14.05.1979
Neðri deild: 86. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4749 í B-deild Alþingistíðinda. (3985)

147. mál, verðgildi íslensks gjaldmiðils

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hlýddi með athygli á hv. 7. þm. Reykv. tala um endastöð í efnahagsráðstöfunum Alþfl. Ég held að það skipti ekki máli hvort þessi till., sem hann gat um, um breytingu á verðgildi krónunnar verði aftast eða fremst þeirra tillagna. Ég held að ríkisstj. sé komin að sinni endastöð í svo mörgum málum, þ. á m. í efnahagsmálum, hvort sem farið verður eftir till. Alþfl., sem þar voru fram settar, eða ekki.

En af mörgu því vitlausa, sem komið hefur fram frá þessari ríkisstj., held ég að þetta sé með því vitlausara. Ég sé ekki betur en hér sé ætlast til þess að landsmenn kaupi 1 krónu á 100 krónur og þessi 1 króna verði jafngildi 100 króna hvort sem menn vilja eða vilja ekki. En hér er ekki verið að auka verðgildi íslensks gjaldmiðils með því að kaupa nýja íslenska peninga eins og um erlendan gjaldeyri væri að ræða. Ef menn halda að breyttur hugsunarháttur, vegna þess að upphæðin minnki, skapi einhvern velvilja meðal þjóðarinnar til nýju krónunnar og fólk haldi að það hafi eitthvað meira verðmæti í höndunum þegar það hefur eina nýja krónu heldur en 100 krónu seðilinn í dag, þá er þetta mesti misskilningur. Og ég get talað af nokkurri reynslu þar sem ég bjó í Frakklandi þegar gjaldmiðilsskiptin urðu þar. Þrátt fyrir ýmsar aðrar vitrænar ráðstafanir, sem gerðar voru samhliða breytingunni á frankanum, þá hugsar fólkið enn í dag í gömlum frönkum. Og jafnvel börn, sem ekki voru fædd þá, hugsa í gömlum frönkum í dag. Með þessu frv. er slegið vindhögg.

Ef menn vilja gera einhverjar vitrænar ráðstafanir, þá skulum við reyna að auka verðgildi íslensku krónunnar. Við skulum vona að það komi einhvern tíma til valda hér ríkisstj., sem hætti að hlaða hlutfallslega á innkaupsverð erlendra vara sem fluttar eru til landsins, og við byggjum á flestum sviðum lífsviðurværi á innfluttum afurðum. Við byggjum tilveru okkar á því sem við kaupum erlendis frá, og í hvert skipti sem verðsveiflur eiga sér stað erlendis heldur ríkið sömu prósenttölu í álagningu tolla og fleira, sem gerir það að verkum að álagið margfaldast alltaf og þar með krónutöluupphæðin til ríkisins sjálfs. Ef við viljum auka verðgildi íslensku krónunnar skulum við hætta þessum leikaraskap. Þetta er ein af aðalástæðum þess vanda, sem við höfum við að glíma núna, og við viðhöldum honum með því að halda þessum leik áfram í hvert skipti sem einhverjar sveiflur eiga sér stað erlendis.

Nei, ég mun leggjast móti þessu máli við atkvgr. Ég tel þetta vitlaust frv. sem aldrei hefði átt að komast í gegnum Ed. En þegar hæstv. fyrrv. fjmrh., sem að mínu mati gerði aldrei mark þegar hann var fjmrh., ætlar að halda áfram að brenna af eftir að hann er hættur í embætti, þá er eins gott að fara að segja honum svona hvað líður, að venjulegur leikur stendur 90 mínútur og dómarinn er löngu búinn að flauta.

Ég skal ekki um það segja, hvernig virðing er metin og hvað er ekki samboðið virðingu manna. Ég skil það ekki. Ég tel að það sé fyllilega samboðið minni virðingu, hvort sem hún er mikil eða lítil miðað við virðingu flm. þeirrar brtt. sem hér var lögð fram áðan og ég hef ekki enn þá lesið, að halda áfram að nota krónuna íslensku. Þetta er samnorrænn gjaldmiðill og ég hefði haldið, miðað við þá þróun sem hefur verið í samskiptum norrænna þjóða undanfarið, að það gæti kannske endað með því, að það yrði samnorrænn gjaldmiðill, og hann kemur áreiðanlega ekki til með að heita mark. (Gripið fram í.) Það getur vel verið, það er í miklum minni hl. En alla vega mun ég vera á móti þeirri till. líka og fagna því, að hún var felld í Ed., og vona að hún verði felld hér í þessari hv. deild.