11.05.1979
Sameinað þing: 92. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4713 í B-deild Alþingistíðinda. (3911)

192. mál, velfarnaður sjómanna á siglingu og í erlendum höfnum

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það er ekki nokkur vafi á því í mínum huga a. m. k., að hv. þm. hreyfir hér merkilegu máli. Þetta er einn þáttur í viðfangsefni sem illa hefur verið að staðið af okkar hálfu fram til þessa. En þetta er einmitt sá þátturinn sem mjög brennur á mönnum núna og ákaflega sterkt er eftir leitað að eitthvað raunhæft verði gert í.

Í byrjun þessa þings fluttum við Alexander Stefánsson frv. um að sjómannastofur yrðu styrkhæfar samkv. félagsheimilalögum, þ. e. a., s. fengju greiddan stofnkostnað, 40%, hvort sem þær yrðu byggðar einar sér eða í tengslum við hótel eða félagsheimili eða verbúðir. Þetta frv. hefur fengið afgreiðslu í annarri þd., og ég vona að það fái afgreiðslu í þinginu. Ég var um tíma í haust að hugsa um að flytja till. í framhaldi af þessum frv.-flutningi, en hikaði þó við. Það er eins og lítið hafi sést eftir þó að menn hafi verið með tillögugerð um þetta efni á Alþ. Við gerðum einu sinni tilraun til þess nokkrir saman að flytja till. um að skora á viðkomandi ráðh. að undirbúa löggjöf um sjómannastofur sérstaklega. Hún náði ekki fram að ganga. Víð skrifuðum svo ráðh. Hann setti n. í málið og hún undirbjó frv., en það var aldrei lagt fram. Ég held að það hafi þótt óaðgengilegt í viðkomandi rn., og satt að segja fannst mér það líka. Þannig hefur ákaflega lítill árangur orðið af málatilbúnaði á Alþ. um þetta efni. En eins og ég sagði, ég var þó að hugleiða till. um þetta. Þá kom félagsmálapakkinn og ég áleit að það væri alveg rakið að inn í hann kæmu einmitt þessi mál, þessi þáttur í velfarnaðarmálum sjómanna, sjómannastofurnar og raunar ýmislegt fleira. Ég er nú ekki alveg viss um að þessi þáttur sé þarna innifalinn. Ég vona það þó enn þá, en ég held samt að það hafi verið alveg fyllsta ástæða til þess fyrir hv. þm. að flytja þessa tillögu. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við hana, þar sem ég legg til að beina þessari athugun inn á fleiri þætti þessa máls. En sá tillöguflutningur minn breytir ekki því, að hv. þm., flm. þáltill. ýttu hér á þann punktinn sem nú er kannske hvað mest í sviðsljósi og ætti að vera tiltölulega einfalt að leysa ef menn fást til að taka á því.

Þjónusta við það fólk, sem er á sjónum um lengri eða skemmri tíma, er eðlilega nokkuð sérstaks eðlis. Sjómann, sem er staddur í ókunnu plássi, skortir ótalmargt af því sem þeir hafa alveg sjálfkrafa sem stunda sína vinnu í nánd við heimili sitt. Hann vantar samastað, hann vantar, eins og hv. flm. rakti, aðstöðu til þess að tala í síma, til þess að skrifa bréf, til þess að ná í blöðin, ná til fjölmiðtanna, horfa á sjónvarp, ef það er fáanlegt o. s. frv., sem sagt fjöldamargt það sem aðrir en sjómenn hafa heima hjá sér sjálfkrafa. Hér á ég við sjómenn sem eru staddir í höfnum. Svo er það sérstakt mál, eins og hv. flm. reifaði sérstaklega, hvað varðar sjómenn á höfum úti um borð í skipinu, þessum einangraða vinnustað. Og eitt af því, sem á að vera hægt að láta þar í té, er ýmiss konar afþreyingar- og fræðsluefni, eins og t. d. það sem hægt er að flytja á segulbandsspólum, hvort sem það eru myndsegulbönd eða önnur segulbönd.

