14.05.1979
Neðri deild: 86. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4737 í B-deild Alþingistíðinda. (3954)

226. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það var rétt frá sagt hjá hv. síðasta ræðumanni, hv. þm. Garðari Sigurðssyni, hver var ástæðan fyrir því, að þetta frv. var flutt. Ástæðan var vandi rækjusjómanna í Arnarfirði og við Djúp sem hafa, eins og þm. er kunnugt, orðið að una því í vetur að geta ekki stundað veiðar með eðlilegum hætti. Það kom hins vegar ekki fram hjá hv. þm., sem væntanlega kom þó fram í framsögu með þessu máli og er hv. þm. Sverrir Hermannsson gerði grein fyrir áliti sjútvn. s. l. föstudag og ég hygg að hafi verið eindregin skoðun Hafrannsóknastofnunar og fiskifræðinga hennar, og sú skoðun nýtur bæði stuðnings og velvilja sjútvrn., að æskilegt sé að opna fyrir togveiðum svæðið upp að 4 mílum allt frá Bjargtöngum og norður úr. Ástæðan fyrir þessum tillögum Hafrannsóknastofnunar, sem hafa borist bæði þm. Vestfirðinga, sjútvrn. og hv. sjútvn. í tilskrifi frá þeim, er sú, að þarna er um að ræða talsverða veiðimöguleika á vannýttum fiskstofni, kola, sem Hafrannsóknastofnunin telur að vinda verði bráðan bug að að heimila veiðar á.

Við flm. þessa frv. gerðum okkur það ljóst, að þarna opnaðist möguleiki fyrir minni bátana í Arnarfirðinum og í Ísafjarðardjúpi, sem hafa orðið mjög illa úti á rækjuvertíð í vetur og hætta er á að sögn sjómannanna sjálfra að vera kunni að ekki gefist færi á því á næsta vetri að stunda rækjuveiðar með eðlilegum hætti. Því varð það niðurstaða okkar flm. að fallast á það og hafa frumkvæði um það hér í Nd. Alþ. að opna á þessum slóðum fyrir veiðum á kola, ekki líkt því eins mikið og Hafrannsóknastofnunin hefur eindregið óskað eftir, heldur aðeins tvö lítil hólf, annað út af Arnarfirði og hitt út af Fljótavík og Aðalvík, á tímabilinu frá 1. sept. til 30. nóv. ár hvert, til þess að gefa mönnum, sem hafa lagt í mikinn kostnað og hafa atvinnu sína af sjósókn á smærri bátum, tækifæri til að stunda atvinnu við sjómennskustörf.

Eins og fram kemur var ástæðan fyrir því, að við létum okkur nægja að gera aðeins till. um þessi tvö hólf, en ekki um alla þá opnun sem Hafrannsóknastofnunin mælti eindregið með, sú að við vildum líka taka tillit til handfærasjómanna sem þarna eiga hlut að máli. Þegar frv. þetta hafði komið fram, — og ég vil taka fram að það var flutt og er flutt í samráði við sjómenn í Arnarfirði og sjómenn við Djúp sem hafa mjög eindregið óskað eftir þessari breytingu og eru um það alfarið sammála Hafrannsóknastofnun og sjútvrn., — þegar þetta mál hafði verið flutt bárust sjútvn. og okkur þm. Vestf. mótmæli handfærasjómanna á þremur stöðum: í Súgandafirði, á Flateyri og Þingeyri, og aths. frá hreppsnefnd á einum af þessum stöðum. Við kynntum okkur þessi mótmæli og kom í ljós, t. d, við athugun sem ég gerði vestur á fjörðum nú um helgina þegar ég var þar, að eftir 1, sept. er nánast ekki lengur stunduð handfæraveiði út af Vestfjörðum nema í mjög litlum mæli. Aflaskýrslur undanfarinna ára sýna þetta glögglega. Menn fara að hætta á handfærum upp úr miðjum ágúst og þegar komið er fram undir miðjan sept. er því næst enginn handfæramaður lengur á sjó, þó að nokkrar undantekningar séu að sjálfsögðu frá því.

Við flm. þessa frv. töldum að þarna væri um að ræða, eins og oft áður, að hagsmunir tveggja aðila færu ekki saman, en við töldum hagsmuni rækjuveiðisjómanna við Djúp og rækjuveiðisjómanna í Arnarfirði í þessu tilviki þyngri á metunum en hagsmuni hinna. Hv. þm. Garðar Sigurðsson kynnti brtt. sína, sem hann hefur flutt, á fundi sjútvn. sem hugmynd, og við bentum á að það væri mjög óæskilegt með þessi tvö hólf að hafa annan opnunartíma á nyrðra hólfinu en því syðra og eðlilegast væri að opnunartíminn á þeim báðum fylgdist að. Þá buðum við tveir af flm. frv., hv. þm. Matthías Bjarnason og ég, flm. brtt. það samkomulag að færa opnunartíma hólfanna beggja aftur um hálfan mánuð eða til 15. sept., þegar heyrir til algerra undantekninga að handfæramenn séu lengur á sjó þó að slíkar undantekningar séu til. En gleggstu dæmin um, hversu fáar þær eru, eru aflaskýrslur frá síðasta ári. Hv. þm. athugaði málið nánar og taldi sig ekki geta fallist á þessa málamiðlun.

Þegar svo skammt er til þingloka sem raun ber vitni er það vísasti vegur til þess að drepa þingmál, einkum og sér í lagi þingmál sem ekki er stjórnarmál, heldur flutt af þm., að ágreiningur komi upp um málið í þinginu. Okkur er því nauðugur einn kostur, flm. frv. — a. m. k. okkur tveimur fyrri flm., hvað sem um aðra má segja — til þess að fá þetta frv. samþykkt að fallast á brtt. hv. þm. Garðars Sigurðssonar, því að við teljum málið það mikilvægt hagsmunamál sjómanna við Djúp og í Arnarfirði að betra sé, að það mál fáist samþykkt með brtt. hv. þm. en ekki. Þess vegna tókum við þá ákvörðun, hv. 1. flm. þessa frv. og ég, að leggja til, þrátt fyrir það sem fram hefur komið í mínu máli, að till. hv. þm. Garðars Sigurðssonar verði samþ. í þeirri von að málið komist þá í höfn.