfræðings að drepa regnbogasilunginn af ótta við að í honum kynni að leynast sjúkdómur. Það kom fram í þeim álitsgerðum, sem ég sem ráðh. fékk til meðferðar og greindi frá á hv. Alþ., að regnbogasilungurinn væri hættulegur að því leyti, að sjúkdómur gæti leynst í honum og smit hans gæti verkað þó ekki næði hann til fisks, heldur í gegnum hrognin og annað því um líkt. Nú verð ég að segja það, að þessi niðurstaða er mjög óæskileg að því leyti, að ég lít svo á að það sé illt að þurfa að eyða þessum regnbogasilungi. Hins vegar verður e. t. v. ekki hjá því komist að slátra þeim fiskum, sem upp eru komnir, og byggja þá á seiðunum sem koma í vor. Hins vegar verð ég að segja það jafnframt, að ég hef ekki neitt á móti því að stjórnvöld styðji að því að koma upp regnbogasilungi aftur á sem heilbrigðastan hátt og tryggt verði þá eins og í mannlegu valdi stendur að koma í veg fyrir að sá stofn sýkist á nýjan leik, ef hinn er sjúkur, sem er vafalaust byggt á því að menn þora ekki að treysta því að hann sé það ekki. Hins vegar hélt ég að það væri hægt að halda Laxalóni áfram sem slíkri stöð eftir þessa aðgerð og væri því miklu eðlilegra að flytja laxeldið austur í Ölfus heldur en að taka áhættu.

Nú skal ég, eins og ég sagði í upphafi máls míns, ekki þreyta menn á að segja mikið um þetta mál. Það er búið að tala nóg um það og það er búið að blása það nógu mikið upp. Hitt verð ég að segja, að ef hv. Alþ. ætlar að fara að taka upp svona mál sem sérstakt fósturbarn sitt, án þess að málið sé betur búið í hendur Alþ. en hér er lagt fram, því hér er ekki neitt það í þessari grg. sem gerir það að verkum að Alþ. fari að fóstra þetta, það er fjarri því, þá skulu þeir hv. alþm., sem að slíku vilja standa, gera sér grein fyrir því, að þeir eiga eftir að standa frammi fyrir slíkum málum oftar. Það geta orðið fleiri til að hafa uppi áróður um að koma nefndum í gang á óskiljanlegan hátt, eins og hér hefur átt sér stað. Og þetta er að mínu mati gott dæmi um það, að inn á rannsóknastarfsemi á Alþ. ekki að fara.