Það hefur ýmislegt verið gert til undirbúnings þessum málum hér. Menn hafa, eins og hv. flm. minntist á, töluvert rætt um möguleika á því að koma sjónvarpi til sjómanna beint, sjómanna á Íslandsmiðum, sjómanna á siglingu í kringum landið. Ég man eftir að Karvel Pálmason flutti um þetta till., og ég man að n., sem undirbjó áætlun um dreifingu sjónvarps, setti fram hugmyndir um hvað þetta mundi kosta og hvernig mætti standa að slíku. Og það satt að segja kostaði svo mikið að byggja sjónvarpsstöðvar fyrir fiskimiðin að mönnum hraus hugur við að leggja í það. Fyrir utan kostnaðinn er það vitanlega svo, að sjónvarp nýtist ekki úti á fiskimiðum eða á siglingu á sama hátt og í heimahúsum, því menn ganga þar vaktir og geta ekki safnast saman við tækið á sama hátt og fólk í landi. Þar koma myndsegulböndin til uppfyllingar, jafnvel þó að menn sæju sjónvarp. En ég er alveg sammála hv. flm., að það verður ekki til neinnar hlítar fyrr en þá ef hér kemur sjónvarp frá gervihnetti.

Það má geta þess hér, að það er eiginlega tvennt sem er að gerast þessar vikur í sambandi við sjónvarp til sjómanna úti á sjó. Annað er það, að það er kominn til landsins sendir sem verður settur upp á Arnarnesi við Ísafjörð og nær yfir það svæði sem menn kalla Hótel Grænuhlíð, þar sem skip liggja tíðum, og svo eitthvað á nálæg mið. Hins vegar er í pöntun og verið að framleiða sendi fyrir stöðina á Háfelli sem sjómenn ná af skipum við endilanga suðurströndina, eftir því sem greinargóður sjómaður hefur sagt mér. Þessi sendir mun hafa um það bil tífalt meiri orku en sá gamli svo það hlýtur að koma til góða á þessu svæði.

Á hinu leitinu var um tíma starfandi n. um þessi myndsegulbandsmál á vegum menntmrn., en hún náði ekki neinum verulegum árangri. Hún rak sig á það vandamál, sem hv. flm. minntist á, höfundarréttarmálin. Og nú hafa tveir lögfræðingar verið að grúska í þessu. Og enn má geta þess, að það eru þó nokkur íslensk skip nú þegar sem hafa tæki sem geta tekið upp sjónvarpsefni um borð og sýnt síðan. Nokkur skip, t. d. hjá Landhelgisgæslunni og eitthvað af farskipum og ég hygg líka einhver örfá fiskiskip, hafa slík tæki. Þetta er ákaflega handhægt, m. a. vegna þess sem ég minntist á áðan, að það hagar öðruvísi til um borð með það að horfa á dagskrá heldur en í landi.

Það eru nú þegar fyrir hendi nokkuð umfangsmiklar upplýsingar um þessi mál hjá nágrönnum okkar, eins og hv. flm. drap á. Þessum upplýsingum hefur verið safnað saman í sambandi við vissar athuganir hjá menntmrn., líka hjá samtökum sjómanna og enn í þriðja lagi hjá nýráðnum fulltrúa þjóðkirkjunnar sem vinnur að þessum sjómannamálum. Ég hef t. d. séð danskan samning. Það eru nokkuð margir aðilar sem standa að þeim samningi, bæði útgerðarmenn, sjómenn, höfundar og ég held útvarpsstöðvar eða þá rn. fyrir þeirra hönd o. s. frv. Og ef till. hv. þm. yrði nú afgreidd á Alþ., sem væri ekki nema mannsverk, þrátt fyrir það að hún sé seint á ferðinni, þá vona ég að þarna gæti hreyfing komist á þetta mál.

Ég verð að segja það, að það er alveg sérstaklega sorglegt hvað lítið hefur gengið hér heima og erfiðlega með rekstur sjómannastofa. Alþ. hefur veitt smástyrki, bæði stofnkostnaðarstyrki og rekstrarstyrki, til sjómannastofa. En ég held að það sé ekki ofmælt, að það er tiltölulega lítill árangur af þessum fjárveitingum og af þeirri viðleitni sem menn hafa vissulega sýnt á ýmsum stöðum. Þarna eiga ekki allir óskilið mál, og það eru til staðir sem hafa af myndarskap staðið að rekstri sjómannastofa, en þeir eru því miður ekki margir.

