11.05.1979
Sameinað þing: 92. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4706 í B-deild Alþingistíðinda. (3904)

264. mál, fiskeldi að Laxalóni

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki þreyta hv. þm. með að tala hér lengi. Hins vegar hef ég það mér til afsökunar líka, að ég hef ekki þreytt hv. þm. með ræðuhöldum á þessu þingi. Öðruvísi mér áður brá, held ég megi segja.

En út af því sem kom fram hjá hv. 5. landsk. þm., Friðrik Sophussyni, vil ég segja það strax, að það er afskaplega fjarri því að ég líti á þetta mál sem nokkra árás á mig. Því fer mjög fjarri. Ég hef enga ástæðu til að líta á það sem slíkt og tel mig hafa góða samvisku í málinu, og það er fjarri því að það sé ástæðan til afstöðu minnar nú.

Ég vil hins vegar segja það í sambandi við flutning n. að máli, að það er allt annað þegar t. d. ráðh. biður n. að flytja mál. Þó eru til þess þau drög, að þá er það venjulega mál sem ekki fæst samstaða um í ríkisstj. Þá hefur ráðh. beðið n., sem fjallar um þann málaflokk, að flytja það, og þá hefur það verið tekið fram í grg.n. hafi gert þetta að ósk viðkomandi aðila, venjulega ráðh., og nm. áskilji sér rétt til óbundinnar afstöðu til málsins.

Ef Alþ. fer hins vegar að taka upp á arma sína einstaka þætti í okkar þjóðlífi og fara að gera till. um þá, eins og hér er lagt til, hvað er þá um einkaframtakið? Hér er lagt til, með leyfi hæstv. forseta: „að gera tillögur um uppbyggingu fiskræktarstöðvar á Þóroddsstöðum II í Ölfusi og hvernig þar megi halda áfram þeirri fiskrækt, sem nú er í Laxalóni“. Eru hv. þm. þeirrar skoðunar að Alþ. geti farið að gera till. um uppbyggingu á atvinnufyrirtæki Péturs eða Páls víðs vegar um landið? Ég held að það muni sýna sig, að slíka stefnu er ekki heppilegt að taka, og ég held að það sé ekki grandskoðað þegar þetta er sett fram. Það var Skúli sjálfur sem valdi þennan stað og hefur ráðið allri uppbyggingu sem þar hefur farið fram. Meira að segja hefur hann styrks notið til þess frá Alþ. Ég minnist þess frá mínum fyrstu þingárum, að þá vorum við nokkrir fjvn.-menn sem beittum okkur fyrir því að ríkið tæki ábyrgð á láni vegna þessarar starfsemi, svo að nokkurn stuðning hefur fiskræktarstöðin hlotið. Það voru skiptar skoðanir um hvort rétt væri að styrkja hana, en það var samþ. hér á hv. Alþingi.

Ég efast ekkert um að sérfræðingum getur yfirsést. Ég verð að segja það sjálfum mér til lasts, að ég hafði ekki búið mig undir þessar umr. þó að till. væri á dagskrá. En t. d. greinargerð dr. Guðmundar Péturssonar forstöðumanns á Keldum var að mínu mati eins hlutlæg og frekast var hægt að hugsa sér, en hún benti á þær veilur sem fylgdu þessum fiskstofni, að þótt heilbrigður væri gæti hann valdið smiti. Hann sýndi fram á að þetta hefði gerst í hinum ýmsu löndum og hvaða áhrif það hefði haft á lífríki þeirra staða. Þetta fannst mér vera sterk rök. Og ég minnist þess nú, að eftir þær upplýsingar, sem ég gaf í svari við fyrirspurn, hefur þetta mál ekki komið til umr. á hv. Alþ. fyrr en nú. Ég leit svo á að þeir hv. þm., sem þá sátu hér, hefðu gert sér grein fyrir að málið væri tvíþætt og ekki á færi nema sérfræðinga að fjalla um það.

Það var líka rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðh. áðan, að mótmæli gegn flutningi stöðvarinnar austur í Ölfus hafa borist. Hins vegar var það svo, að við ræddum það við fulltrúa Skúla að reyna að undirbúa þessa stöð þannig að það væri hægt að líta svo á að fyllstu kröfum væri þar fullnægt. Ég vil því segja það, að ég held að farið hafi verið að þessu með gát eins og hægt var, og eins það, sem ég vitnaði til áðan í sambandi við dönsku vísindastöðina, að láta rannsaka þennan fisk.

Út af því, sem hv. 5. landsk. þm. sagði um álverksmiðjuna og Grundartangaverksmiðjuna og þær kröfur sem hafa verið gerðar til þeirra, þá er það á allra vitorði að kröfur til mengunarvarna eru margfalt meiri á Grundartanga og eru þar taldar hinar fullkomnustu sem þekktar eru nú. Ástæðan fyrir því, að það á að fara að auka varnir í álverksmiðjunni, er einmitt sú, að veilur hafa komið fram í sambandi við þá verksmiðju og kröfum hefur ekki verið sinnt fullkomlega eins og hefði þurft að gera í upphafi í sambandi við mengunarvarnir þar. Og ekki orkar það tvímælis, að í nágrenni við þá verksmiðju hefur átt sér stað dauði búfjár sem er talið mega rekja til áhrifa frá þeirri verksmiðju. Þeir, sem þar áttu hlut að máli, urðu fyrir geysilega miklu tjóni og hafa ekki hlotið bætur enn þá. Hins vegar halda þeir uppi slíkum kröfum. Fjárhag þess fólks, sem varð fyrir því, ungs fólks, var algjörlega raskað og það er nú í miklum vandræðum. Þess vegna er skynsamlegt og gott að fara að þessu með gát.

Ég skal ekki hafa þessi orð öllu fleiri. En ég endurtek það, að meira þarf til heldur en enn er orðið til þess að koma mér inn á þessa nýju braut. Ég vil líka bæta því við, að ég er alveg viss um að n. sú, sem ráðh. hefur skipað, hefði verið skipuð í framhaldi af aðgerðunum s. l. vor, og þeim tillögum, sem hinn nýi sérfræðingur, sem beðið var eftir, hefur gert. Þá var ekki álitið að væri rétt að slátra regnbogasilungnum. Þess vegna eru orð mín hér fyrst og fremst aðvörunarorð í tvennum tilgangi: að fara með fullri varúð í sambandi við lífríkið og þær hættur, sem af slíku sem þessu geta stafað, og svo hitt, að það verður að gæta hófs í þeim kröfum sem á að gera til ríkisins í sambandi við bætur. Þar verður að fara með mikilli varfærni.