14.05.1979
Efri deild: 100. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4723 í B-deild Alþingistíðinda. (3932)

277. mál, verslun ríkisins með áfengi

Frsm. meiri hl. (Jón Helgason):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á lögum, um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf. N. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. mælir með því, að frv. verði samþ., og byggir þá afstöðu sína á því, að það sé eðlilegt og rétt að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hafi einkasölu á vörum til framleiðslu á áfengi. Jón G. Sólnes leggur til að frv. verði fellt. Karl Steinar Guðnason og Eyjólfur K. Jónsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Ég held að þau blaðaskrif og bréfaskriftir, sem orðið hafa í sambandi við þetta frv., séu sterkari rök fyrir þessu áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. heldur en langt mál. En meiri hl. vill láta það koma fram, að þarna sé ekki aðeins um fjárhagsmál að ræða, heldur einnig heilbrigðismál, mjög alvarlegt heilbrigðismál sem virðist vekja vaxandi athygli á alþjóðavettvangi. Nægir þar að benda á yfirlýsingar sem komið hafa nú nýlega, m. a. frá Alþjóðaheilbrigðimálastofnuninni eða forstöðumanni hennar og heilbrrh. Bandaríkjanna.

Lögð hefur verið hér fram till. til rökstuddrar dagskrár frá Þorvaldi Garðari Kristjánssyni og Eyjólfi K. Jónssyni um að vísa þessu máli til ríkisstj. Ég vil síður en svo draga úr því, að áfengislöggjöfin verði endurskoðuð í þeim tilgangi að draga úr áfengisneyslu þjóðarinnar, stuðla að hófsemi í meðferð áfengra drykkja, efla bindindi í landinu og auka aðstoð við drykkjusjúklinga. En ég held að þetta allt sé hægt að gera þó að þetta frv. sé samþ. og það eigi miklu frekar að stuðla að því, að árangri verði náð í þessum málum, ef þetta frv. nær fram að ganga. Það má ekki draga úr aðgerðum, sem við teljum réttar, enda þótt æskilegt sé að rannsaka mál og skoða þau til hlítar, en það er hægt að gera, eins og ég sagði, þó að þetta frv. sé samþykkt.