14.05.1979
Neðri deild: 86. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4740 í B-deild Alþingistíðinda. (3958)

270. mál, aðstoð við þroskahefta

Páll Pétursson:

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. síðasta ræðumanns gerði ég fyrirvara um eina grein frv., 25. gr., sem hljóðar þannig:

„Tekjur sjóðsins eru:

a. Ríkissjóður skal árlega leggja sjóðnum til a. m. k. 1000 millj. kr. Skal sú fjárhæð hækka í hlutfalli við verðlagsvísitölu miðað við árið 1979 að grunni.

b. Frjáls framlög og aðrar tekjur, er til kunna að falla.

c. Vaxtatekjur.“

Ég lít svo á að á þskj. 556, frv. til l. um aðstoð við þroskahefta, sé hreyft mjög merkilegu máli, og ég hygg að þetta sé gott frv. Það er nauðsynlegt að setja þessi lög. Mér sýnist í fljótu bragði að þau séu samin af mikilli þekkingu á högum þessa fólks og af mikilli samúð með þessu fólki. Og ég held að það sé mjög brýnt að afgreiða þetta mál. Því vil ég leggja það lið sem ég má.

Hvað varðar þær breytingar, sem gerðar voru á frv. í Ed., þar sem tekinn var inn í frv. hluti af öðru þingmáli um Framkvæmdasjóð öryrkja, þá hef ég aths. fram að færa um þessa fjármögnun. Það er náttúrlega alveg ljóst, að þessi sjóður þarf á fé að halda og hann þarf á miklu fé að halda. En ég er ekki alveg jafnviss um að 1000 millj. kr. að viðbættri verðlagsuppbót á þá upphæð sé til frambúðar endilega sú nákvæmlega rétta upphæð. Það kann að vera að þetta sé meira, og það kann að vera að einhver ár megi komast af með aðeins minna. Ég stóð hér í vetur að lagasetningu sem heitir: Lög um stjórn efnahagsmála o. fl. og samþ. voru á Alþ. 7. apríl s. l. Þar segir í 8. gr.:

„Fyrir árslok 1979 skulu ákvæði í lögum, sem kveða á um skyldu ríkissjóðs til fjárframlaga til sjóða og einstakra verkefna með föstum reglubundnum hætti, tekin til endurskoðunar og það kannað, að hve miklu leyti fjárframlög til þessara þarfa verða framvegis ákveðin með fjárlögum ár hvert, og í áætlun með fjárlagafrv. næstu þrjú árin eftir lok hvers fjárlagaárs, sbr. 7. gr. Við endurskoðun þessa skal höfð sérstök hliðsjón af stöðu og verkefnum einstakra sjóða, m. a. með tilliti til félagslegra markmiða. Samráð skal haft við hagsmunaaðila.

Endurskoðun þessi skal jafnframt taka til ákvæða í lögum er kveða á um mörkun einstakra tekjustofna til sjóða og verkefna.“

Þannig hljóðar þessi grein í nýsettum lögum. Mér finnst ekki fullkomið samræmi í 25. gr. frv. um fjármögnun Framkvæmdasjóðsins og þessum nýsamþykktu lögum og þannig er fyrirvari minn til kominn.