14.05.1979
Neðri deild: 86. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4739 í B-deild Alþingistíðinda. (3955)

226. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég er einn af flm. þess frv. sem hér er til umr., og með tilliti til þess, að hv. 4. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson, sem hér var að ljúka máli sínu, gerði nokkra grein fyrir eigin afstöðu svo og afstöðu hv. 1. þm. Vestf., sem er 1. flm. að þessu frv., en mín afstaða kom hins vegar ekki fram í hans máli, þá vil ég segja hér örfá orð.

Ég stend fyrst og fremst upp til þess að taka fram að ég vil einnig fallast á brtt. hv. þm. Garðars Sigurðssonar um það, að annað þessara tveggja hólfa, sem frv. gerir ráð fyrir að opnuð verði fyrir botnvörpuveiðum, verði opnað l . okt., eins og brtt. gerir ráð fyrir, en ekki 1. sept., eins og upphaflega var miðað við í frv. Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta efni mörgum orðum, en tek fram að með þessari ákveðnu breytingu er verið að taka tillit til eindreginna andmæla frá handfærasjómönnum í Vestur-Ísafjarðarsýslu sem munu nær allir hafa undirritað andmæli gegn samþykkt frv. í sinni upphaflegu mynd, og sömuleiðis bárust andmæli frá a. m. k. einni hreppsnefnd á þessu svæði. Rétt er að taka það fram, að allmargir handfærasjómenn á Vestfjörðum eru hættir handfæraveiðum strax í ágústlok. Þetta gildir þó miklu fremur um sjómenn við Djúp, sem stunda þá frekar veiðar á því svæði sem samkv. brtt. er verið að gera ráð fyrir að verði opnað 1. sept., eins og frv. miðaði við, fyrir botnvörpuveiðum, en síður um sjómenn í Dýrafirði, Önundarfirði og Súgandafirði sem ýmsir hverjir stunda veiðar lengur fram eftir hausti og leggja þess vegna meira upp úr því að vestara svæðið, út af Dýrafirði og Sléttanesi, verði ekki opnað fyrir botnvörpuveiðum fyrr en 1. okt. Og það er reyndar rétt að það komi fram, að handfærasjómenn í þessum byggðarlögum vildu ýmsir gjarnan stunda handfæraveiðar jafnvel fram í okt. ef þeir ættu þess kost að koma frá sér afla á þeim tíma.

Ég orðlengi ekki um þetta frekar, en tek fram að ég er einnig tilbúinn að fallast á brtt. hv. þm. Garðars Sigurðssonar.