14.05.1979
Neðri deild: 86. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4736 í B-deild Alþingistíðinda. (3953)

226. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við þetta frv., sem er um það að opna tvö hólf út af Vestfjörðum í því skyni að veiða meira af kola sem talinn er vannýttur og er vannýttur, því að í hann hefur ekki verið sótt í langan tíma. Það er farið fram á að opna þarna tvö lítil svæði í þessu skyni, og tel ég það af hinu góða að leyft skuli að sækja þennan fisk sem engum verður að gagni eins og er. Það er sérstaklega lagt til að opna þessi svæði á Vestfjörðum til þess að minni bátarnir, sem þar hafa stundað rækjuveiðar, hafi möguleika til annarra veiða, ef svo skyldi fara að rækjuveiðar yrðu bannaðar í framtíðinni með svipuðum hætti og varð á s. l. ári. Með þessum frv.-flutningi hafa hv. flm. því í rauninni lagt til að slá tvær flugur í einu höggi.

Brtt. mín við þetta frv. er ekki stór, jafnvel þó að hún sé fyrirferðarmikil á því þskj. sem hún er á, þskj. 579, því að hún er aðeins um annan lið 1. gr., þar sem lagt er til að syðra eða vestara svæðið, eins og það er kallað þarna fyrir vestan, verði opnað heldur síðar en nyrðra eða eystra svæðið.

Ástæðan til þessa tillöguflutnings er sú, að þegar þetta mál hafði verið lagt fram hér í þinginu bárust mótmæli frá þeim sem stundað hafa handfæraveiðar einmitt á þessu svæði sem áætlað er að opna, og það eru allmargir handfærabátar sem hafa sótt á þessi mið, aðallega um miðbik þessa svæðis, sem opna skal, út af Sléttanesi, og þeir hafa stundað veiðar svo lengi að ef á að opna þetta svæði 1. sept., eins og lagt er til í frv., munu togbátarnir koma ofan á þessa handfærabáta á sama tíma. Það hefur verið nokkuð um það, að þessir bátar hafi stundað handfæraveiðar þarna fram eftir hausti, og ástæða er til að ætla að þeir muni geta stundað þessar veiðar lengur og meira en gert hefur verið, með því að erfiðleikar hafa verið hingað til á því að þeir gætu losnað við sinn fisk.

Um þessa brtt. hefur verið rætt við hv. flm. og hefur náðst samkomulag milli mín og hv. flm., nema ég veit ekki um afstöðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar vegna þess að hann fór úr bænum, en hinir hafa fallist á að styðja þessa brtt. vegna þeirra mótmæla sem fram komu af handfæramanna hálfu að vestan, sem voru bæði skýr og mjög vel rökstudd.

Herra forseti. Ég held að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta, en vísa til þess, að ég hef rætt um þetta við hv. flm., nema hv. þm. Sighvat Björgvinsson, og þeir hafa fallist á að standa að þessari litlu breytingu.