14.05.1979
Neðri deild: 86. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4751 í B-deild Alþingistíðinda. (3987)

147. mál, verðgildi íslensks gjaldmiðils

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal ekki verða langorður um það frv. sem hér liggur fyrir. Það hefur þegar hlotið mikla umr. bæði í blöðum og eins hér á hv. Alþ. Þó er rétt að ítreka það sem hér hefur komið fram, að auðvitað er tilgangurinn með því að flytja slíkt frv. tvíþættur: annars vegar að gera nauðsynlegar ráðstafanir, sem eru mestmegnis bókhaldslegar og tæknilegar, en hins vegar var þessi ráðstöfun hugsuð sem eins konar endastöð, eins og ákveðinn þm. orðaði það, til þess að auka trúna á íslenskan verðmæli, en gert er ráð fyrir að verðbólgan sé a. m. k. sumpart af sálfræðilegum toga spunnin, ef svo má að orði komast.

Það eru margir sem spyrja að því, hvaðan verðbólgan komi og hvert hún fari, og kannske er besta lýsingin á því, hvað verðbólga er, eins og ágætur útgerðarmaður orðaði það, en hann er nú reyndar ekki í mínum flokki, heldur í alveg andstæðum flokki, lengst til vinstri, Stefán Pétursson á Húsavík, þegar hann sagðist hafa komist að raun um það hvað væri verðbólga og gengisfelling strax í æsku. Þeir voru tveir bræður, aldir upp hjá móður sinni frammi í sveit, og hún átti eina geit og gaf þeim bræðrum geitamjólk úr henni. Þegar svo systkinahópurinn stækkaði minnkaði mjólkin sem þeir fengu hver í sinn bolla og þeir heimtuðu að sjálfsögðu jafnmikla mjólk og áður. Þá fór gamla konan í pottinn og sótti þar vatn, sem hafði verið sótt út í brunn, og setti vatnið saman við mjólkina. Og það er einmitt þetta sem er besta lýsingin á því hvernig verðbólgan verður til, að í stað sterkrar mjólkurblöndu er hún þynnt út og fólkið látið drekka undanrennu. Það sama gerist þegar kröfurnar verða meiri til verðmiðilsins og gæðanna en hægt er að standa undir. Það má því segja, að með þessum ráðstöfunum séum við kannske að auka trúna á verðmælinn, fá okkur kannske rjómablöndu, svo að ég haldi áfram með líkinguna.

Varðandi þetta er svo rétt að það komi fram, að áður en til þess kemur að við breytum okkar verðmæli eins og till. gerir ráð fyrir er auðvitað nauðsynlegt að framkvæma gífurlega miklar efnahagsráðstafanir. Og ég skal viðurkenna það, að ég lagðist nú heldur gegn því að þessi breyting ætti sér stað, þar sem ég hélt, fyrst þegar frv. kom, að þetta ætti að gerast um næstu áramót. Ég átti að sjálfsögðu von á því, að vinstri stjórnin, sem nú situr, hæstv. ríkisstj., sæti þá að völdum, og allir þekkja slíkar stjórnir og vita til hvaða ráðstafana þær grípa og hver afleiðingin er af slíkum stjórnum.

En merki þess, að sú ríkisstj. sé nú að leggja upp laupana, held ég að best sjáist á ummælum hæstv. viðskrh. Hann er farinn að tala um hvað þjóðarbúið sé vel á sig komið og hve vel ári hér á landi. Þá fer maður að verða dálítið tortrygginn og maður satt að segja fer að hugsa: Hvað á maðurinn við? Og auðvitað kemst maður að þeirri niðurstöðu, að hann sé byrjaður að undirbúa kosningabaráttuna. Hann er farinn að undirbúa Þjóðviljaskrifin þar sem sýna á þjóðinni fram á að þessi ríkisstj. hafi leitt þjóðina fram á veginn. En í trausti þess, að hér verði á næstunni e. t. v, gerð sú stórkostlegasta efnahagsráðstöfun sem gerð hefur verið með þjóðinni, þá er ég heldur jákvæður til þessa frv. nú. Sú ráðstöfun, sem þjóðin þarf að gera, stærsta og merkasta efnahagsráðstöfunin sem þessi þjóð getur gert og hefur nokkurn tíma gert, er auðvitað að kjósa Sjálfstfl. einan í meirihlutaaðstöðu hér á landi. Þetta hefur auðvitað breytt mínum viðhorfum. Við eygjum það, sjálfstæðismenn, að slíkt geti gerst innan tíðar, og höfum bandamann í hæstv. viðskrn. og reyndar í allri ríkisstj. þótt það hafi ekki verið tilgangurinn í upphafi.

Varðandi nafnið á myntinni íslensku hallast ég frekar að því að nota merkurnar og bendi á það, að hér á Norðurlöndum eru ekki eingöngu konungdæmi. Það er lýðveldi í Finnlandi og þeir nota merkur þar. Að sjálfsögðu þarf nokkurn tíma til þess að aðlaga okkur að slíku, en ég reikna nú með að eitt og hálft ár ætti að nægja til þess að kenna jafnvel þeim sem eru vitlausastir okkar að beygja það orð rétt.