Nú hefur það komið til að Kirkjuráð hefur fyrir forgöngu biskups ráðið sérstakan starfsmann til þess að hafa forustu um þetta. Sú starfsemi er á byrjunarstigi og er mjög í mótun, en ég er alveg sannfærður um að til þessa fékkst mjög hæfur maður. Hann er kennari að menntun og eitthvað hefur hann meira unnið í skólum. Hann hefur starfað töluvert mikið erlendis, og ég held, að hann hafi alla burði til þess að verða hér að mjög góðu liði ef hann fær sæmilega aðstöðu til þess. En þó að Kirkjuráð telji sig geta launað manninn, þá mun vanta á að það geti látið í té fjármagn til þess að byggja upp starfsaðstöðu. En ég vona að komi út úr félagsmálapakkanum okkar ágæta einhver hjálp í þessu efni. Þarna þarf bæði að koma til hús og búnaður fyrir slíka miðstöð sem ég tel að bæði mundi hafa forustu um uppbyggingu starfs hér innanlands og jafnframt miðstöð til þess að hafa samband við stöðvar erlendis, en á því er gríðarlega mikil þörf, t. d. að koma blöðum til sjómannastofa erlendis. Það er hörmulegt til þess að vita, að enda þótt það sé bæði norrænt samstarf og alþjóðasamstarf um rekstur sjómannastofa víðs vegar og þá í þeim höfnum öllum þar sem íslensk skip koma fyrst og fremst, þá er héðan að heiman nálega ekkert samband haft við þessar stofur. Það var leitað til menntmrn. og fleiri rn., meðan ég var þar, um fjárstuðning til þess að senda út blöð. En það varð aldrei neitt úr neinu og ekkert fast samband haft við þessa staði. En t. d. til þess að senda dagblöðin á einar 10 stofur, sem þeir segja mér, sem hafa verið að skoða þetta, að væri nokkuð gott, þarf eitthvað rösklega eina millj. kr., — 1200 þús. hafa þeir áætlað.

Ég átti nýlega tal við bryta sem starfar hjá Eimskip. Einhvern tíma gerðist það að blöð voru send í einhver skipti á tiltekna sjómannastofu. Hann sagði að það hefði verið alveg ótrúlegt hvernig skipverjar hefðu farið hvað eftir annað upp á þessa sjómannastofu, sem hafði blöðin, til þess að fá fréttir að heiman. Það er reyndar ekkert ótrúlegt, því að það getur hver séð sjálfan sig í sporum þessara manna sem staddir eru í fjarlægri höfn.

Það er eitt atriði sem nú hefur hrakað í sambandi við það að hafa einhver tengsl við farmenn okkar þá sem lengst eru í burtu. Það hafa verið sendar út með morsi fréttir til skipa, og þetta er það eina samband sem skip ná eftir að þau eru komin í vissa fjarlægð frá Íslandi. En vegna einhvers ágreinings um það, hver skuli bera kostnað af þessu, hefur þessi útsending verið felld niður um sinn. Ég trúi ekki öðru en það verði á því tekið, það má til með að gera það. En þetta kostar nokkra fjármuni,— ég hygg að það kosti einar 4–5 millj. á ári. En þessi útsending næst á öllum þeim slóðum, skilst mér, sem okkar skip sigla á.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð miklu fleiri. Undir niðri er veruleg hreyfing á þessu máli, og afgreiðsla þessarar till. gæti orðið til þess að betur yrði fylgt á eftir. Við hljótum að leggja áherslu á viss atriði, eins og t. d. það að koma upp einhverri forustu um samstarf. Ég er ekki á því að það eigi að vera ríkisrekstur á sjómannastofum. En ég held samt sem áður að það sé mjög þýðingarmikið að efla slíka forustu, og ég þykist sjá möguleika til þess í gegnum starfsmann Kirkjuráðs og þjóðkirkjunnar sem ég nefndi áðan, sérstaklega af því að mér líst mjög vel á manninn. Þetta út af fyrir sig er mjög þýðingarmikið atriði, og þá á ég við að upp kæmi forusta bæði um tengst út á við og líka um það að laða til samstarfs ýmsa aðila innanlands sem ættu að starfa saman að þessum málum. Þar á ég m. a. við ríkið, kirkjuna, sveitarfélögin, sjómannasamtökin, samtök útgerðarmanna og ýmsa klúbba og félög. Ef tækist að laða þessa aðila til samstarfs mundu þeir verða átakamiklir.

Svo þarf vitanlega aukin framlög, ég neita því ekki, þó ég afþakki beinan ríkisrekstur á þessu sviði. Víða þarf að taka til hendi hér heima.

Sjómannastofur, þjónusta við skipin á sjónum og tengslin við erlendu sjómannastofurnar, það eru stóru þættirnir í þessu.

Ég skal ekki, herra forseti, tefja fundinn lengur, en segi það enn og aftur, að ég held að það væri mjög gott ef tækist að koma þessari till. til n. og síðan að afgreiða hana hreinlega.