14.05.1979
Neðri deild: 86. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4743 í B-deild Alþingistíðinda. (3966)

293. mál, grunnskólar

Frsm. minni hl. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Eins og komið hefur fram, varð n. ekki sammála um afgreiðslu þessa frv. Nál. mitt er á þskj. 702 og þar legg ég til að þetta frv. verði fellt. Frv. er flutt í tengslum við framhaldsskólafrv. og tilgangur þess að bæta sveitarfélögum þann kostnaðarauka sem þau verða fyrir vegna þess frv. Með þessum hætti hyggjast stjórnarflokkarnir þvo hendur sinar gagnvart sveitarfélögunum vegna þess kostnaðarauka sem þau leggja þeim á herðar.

Skipting kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga samkv. framhaldsskólafrv. gengur þvert á óskir sveitarfélaganna og raunar þvert á stefnu stjórnmálaflokkanna yfirleitt.

Þeir hafa lýst því yfir, að þeir vilji hrein skipti milli ríkis og sveitarfélaga á fjármálasviðinu og dreifingu valds, vilji aukin verkefni til sveitarfélaga og fjármálalega ábyrgð þeirra í samræmi við hin auknu verkefni. Með þessu frv., breytingu á grunnskólalögunum, er einnig gengið þvert á stefnu sveitarfélaganna að því er varðar samskiptin við ríkissjóð. Í grg. frv. er sagt að ákvæði grunnskólalaganna, eins og þau hafa verið frá 1975, hafi ekki reynst vel. Þetta er rangt. Breytingin 1975 var til einföldunar í samskiptum ríkis og sveitarfélaga, en nú á að stiga til baka það skref, sem þá var stigið, og flækja málið að nýju. Nokkrir menn fá vinnu í rn. við að reyna að greiða úr þeim flækjum, sem örugglega myndast ef þetta frv. verður samþ. Verði framhaldsskólafrv. samþykkt í því formi sem nú er, þá er vissulega lagður aukinn kostnaður á sveitarfélögin. En það ber að bæta þeim með öðrum hætti en þessum. Annaðhvort á að veita þeim tekjustofna, ríkið gefi þeim eftir eitthvað af sínum tekjustofnum, eða þá að létta af þeim tilsvarandi útgjöldum. Með þessu frv. er versta leiðin valin, þ. e. að skipt er kostnaði við tilteknar framkvæmdir á milli þessara aðila.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta, en með vísun til þess, sem ég hef hér sagt, legg ég til að þetta frv. verði fellt.